29.4.2011 | 06:03
Þröngsýni í pólitískum skotgröfum.
Oft virðist ákveðin þröngsýni ráða því hvaða mælikvarða menn leggja á mannvirki eða listaverk.
Þetta á til dæmis við um það þegar mannvirki eru látin eyðileggjast af því að mönnum hugnast ekki hverjir reistu þau eða í hvaða tilgangi. Margar minjar um stríðsárin og Kalda stríðið hafa orðið fyrir barðinu á þessu.
Það er eins og það þurfi að líða ógnarlangur tími þar til menn átta sig loks á gildi hlutanna.
Skansinn í Vestmannaeyjum var verk illa þokkaðs Danakonungs samkvæmt sögulegum skilningi í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og þar að auki hernaðarmannvirki en engu að síður risu menn upp fyrir þröngt sjónarhorn hvað þetta varðaði og varðveittu hann.
Skjaldarmerki þess konungs Íslendinga og Dana, sem var við völd þegar Alþingishúsið var reist, stendur þar enn og er ýmsum þyrnir í augum, en auðvitað á það að standa þar áfram sem minjar um þá tíð þegar húsið var reist.
Ég tek mér í munn fleyg orð úr sjónvarpsþætti: "Er ekki hægt að lyfta þessu upp á örlítið hærra plan?"
Um allan heim eru styttur og myndir af mönnum sem settu óafmáanleg mörk á samtíð sína þótt margir þeirra væru hinir verstu harðstjórar. Við þessum styttum eða myndum er ekki hróflað vegna þess að þau segja sögu horfinnar tíðar og hjálpa okkur til að anda að okkur ilmi fortíðar, mismunandi eftir ástæðum.
Bjarni Benediktsson var einn af merkustu stjórnmálamönnum landsins á síðustu öld og meðal annars borgarstjóri í Reykjavík á tímabili.
Það, að mynd af honum skyldi vera sett upp á vegg í Höfða segir sína sögu af því pólitíska ástandi sem ríkti í borgarmálum í Reykjavík lungann úr öldinni. Það var að vísu ástand sem mörgum hugnaðist ekki eins og gengur en það á ekki að ritskoða söguna upp úr pólitískum skotgröfum nútímans.
Málverk af Bjarna Benediktssyni aftur tekið úr Höfða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gott mál Ómar. Bókabrennur og niðurrif menningaverðmæta er ekki menning.
Hrólfur Þ Hraundal, 29.4.2011 kl. 07:46
rétt hjá þér Ómar
Jón Snæbjörnsson, 29.4.2011 kl. 08:30
ég sá að skjaldamerki dana var á norska tollhúsinu í oslo..
Óskar Þorkelsson, 29.4.2011 kl. 08:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.