Ekki öskumistur á Fáskrúðsfirði.

Það er rétt að askan, sem féll í Grímsvatnagosinu fýkur nú til suðurs undan norðanáttinni. Hins vegar er rangt að það sé öskumistur, sem sást á Fáskrúðsfirði í fyrradag, eins og ég hef reyndar lýst í bloggi á undan þessu.

Svo vill til að ég flaug frá Reykjavík um Grímsvötn og Vatnajökul austur á Djúpavog á laugardag og sá að allur Vatnajökull austan Grímsvatna var þakinn nýföllnum hvítum snjó, og ég tók myndir ofan í Grímsvötnum og sá með eigin augum að aska rauk ekki þaðan, heldur var loftið tært yfir jöklinum og austur um Lónsöræfi og Suðausturland. 

Hins vegar rauk mikill sandmökkur upp af Flæðunum efst í farveg Jökulsár á Fjöllum og stóð hann í austur yfir Brúaröræfi norðanverð, sleikti Snæfellið norðanvert og stóð síðan í austurátt yfir Fljótsdal og Austfirði norðan Stöðvarfjarðar. 

Þetta sá ég afar vel á flugi sama dag frá Djúpavogi um Hraun og Eyjabakka, Kringilsárrana, syðri hluta Brúaröræfa og þaðan til Mývatns. 

Til þess að þurfa ekki að fljúga í gegnum hinn mikla sandmökk, sem stóð upp af Flæðunum og er algengt fyrirbrigði í hvössum, þurrum vindi að sumarlagi þegar Flæðurnar eru orðnar auðar, lyfti ég mér upp í um 2000 metra hæð og flaug yfir mökkinn. 

Rétt skal vera rétt. Það hljómar dramatískt að tala um öskuský og öskumökk en raunin er ósköp venjulegt fyrirbrigði sem kemur oft fyrir á hverju sumri. 

Í gær flaug ég frá Mývatni suður um Grímsvötn og þaðan um Syðri-Fjallabaksleið til Reykjavíkur og þrátt fyrir stífan vestanvind var Vatnajökull alheiður og loftið tært yfir honum, eins og fjölmargar ljósmyndir og kvikmyndir, sem ég tók, bera vel með sér. 

Vegna anna  verður að bíða að ég birti myndir af þessu ferðalagi hér á blogginu mínu.


mbl.is Askan enn til ama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ágætis punktur hjá þér Ómar.

Það er gert allt of mikið veður (lesist sem gúrkufréttir) úr þessu öskufoki.

Við búum á eldfjallaeyju, og hér er nóg af ösku úr alls konar eldgosum heilu árþúsundin aftur á bak. Og sandi. Nóg af bergefnum yfirleitt, svo og mold. Ryk og fok af jarðefnum var sko aldeilis ekki fundið upp í fyrra.

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.6.2011 kl. 17:09

2 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Þetta er ábyggilega rétt hjá ómari, en það var óvenjulega mikið ryk hérna á Fráskrúðsfirði í gær og því  ekkert skrítið að það hafi verið sett í samband við gosið. En við Fáskrúðsfirðingar erum ekki svo miklir kjánar, að við vitum ekki að það var ekki fundið upp í fyrra. Jón minn. Sýður en svo!

Eyjólfur G Svavarsson, 6.6.2011 kl. 17:54

3 identicon

Ég sýð stundum kartöflur. Síður brauð.

Jón Logi (IP-tala skráð) 7.6.2011 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband