26.3.2011 | 22:25
Áfram framfarir.
Á níunda áratug síðustu aldar urðu stórstígar framfarir í vetrarferðum á Íslandi þegar til sögu komu 33ja, 35, 38 og 44 tommu jeppadekk, sem hægt var að hleypa þannig úr lofti að spor hjólbarðanna í snjónum verða stærri og þeir fljóta betur á snjónum en ella.
Hvert afrekið rak annað, þriggja jökla ferð Arngríms Hermannssonar, Valda rakara og kó og jeppa ekið upp á hæsta tind landins af eigin vélarafli 1991.
Ásamt hjólbörðunum stóru komu til skjala margs kyns tæknilegar nýjungar með læsingum og tvöföldum millikössum, nítró-innspýtingu í bensínvélar o. s. frv.
Jafnframt þessu urðu miklar framfarir einnig í breytingum á litlum og ódýrum jeppum eins og Suzuki.
Hér fyrir ofan sjáum við 150 þúsund króna blæjujeppa Geo Tracker (Ameríska gerðin af styttri gerð Vitara) á 35 tommu dekkjum sem ég notaði til að fara að hraunfossi eldgossins á Fimmvörðuhálsi og stóð sig mjög vel.
1999 var farin eina jeppaferð sögunnar austur og vestur yfir Grænlandsjökul og fyrir nokkrum árum var ekið á Suðurpólinn.
"Gróðærið" mikla færði Íslendingum að vísu Hrunið en líka stóra bandaríska pallbíla á allt að 54 tommu dekkjum.
Öflugustu bílarnir af þessu tagi eru yfirburðabílar við erfiðar aðstæður þótt líka séu til aðstæður þar sem þeir njóta ekki sinnar miklu stærðar.
Þeir eru í raun nýjasta stóra framfaraskrefið á þessu sviði og virðist enginn endir vera enn í sjónmáli varðandi tæknisókn Íslendinga á þessu sviði.
Fram til 1992 var ég fráhverfur því að prófa jöklaferðir á eigin bíl og sagði við Benna í Bílabúð Benna að ég væri fyrst og fremst flugmaður þegar kæmi að því að komast leiðar minnar utan þjóðvegakerfisins.
Honum tókst hins vegar að sannfæra mig um gildi þess að útvíkka ferðamöguleikana í fréttaöflun og dagskrár- og kvikmyndagerð með því að rísa gegn gömlu, grónu svari við því, hvort reyna ætti að komast leiðar sinnar, sem hafði verið: "Það er ófært."
Það opnaði alveg nýja vídd að sjá þessa skilgreiningu þoka fyrir fögnuðinum yfir djúpum snjó sem ruddi burt orðinu "ófært."
Auðvitað var þetta ekki alveg svona einfalt, og mikla aðgát og útsjónarsemi þarf við vetrarferðir um hálendi og jökla.
Ég hef áður bloggað um þann misskilning að það þurfi að vera dýrt og aðeins fyrir flugríkt fólk að komast á fjöll á fjallajeppa. Finna má pistla mína um þetta með því að setja leitarorðin "Þjóðsagan um dýru jöklajeppana" eða "Rannsóknarferð á Vatnajökul" inn í leitarrammann efst til vinstri hér á síðunni.
Skelli hér inn nokkrum myndum úr Rannsóknarferðinni á Vatnajökul 2009, sem ég fór á minnsta jöklajeppa landsins, Suzuki Fox ´86.
Vegna tæknilegra mistaka tvíbirtist sama myndin ofan af Bárðarbungu þar sem stór jöklajeppi er að draga annan úr festu, en minnsti jöklajeppi landsins stendur hjá og horfir sposkur á.
Neðst má síðan sjá mynd af hjólfarinu eftir Súkkuna til vinstri og hina jeppana til hægri.
80 jeppar yfir Sprengisand | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.