8.4.2011 | 14:32
Líka þríhyrninginn á Rauðarárholti.
Það er mjög þarft mál að friða verkamannabústaðina við Hringbraut. Þetta eru stórmerkar og einstæðar byggingar í sögu þjóðarinnar.
En mér finnst þetta gott tilefni til að taka upp annað mál, friðun "þrýhyrnings" verkamannabústaða og annarra húsa á Rauðárárholti, sem segir byggingarsögu þjóðarinnar frá árunum eftir verkamannastaðina í Vesturbænum, á árunum 1940-1965.
Á þessum árum, einkum árunum 1940-1950, urðu mestu breytingar á þjóðarhögum í sögu þjóðarinnar og á fáum ef nokkrum stöðum á landinu endurspegla íbúðabyggingar þetta betur en á Rauðarárholti.
Á þríhyrningi, sem markaðist af Stórholti, Háteigsvegi og Einholti voru byggðir verkamannabústaðir, en utan við verkamannabústaðina, á norðurhlið Stórholts og suðurhlið Háteigsvegar eru hins vegar hús einkaframtaksins.
Samhliða húsaröð einstaklingsframtaksins við Stórholt rísa síðan nýir verkamannabústaðir við Stangarholt strax eftir stríðið, sem eru áberandi stærri en verkamannabústaðirnir upp suðurhlið Stórholts og saman segja þessar húsaraðir á dásamlegan hátt frá kjörum þjóðarinnar á þessum árum.
Húsin í þríhyrningnum eru þakin gráum skeljasandi, sem var höfuðeinkenni á húsum þessarar tíðar og sést til dæmis vel í Norðurmýri og einnig um allt land.
Styrkja þarf þá sem þyrfti að endurnýja ytra byrði húsanna til að kljúfa viðbótarkostnað, sem felst í því að setja skeljasand utan á húsin.
Skipulag hverfisins er athyglisvert þar sem þvert í gegnum það voru litlar tengigötur og göngugata í gegnum leikvöll, sem var í miðju þess.
Mér rennur blóðið til skyldunnar því ég ólst upp í Stórholtinu í aldeilis dæmalausu umhverfi í rúmlega 1000 manna þorpi sem stóð þá á holtinu með Klambratún á aðra hliðina en autt holtið á hinar hliðarnar og hermannabragga fyrir ofan og neðan.
Saga fólksins í götunni er líka sérstök vegna mannlífsins sem þar var og kemur að hluta til fram í mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, sem ólst upp í Stórholtinu.
Er vafasamt að jafnmargt þjóðfrægt fólk hafi verið á ferli á jafn litlum bletti á sama tímabili.
Ef við töku litlu tengigötuna milli Meðalholts og Stórholts sem miðju er allt þetta fólk í götunni á um það bil 200 metra kafla frá Einholti til Stórholts:
Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri LÍÚ í marga áratugi, Bjarni Böðvarsson og sonur hans Ragnar Bjarnason, Pétur Pétursson þulur og dóttir hans, Ragheiður Ásta Pétursdóttir, Kristján Kristjánsson og sonur hans Pétur Kristjánsson, Baldur Scheving knattpsyrnumaður í Fram, - og síðan upp Stórholtið (set inn nokkra minnisverða karaktera í svigum) : Oddur sterki af Skaganum, Pétur Hannessson og dóttir hans Sólvegi Pétursdóttir, alþingismaður og forseti Alþingis, (kaupmaðurinn á horninu, Bernhard Arnaar og synir hans, Örn skurðlæknir og Björn), aðstoðarmaður kaupmannsins, Ámundi Ámundason, (Villi sleggja), Gunnar V. Andrésson, ljósmyndari, Hafsteinn miðilll (Ingólfur Hólakot) Jónína Þorfinnsdóttir, kennari og formaður Hvatar og fleiri félaga, Jón R. Ragnarsson, rallkappi, "Snæra-Mangi" leigubílstjóri, Hilmar Karlsson, kvikmyndagagnrýnandi, (......"fulla", sögupersóna í Bíódögum sem "var í Kananum og sneri síðar við blaðinu og gerðist reglusöm og virðuleg frú) , Eyþór Gunnarsson, læknir, og sonur hans, Gunnar Eyþórsson fréttamaður, fyrri maður Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur, hans sonur síðan Eyþór Gunnarsson, hljómlistarmaður, Helgi Kristjánsson, glímukappi, hans sonur Davíð Helgason, landsliðsmaður í körfubolta, Sigríður Hannesdóttir verkalýðsfrömuður, Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndagerðarmaður, Kristín Ólafsdóttir, söngkona og síðar borgarfulltrúi.
Læt hér staðar numið en vísa á rölt mitt og Sigurlaugar systur minnar með Lísu Pálsdóttur um hverfið nú um daginn í tveimur þáttum Lísu Páls.
