11.4.2011 | 14:05
Eðlilegir umhleypingar.
Undarlegt hefur verið að fylgjast með því frá því í fyrrahaust, hvernig menn hafa kennt óvenjuleg óhagstæðu veðri og vindum um það hve illa hefur gengið að halda Landeyjahöfn opinni.
Ég hef þurft að hafa flugvélina TF-FRÚ úti í ellefu vetur og þurft að vera vakinn og sofinn jafnt á nóttu sem degi yfir því að hún snúi rétt og sé rétt bundin niður, og sé ekki að veturinn núna hafi verið neitt öðruvísi en hinir hvað umhleypinga snertir.
Sumir hafa verið verri en þessi og þeir, sem halda að það sé eitthvað sérstakt við það að það séu umhleypingar dögum og vikum saman á Íslandi að vetrarlagi virðast vera haldnir einstaklega ofþroskaðri óskhyggju.
Ég hef ekki séð nein gögn eða ítarlega úttekt frá Veðurstofu Íslands um það að veður og vindar í vetur hafi verið neitt frábrugðnir því sem alltaf má búast við á Íslandi.
Hið fyndna er að þegar hann hefur blásið á vestan hefur því verið kennt um sandburðinn og líka þegar hann hefur blásið á austan. Jafnvel sagt að fyrir einskæra óheppni hafi sandur, sem austanáttin bar vesturfyrir höfnina borist til baka austur vegna þess að það snerist úr vestan- í austanátt.
Hið eina sem var óvenjulegt var viðbótaraurburður Markarfljóts vegna gosefna úr Eyjafjallajökli.
Mikill aurburður Markarfljóts er hins vegar þekkt fyrirbæri frá árunum fyrir gos. Þannig eyðilögðu vatnavextir og aurburður veginn inn í Þórsmörk á stórum kafla haustið 2008 á svipaðan hátt og aurburður skemmdi veginn í fyrravor, þótt aurburðurinn hafi ekki verið eins mikill neðar við fljótið eins og í fyrra.
Landeyjahöfn á áreiðanlega eftir að koma sér vel þegar veðrið skánar nú í vor og hægt verður að opna hana og auðvitað kemur hún sér best á ferðamannatímanum, þegar umferð til og frá Eyjum er mest.
Það er hins vegar að mínu viti óraunsætt að ætlast til þess að hægt sé að treysta því að þessi höfn sé opin og vel athugandi að fá ferju, sem ristir ekki eins djúpt og Herjólfur, til að halda uppi siglingum um hana.
Efni mun bætast við í hafnarmynninu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Zermatt er með fegurstu bæjum svissnesku Alpanna, með útsýn á Matterhorn. Í Zermatt, með tæplega 6000 íbúa, er öll bílaumferð bönnuð, nema rafbílar. Íbúar og ferðamenn verða að skilja eftir farartæki sín í bænum Täsch, ca. 10 km frá Zermatt og taka þaðan lest upp til Zermatt. Hvernig væri að gera Vestmannaeyjar að bæ án bíla, nema rafbíla. Bærinn er það lítill, að það tekur varla margar mínútur að ganga bæinn enda á milli, hvað þá með rafbíl. Mér hefur alltaf fundist það frekar fyndið þegar Vestmannaeyingar koma keyrandi á stórum bílum, ferja þá með miklum kostnaði út í eyjuna, til að keyra þá svo nokkra metra húsa á milli. Vestmannaeyjar án bíla þyrfti minni ferju.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.4.2011 kl. 22:52
Eigum við ekki frekar bara að gera miðbæ Reykjavíkur bíllausan? Nei í alvöru, hvernig heldur þú að Eyjamenn myndu taka í það að það eigi að gera þá bíllausa? Hefur þú labbað hringinn í kring um Heimaey?
Annars er það ergilegt að ferjuferðirnar ganga svona illa. En ef mætti, og aðstaða væri fyrir minni skip, þá hefði verið hægt að sigla miklu meira. Líka hægt að taka túra frá Bakka að sumri, t.d. á sjóstöng og handfæri.
Jón Logi (IP-tala skráð) 13.4.2011 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.