19.5.2011 | 16:56
Fór með hestinn upp á 2. hæð ?
Hér í gamla daga voru margir af helstu hestamönnum landsins jafnframt miklir gleðimenn og gerðu sér þá dagamun í mat og drykk.
Ein af þeim sögum sem ég heyrði ungur af einum þeirra var sú, að í teiti sem einn þeirra hélt í íbúð sinni á efri hæð hefði hann teymt einn af eftirlætis gæðingum sínum til að gera samkvæmið óviðjafnanlegt.
Ég hef vissan skilning á þessu vegna þess að í ungæðishætti á menntaskólaárunum gerði ég það einu sinni í bríaríi að aka NSU-Prinz örbílnum mínum inn í KFUM-húsið við Antmannsstíg þar sem tveimur bekkjardeildum skólans var kennt.
Til að komast aftur út bakkaði ég bílnum inn í fatahengi, en hrekkjalómar skelltu þá hurðinni að henni í lás svo ég var fastur inni.
Ég sá að ef ég kæmist ekki strax út myndi uppátæki mitt geta orðið til þess að ég lenti í enn frekari vandræðum og yrði rekinn úr skólanum.
Tók ég á það ráð að flauta hátt og snjallt og var heppinn, því að hávaðinn olli því að húsvörðurinn, ung kona, kom og opnaði dyrnar.
Ég afsakaði veru mína í flýti, sagðist hafa lagt bílnum hjá hinum skóhlífunum og hefði orðið að selja frakkann minn til að eignast hann.
Konan gapti svo af undrun að sá ofan í háls henni, og ég greip tækifærið og brunaði út.
Hún kærði mig sem betur fer ekki og naut ég kannski þess að vera þá orðinn landsþekktur skemmtikraftur.
En 40 árum síðar var ég að skemmta á fjölmennri skemmtun um verslunarmannahelgina í Vatnaskógi þegar roskin kona snaraðist upp á sviðið, stöðvaði atriðið hjá mér og sagði, að nú loksins fengi hún tækifæri til að borga fyrir óskundann, sem ég olli forðum.
Var þar komin húsvarðarkonan góða frá árinu 1960 og náði sér þarna loks niðri á mér, í skemmtilegasta bróðerni þó.
Ég hef aldrei fengið sannreynda að fullu söguna um hestinn sem fór upp stigann en ég trúi henni allt eins.
Mætti með hestinn á spítala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vandaður frakki þetta, að fá fyrir hann bíl, Ómar. Skemmtileg frásögn.
Sigríður Sigurðardóttir, 19.5.2011 kl. 17:23
Lárus í Grímstungu hafði hestinn með sér upp á loft þegar hann bætti á pyttluna heima í Grímstungu, þá er safnið var rekið niður eitt haustið, í æfisögu hans segir að húsfreyjunni hafi ekki verið skemmt.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 20.5.2011 kl. 07:42
Móðir mín gerði það í bernsku að taka meri með sér inn í hús til að sýna henni í stofu. Seinna meir var Amma mín svo að furða sig á því hvaða viðleitni þetta var alltaf hjá merarskömminni að reyna að troða sér inn í bæ.
Svo er nú þetta. Man reyndar líka eftir folaldi sem var undanvillingur og því heima-alið. Það lék sér með börnunum á bænum og taldi sig meðal manna, enda reyndi það all oft að komast um borð í bíl með krökkunum.
Kannski þessi sé eins:
http://www.youtube.com/watch?v=6gPJo25sb80
Jón Logi (IP-tala skráð) 20.5.2011 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.