Gamlar ranghugmyndir lífseigar.

Hinn eldvirki hluti Íslands hefur verið af dómbærum erlendum sérfræðingur dæmdur sem eitt af sjö mestu náttúruundrum Evrópu og í hópi 40 merkustu náttúruundra heims.

Frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone, sem dregur að sér tvær milljónir manna um sumartímann og þar af kemur helmingur frá öðrum heimsálfum en Ameríku, kemst ekki á blað. 

"Gullni hringurinn" Þingvellir - Gullfoss - Geysir nýtur ofuráherslu hér á landi. 

Finnar fengu að "stela" jólasveininum frá okkur og staðsetja í Rovianemi sem er lengra burtu frá helstu löndum Evrópu en Ísland og Lappland fær til sín fleiri ferðamenn um vetrartímann en koma allt árið til Íslands. 

Við höldum að íslenskar ferðaskrifstofur séu undirstaða ferðamennsku á Íslandi en fylgjumst ekkert með þeim hópi ferðamanna, sem fer sístækkandi og vill sjálfur upplifa land og þjóð í stað þess að vera í ferðamannahópum. 

Þetta fólk er á róli Lonely Planet og kemur hingað undir formerkjunum, "get your hands dirty and feet wet", að upplifa það að lifa af, (survival) og eignast persónuleg upplifunarævintýri. 

Tvær bílaleigur prófuðu fyrir nokkrum árum að leigja út Lödu Sport. Önnur þeirra gafst upp; leigendurnir komu til baka með húnana í höndunum og annað var eftir því. 

Hin seldi bílana ekki strax og er nú að endurnýja Lödu Sport bílaflota sinn.  Af hverju? Af því að það er ögrun og heillandi ævintýri að halda á fjöll á svona bíl. 

Sumir þeirra, sem gera það, komu til landsins sem "bakpokalýður" fyrir 25-30 árum og tóku svona jeppa á leigu af því að þeir voru langódýrastir. 

Nú koma þeir aftur en vilja endurlifa ævintýrin með þessum grófgerðu jeppum en ekki að setjast upp í nýjustu og best búnu jeppana. 

"Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér."  Þessu gleymum við og höldum að útlendingar horfi á landið okkar augum. 

Ef við gerum það verður markaðssetningin að stórum hluta röng. 


mbl.is Er markaðssetning Íslands röng?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband