Ótrúlegt ævintýri.

Leiðtogafundurinn í Höfða 1986 var eitt af þessum ævintýrum sem geta gerst á því útskeri heimsbyggðarinnar sem Ísland er.

 Þau hafa sum gerst svo óvænt að menn hafa ekki áttað sig á því fyrr en seinna.

Koma tunglfaranna og ferð þeirra upp í Öskju 1967 var af þessum toga, að ekki sé minnst á "einvígi aldarinnar" milli Spasskís og Fishers 1972. 

Árið eftir hittust Nixon og Pompidu að Kjarvalsstöðum en það voru bara smámunir miðað við fundinn óvænta 1986, sem haldinn var með svo stuttum fyrirvara, að Svisslendingar, sem eru þjóða vanastir að halda slíka fundi, voru steinhissa á því sem hægt var að gera í Reykjavík. 

Galdurinn var, þrátt fyrir allt, fámennið og einfaldar boðleiðir auk hins landlæga hæfileika Íslendinga til að "redda" hlutunum og víla ekki fyrir sér að fara óhefðbundnar leiðir og komast framhjá formsatriðum. 

Vonandi verður þetta allt rakið vel á viðburðadagskrá í október, því að tíminn hefur leitt í ljós, að enda þótt á yfirborðinu hefði þessi fundur verið árangurslaus, reyndist hann vera sá atburður í samskiptum Reagans og Gorbatsjofs sem mestu skilaði í raun. 

Ég minnist sérstaklega skeytis, sem fréttastofa Sjónvarpsins fékk þegar síðustu útsendingu þess lauk frá fundinum. 

Mér var kunnugt um, að sumir í þáverandi útvarpsráði voru efins um að Yngvi Hrafn Jónsson væri rétti maðurinn í stól fréttastjóra. 

Sjálfur hafði ég fengið hvatningu til að sækja um starfið, en ég er þeirrar skoðunar, að ef aðrir ætla að gera svipað og maður sjálfur og gera það ekki verr, heldur jafnvel betur, eigi maður að leita sér að einhverju öðru sem þar sem kraftar manns nýtast betur. 

Ég vissi að þær breytingar sem Yngvi Hrafn myndi gera, yrðu svipaðar og ég hafði í huga og ég hallaðist því frekar að því að leita eftir að framkvæma nýjar hugmyndir í þáttagerð svosem þáttinn "Á líðandi stundu" og spurningaþáttinn "Hvað heldurðu?" 

Það gerði ég og sé ekki eftir að hafa tekið þennan pól í hæðina. 

Sem við sátum á fréttastofunni og dæstum að aflokinni ofboðslegri törn barst til okkar símskeyti frá einum útvarpsráðsmanna:

"Yngvi Hrafn Jónsson og aðrir starfsmenn fréttastofu Sjónvarpsins: Bravó! Bravó! Bravó! Bravó!   Eiður Guðnason. 

Mér þótti afar vænt um þetta skeyti og Eiði til mikils sóma. 


mbl.is Minnast leiðtogafundarins 1986
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég ætla mér að leifa mér að monta mig nú, því þegar þessi fundur var þá sagði ég upphátt svo fólk heirði að nú myndi Berlínarmúrinn falla.  Að þessi fundur væri aðdragandi að því ... og vit menn.  Það var nú meir en "lítið" sem kom "óbeint" fram á þessum fundi, held ég ... en síðan spyr ég sjálfan mig, hvort það hafi verið af því góða, eða eins og (æ, hvað hét hann sem var svo nefmæltur) hann sagði "Hversu holt það er veit ég ekki, en gott var það".

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 3.5.2011 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband