Málið er ekki einfalt.

Hver sá, sem kjörinn er til trúnaðarstarfa verður að hafa í huga vlja þeirra sem kusu hann.

Nýlegt dæmi um þetta er sá hluti yfirlýsingar Salvarar Nordal þegar hún þáði að taka sæti í Stjórnlagaráði, að miklu hefði ráðið vilji þeirra sem  kusu hana til þess starfs.

Sama verð ég að segja um mína afstöðu. Ég fékk þau ákveðnu viðbrögð eftir á frá mörgum af þeim ca 24 þúsund kjósendum sem settu mitt nafn á kjörseðil að þeim líkaði ekki að vilji þeirra yrði hundsaður. 

 Meginatriðið er þó ávallt sannfæring og samviska þess sem kosinn er.

Í stjórnarsamstarfi tveggja flokka getur hvorugur aðilinn ætlast til þess að stefna síns flokks gildi í einu og öllu og að því leyti er það óbilgjarnt ef krafist er að stefna VG ríki á öllum sviðum stjórnarsamstarfsins og að samþykktir landsfundar flokksins eigi að gilda skilyrðislaust í allri stefnu og störfum ríkisstjórnarinnar. 

Á hinn bóginn geta menn verið óánægðir með þau býti sem hvor flokkur um sig hefur út úr samstarfinu og við sjáum að það sveiflast sitt á hvað í hinum ýmsu málum. Í slíkum efnum sýnist ákvæði stjórnarsáttmálans eiga að vera það sem aðilar standi við en óánægjan getur samt orðið nógu mikil til að valda erfiðleikum í stjórnarsamstarfinu. 

Þannig hefur andstaða Jóns Bjarnasonar og fylgismanna hans tafið fyrir sameiningu ráðuneyta, sem þó var atriði í stjórnarsáttmálanum en á hinn bóginn vitnar Samfylkingarfólk í það atriði stjórnarsáttmálans að ljúka aðildarumsókn að ESB og láta þjóðina síðan skera úr um niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Ásmundur Einar Daðason var valinn sem frambjóðandi VG í Norðvesturkjördæmi af ákveðnum fjölda fylgismanna VG í kjördæminu. 

Ég er ekki kunnugur því hve margir þeirra voru á Akranesi og að hve miklu leyti hann telur sig þurfa að taka tillit til ályktana einstakra félagasamtaka innan VG í kjördæminu. 

Hann hlýtur einnig að taka tillit til þess að "órólega deildin" svonefnda verður ekki bundin við einstök kjördæmi heldur er vafalaust um að ræða klofning á landsvísu. 

 Sé svo telur hann vafalítið að hann sé fulltrúi óánægjuradda innan VG á landsvísu og geti að því leyti varið það fyrir þeim hluta flokksins að hann segi sig úr þingflokki hans. 

Málið er ekki einfalt við svona aðstæður og samkvæmt eiði þeim sem þingmenn sverja í samræmi við ákvæði og anda stjórnarskrár verður það ávallt sannfæring og samviska viðkomandi þingmanns, sem verður að ráða. 


mbl.is Skora á Ásmund Einar að segja af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Sammála því að það sé óbilgjarnt ef krafist er að stefna VG ríki á öllum sviðum stjórnarsamstarfsins enda er enginn held ég, a.m.k. ekki ég að krefjast þess en ég virði Ásmund Einar fyrir það að halda sig við yfirlýsta stefnu flokksins og loforðin sem gefin voru rétt fyrir kosningar. Þá er líka full ástæða til að virða það við Ásmund ef sannfæring hans og samviska ræður hér ferðinni hjá honum samkvæmt eiðstaf þingmanna. Það er því með öllu óþolandi að verið sé að krefja hann um afsögn fyrir það að standa við gefin fyrirheit VG og fylgja sannfæringu sinni og samvisku. Það eru nefnilega aðrir en hann innan VG sem eru að svíkja loforðin, fara á svig við stefnuna og greiða atkvæði samkvæmt annarlegum kröfum en ekki samkvæmt eigin samvisku og sannfæringu.

corvus corax, 19.4.2011 kl. 16:58

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það er einmitt málið Ómar, þingmaður sver eiða þar sem hann sver að vinna í samræmi við ákvæði og anda Stjórnarskrár, og í samræmi við sannfæringu og samvisku viðkomandi þingmanns. Hvað einhverju fólki finnst um það kemur málinu ekkert við.

Hitt er það að þingmenn verða að hlusta á kjósendur ef þeir ætla að halda áfram að starfa fyrir þá og ef viðkomandi þingmenn eru lýðræðislegir þá fá þeir ábendingar frá almenningi sem oft geta haft áhrif á ákvarðanatöku og stundum breytt skoðnunum. Það að einstök félög innan VG samþykki að þeim finnist að Ásmundur eigi að segja af sér vegna þess að hann fylgi ekki flokksformanninum í einu og öllu, þegar hann telur að hann sé aðeins að fylgja samþykktum VG, skiptir ekki nokkru máli. 

Það er ljóst að aðeins einn stjórnmálaflokkur vill ganga í ESB, og fylgi hans er komið undir 15% í skoðanakönnunum. Auðvitað ættu ,,lýðræðissinnarnir" innan Samfylkingarinnar að krefjast þess að ESB umsókn yðri dregin til baka. Það nefnir enginn Samfylkingarmaður, slíkt er of lýðærðislegt. 

Sigurður Þorsteinsson, 19.4.2011 kl. 17:33

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

VG gekk til stjórnarsamstarfs með því að samþykkja það að sótt yrði um aðild að ESB, jafnvel þótt það samræmdist ekki stefnu flokksins, enda yrði skorið úr um hugsanlegan aðildarsamning með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nær hefði verið fyrir VG að hafna aðildarumsókninni strax í stað þess að sumir innan flokksins vilja hætta nú. 

Ég hyllist til þess að kalla aðildarumsóknina "norsku leiðina", því Norðmenn gerðu þetta tvisvar og síðan kom svarið sem þurfti að koma: Hvort þjóðin sagði já eða nei. 

Nú er samningsferlið komið svo langt að ég held að skást sé að ljúka því og sjá loksins hvað er á borðinu í stað þess að þetta mál kjúfi íslenska flokka að mestu leyti í herðar niður endalaust á grundvelli þeirrar óvissu sem fylgir því að hafa aldrei rekið málið til enda. 

Ein spurning: Hvaðan hefurðu það, Sigurður, að Samfylkingin sé komin niður furir 15% í fylgi? 

Ómar Ragnarsson, 19.4.2011 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband