24.5.2011 | 20:36
Katla má kyrr liggja mín vegna.
Ég hef löngum sagt frá því að ég hafi beðið eftir Kötlugosi síðan 1947 þegar amma mín Ólöf Runólfsdóttir sagði mér magnaðar sögur af gosinu 1918. Hún var frá Hólmi í Landbroti og gosið hafði mikil áhrif á líf Skaftfellinga enda öskufallið meira þá en í Grímsvatnagosinu nú.
Katla á enn meiri ítök í mér fyrir þá sök, að í kjölfar gossins og afleiðinga þess flutti amma til Reykjavíkur og þar kynntist hún öðrum Skaftfellingi, Þorfinni Guðbrandssyni frá Hörgslandi á Síðu, sem líka hafði flutt til Reykjavíkur.
Má því segja að Katla hafi leikið úrslitahlutverk í tilurð minni og því eðlilegt að hún og eldfjöll hafi á sér sérstakan blæ í mínum huga.
Næstkomandi laugardag stendur til að ég leiði dóttur mína, Ölmu, upp að altarinu til að giftast þar Inga R. Ingasyni og minnist ég hálfkærings svars míns, þegar ég var að vinna niðri í Sjónvarpi á giftingardegi elstu dóttur minnar, Jónínu og var enn ekki farinn á öðrum tímanum þótt athöfnin hæfist klukkan tvö.
Ólafur Sigurðsson starfsfélagi minn spurði mig af hverju ég væri ekki farinn, hvort starfið væri svona mikilvægt. "Ef Katla væri að byrja að gjósa, hvað myndurðu gera þá?"
"Því er auðsvarað", svaraði ég. "Það er aðeins eitt Kötlugos á ævinni, en hins vegar á ég fjórar dætur."
Auðvitað meinti ég þetta ekki en í hvert skipti sem ég hef átt leið framhjá Kötlu akandi eða fljúgandi í öll þessi ár hef ég gjóað til hennar augunum og sagt við hana í huganum: "Æ, úr því að þú átt eftir að gjósa hvort eð er, af hverju lýkurðu því ekki bara af núna? "
En nú er engin ástæða til þess að velta svona löguðu fyrir mér. Ég var í viðtali við þýska útvarpsstöð í gær og var spurður um viðbrögð fólksins fyrir austan.
Ég sagði að allt frá Móðuharðindunum hefðu Skaftfellingar verið þeir Íslendingar sem þurft hefðu að brynja sig mestu þoli og þrautseigju til að lifa af þær hörmungar sem íslensk náttúra gæti lagt á þjóðina, enda hefðu þær hvergi bitnað jafn hastarlega á fólki og fénaði og þar.
Þessi sálarhreysti hefði skilað þeim í gegnum Kötlugosin sem komu á eftir, hið síðasta 1918 og gefið þeim baráttuþrek og æðruleysi sem myndi skila þeim í gegnum það sem framundan er.
Og hér eftir mun ég ekki framar tala til Kötlu á annan veg en þann, að biðja hana vinsamlega að liggja nú kyrr því að nú sé nóg komið.
Líkist Kötlugosi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það sagði mér einu sinni bóndi úr Álftaverinu að Katla gysi ekki meir á landi, hún væri gengin út í sjó (Surtsey - sem kom jú á áætluðum Kötlutíma). Þessu hefði álfkona spáð fyrir mjög löngu síðan og allt komið fram eins og hún hafði fyrir sagt. Það held ég.
Hulda (IP-tala skráð) 24.5.2011 kl. 22:04
Ég er alin upp með útsýni út um eldhúsgluggann á jökulinn þar sem sú gamla býr og man ekki eftir mér öðruvísi en talað væri um að hún væri alveg að koma.
En kannski er hún bara á réttum tíma, það gleymist oft að það varð nokkuð örugglega lítið Kötlugos sem aldrei komst upp úr jöklinum árið 1955, það olli nógu stóru flóði til að taka með sér brúnna yfir Múlakvísl. Miðað við að talað er um gos á 40 til 80 ára fresti þá liggur henni ekkert á, það eru bara 56 ár síðan.
Einar Steinsson, 25.5.2011 kl. 21:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.