Friða verkamannabústaðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú nefnir Gunna bróður, en hvers á ég að gjalda (og Siggi eða Hanna)? Annars var ég að keyra upp gömlu götuna okkar rétt áðan og hún er dauð. Steindauð. Hún er líka hálf lokuð bæði að ofan og neðan, en þegar við vorum ungir voru a.m.k. fjórir strætisvagnar stöðugt á ferðinni. Lokun Stórholtsins (að mestu) hefur haft svipaðar afleiðingar og fyrirhuguð lokun Austurstrætis. Allt deyr.
Vilhjálmur Eyþórsson, 8.4.2011 kl. 16:23
Mikið er ég sammála þér Ómar þríhyrningnum verður að bjarga. Ég er svo lánsamur að búa í einum af þessum gömlu húsum, en að okkur er sótt úr öllum áttum. Við búum nú við hálfa götu og hér við Einholtið er ein stærsta hola í bænum c.a. 8 metra djúp. Nokkra metra frá mínu lágreista húsi á að byggja 6 - 8 hæða blokk með 519 íbúðum fyrir námsmenn. Ef af því verður er eins gott að koma bara með stóru jarðýtuna strax...
Hér er kort: http://maps.google.is/maps?f=q&source=s_q&hl=en&geocode=&q=Einholt,+Reykjav%C3%ADk,+H%C3%B6fu%C3%B0borgarsv%C3%A6%C3%B0i&aq=&sll=64.140174,-21.910794&sspn=0.003051,0.013078&ie=UTF8&hq=&hnear=Einholt,+Reykjavik&ll=64.139982,-21.910526&spn=0.003051,0.013078&t=h&z=17
Björn Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 17:51
Fyrirgefðu, Vilhjálmur, en þetta var svo mikið mannval að eitthvað hlaut að gleymast eftir öll þessi ár. Ég gerði eitt sinn pistil í Dagsljós um rúntana á Akureyri, Akranesi og í Reykjavík.
Sá reykvíski var steindauður en hinir sprelllifandi. Ástæðun tel ég þröngsýnina sem ríkir hér í borg okkar.
Á Akureyri hafa þeir það þannig að um Hafnarstrætið streymir gangandi og fólk og bílar í sátt og samlyndi en um næstu götu fyrir austan streyma bílar, sem aka rúnt á móti hver öðrum.
Í gamla daga var líf og fjör á rúntinum í Reykjavík vegna þess að meirihluti fólks var gangandi og það að "sýna sig og sjá aðra" með blandaðri umferð gangandi og akandi gekk fullkomlega upp.
Á Akureyri hafa menn áttað sig á því að nú eiga svo miklu fleiri bíla en áður og halda rúntinum lifandi með því að hafa umferðina þannig að bílarnir mætast allan "rúntinn".
Allir sjá alla, en þannig er það ekki þegar bílar aka í einstefnu hver á eftir öðrum.
Auðveldlega mætti skipuleggja umferðina þannig í kvosinni að bílar ækju á móti hvor öðrum og annar rúnturinn lægi um Lækjargötu, Skólabrú, Kirkjustræti, Aðalstræti og til austurs um Austurstræti en hinn rúnturinn lægi austur Hverfisgötu, upp Klapparstíg, niður Laugaveg og Bankastræti, vestur Austurstræti og austur Hafnarstræti upp á Hverfisgötu.
Fyrrnefndi rúnturinn gæti jafnvel verið lengri og komið niður Amtmannsstræti og yrði þá opið þvert yfir Lækjargötuna á rúnttímanum, sem yrði ákveðinn tíma á kvöldin.
Ég er búinn að mæla þetta nákvæmlega og þar sem tvístefnuakstur yrði frá Ingólfstorgi upp að Ingólfsstræti eða jafnvel upp að Klapparstíg, er götubreiddin meiri en á rúntinum á Akureyri og nóg rými fyrir gangandi fólk.
Þegar ég viðraði þessar hugmyndir mínar fyrir þremur árum var ég sakaður um að vera í hrópandi mótsögn við hugmyndir mínar um meiri sparneytni og minni útblástur.
En nokkur hundruð bílar á ferð í nokkrar klukkstundir eru dropi í hafið þegar miðað er við á annað hundruð þúsund bíla snatt í amstri hversdagsins.
Menn gleyma því að það er nauðsynlegt að geta gert sér dagamun.
Það er til dæmis engin mótsögn fólgin í því að reyna að grenna sig með aðhaldi í mataræði en gera sér samt þann dagamun að fá sér góðan sunnudagsmat einu sinni í viku.
Hlutfalli á milli umferðarinnar á rúntinum á móti hversdagsumferðinni er svona álíka eins og ein jólasteik á móti matnum alla aðra daga ársins.
Ómar Ragnarsson, 9.4.2011 kl. 00:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.