Miklu meiri byggðabreytingar en menn halda.

Breytingar á byggðamynstri og búsetuþróun í landinu eru mun meiri og talsvert öðruvísi en flestir halda og allt of lítið gert af því að fara opinberlega ofan í saumana á því, heldur haldið áfram að staglast í á úreltum sjónarmiðum.

Til dæmis eru hin gömlu mörk kjördæmaskipunar og skiptingar í landshluta að riðlast. 

Það var enn hald manna út síðustu öld að Vestfirðir væru heilsteyptur landsfjórðungur en því fer fjarri eins og hugsanleg sameining Bæjarhrepps á Ströndum við Húnaþing vestra ber glöggt vitni um. 

Með henni er endanlega slegið á þá glýju vals Vestfjarðaleiðar yfir Steingrímsfjarðarheiði um 1980 að Strandasýsla eigi samleið með Vestfjörðum og að eðlilegast að miðað sé við Ísafjörð. 

Með veg um Þröskulda og bættu sambandi við byggðirnar við Húnaflóa liggja leiðir Strandamanna fyrst og fremst um þær en ekki vestur á Ísafjörð. 

Reykhólasveit á miklu meiri samleið með Dalabyggð en með Vestfjörðum og með allt of seint fram komnum vegabótum við norðanverðan Breiðafjörð mun byggðarlögin á sunnanverðum Vestfjörðum eiga meiri tengsl í þá átt en vestur til Ísafjarðar. 

Menn verða líka að átta sig á því að hlutföllin á milli skilgreinds dreifbýlis og þéttbýlis eru allt önnur en þingmannafjöldi kjördæma og viðtekin viðhorf í þeim málum segja til um. 

Nú eru tvö svæði á landinu sem falla undir alþjóðlegu skilgreininguna "FUA", "Functional Urban Area", en með því er átt við þéttbýlissvæði með flugvöll, minnst 15 þúsund íbúa og að það taki minna en 45 mínútur að fara inn að miðju þess. 

Syðra svæðið, Reykjavíkursvæðið, er í raun eitt atvinnusvæði, sem nær samkvæmt þessari skilgreiningu frá Borgarbyggð austur að Þjórsá og suður á Suðurnes. 

Hitt svæðið er Akureyrarsvæðið sem nær yfir byggðirnar við Eyjafjörð og mun með Vaðlaheiðargöngum ná austur í Reykjadal og jaðra við að narta í Húsavík.

Utan þessara svæða býr aðeins fjórðungur landsmanna og því engin leið að gefa þessum fjórðungi Íslendinga jafnræði í þingmannatölu á við þéttbýlissvæðin tvö, heldur verður að jafna aðstöðumuninn á annan hátt.

Í ágætri stefnuræðu á Stjórnlagaþingi í dag benti Gísli Tryggvason á það, að á Íslandi fái ríkið 70% af opinberu fé til þess að ráðstafa, en sveitarfélögin aðeins 30%. 

Á öðrum Norðurlöndum sé þetta hlutfall hins vegar öfugt. Besta leiðin til að jafna áhrif íbúa hinna mismunandi byggða á eigin málefni sé að huga að því hvort og hvernig sé hægt að breyta þessu. 


mbl.is Vilja sameinast Húnaþingi vestra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband