Efni í magnaða kvikmynd.

Sagan af hollensku konunni, sem myrti mann fyrir 65 árum, er afar dramatísk svo ekki sé meira sagt.

Mig grunar að fyrr eða síðar verði skrifuð bók eða gerð kvikmynd um þessa mögnuðu sögu. 

Bendi á bloggpistil um þessa frétt sem tengir hana við skrif Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sem vekja spurningar um, niður á hvaða plan umræða hér á landi getur komist. 

 

P. S.  Nú sé ég, fimm mínútum eftir að ég skrifaði ofangreindan pistil, að bloggið, sem tengt var við fréttina, hefur verið rifið úr tengslum við fréttina eftir að mitt blogg kom fram, og situr það nú eitt eftir tengt við fréttina.

Sömuleiðis finn ég ekki lengur þann pistil Hannesar Hólmsteins, sem bloggpistillinn vitnaði í og tengdi sig við. 

Ég hafði nefnilega gleymt að leggja á minnið nafn bloggarans sem tengdi blogg sitt við pistil Hannesar, og ætlaði að kíkja aftur á nefndan pistil og kynna mér það. En þá var hann horfinn.

Hvað gerðist á þessum fímm mínútum?  Miðað við það hvað stóð í þeim pistli Hannesar, sem nefndur var og tengt í, getur ýmislegt komið til greina.

Hafi Hannes sjálfur þurrkað út það, sem sýnt var fyrir fimm mínútum, er hann maður að meiri að mínum dómi og málið dautt af minni hálfu, þótt margir kynnu að segja að Hannes ætti að biðjast afsökunar eins og drenglyndir menn gera í svona tilfellum.

En hafi þessi útþurrkun orðið af öðrum völdum væri gaman að fá að vita, hvernig það gerðist og hvers vegna. Ég gat ekki séð að viðkomandi bloggari, sem ég man ekki nafnið á, hefði falsað tengingu sína í pistil Hannesar eða falsað pistil hans, en hafi hann gert það, eru það forkastanleg vinnubrögð. 

Gaman væri að vita, hvort fleiri en ég sáu þá pistla, sem ég hef gert að umtalsefni. 

 

P. S. nr 2: 

Nú er þetta að verða að framhaldssögu, sem mig óraði aldrei fyrir þegar ég skrifaði hinn stutta og knappa pistil hér fyrir ofan. Í ljós kemur að pistill Hannesar Hólmsteins, sem vitnað er til, er á pressan.is þegar þetta er skrifað.  Hann hefur hvorki tekið hann út né beðist afsökunar á honum og stendur þá væntanlega við orð sín. 

Ég hef áður bloggað um mál Geirs H. Haarde þess efnis að eins og málum væri komið, ætti hann að fá um frjálst höfuð að strjúka. Hann hefur hagað málsvörn sinni drengilega og af hyggindum. 

En hann virðist eiga að minnsta kosti einn "vin" sem gerir það að verkum að hann þarf ekki að eiga óvini

Hannes Hólmsteinn hefði átt að lofa Geir að vera í friði við að haga sinni málsvörn í stað þess að vera að túlka orð hans eins og hann gerir í hinum dæmalausa pistli sínum, en málflutningur á þessu plani gerir að mínum dómi ekkert annað en að skemma fyrir málstað Geirs.

Nú liggur líka ljóst fyrir að pistill bloggarans, sem ég las í morgun, virðist hafa verið fjarlægður til þess að víkja frá athugasemd, sem gagnrýndi Hannes Hólmstein fyrir pistil sinn. 

Það sem ég man úr pistlinum en fékk ekki tækifæri til að taka niður nánar, var fyrirsögn eitthvað á þá leið hvort þetta væri maðurinn, sem við ættum að trúa fyrir að kenna börnum okkar. 

Síðan var pistill Hannesar sýndur.  Hugsanlega kann fyrirsögnin að hafa verið túlkuð þröngt sem atvinnurógur og pistillinn þess vegna fjarlægður. 

Ef svo er að þessi pistill var svona forkastanlegur, hvað má þá segja um pistil Hannesar Hólmsteins?

Það geta menn dæmt um með því að lesa hann á pressan. is, svo framarlega sem hann stendur þar enn.


mbl.is Morð upplýst eftir 65 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli minn

Ekki sá ég þá alla vega. Mannstu nokkuð tvö eða þrjú samhangandi orð úr þessum pistlum? Sé svo þá gæti verið hægt að finna afrit af síðunni. Þetta hljómar eitthvað svo grunsamlegt að nú langar mann að vita hvað var í gangi.

Óli minn, 9.6.2011 kl. 10:50

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því miður man ég hvorki fyrirsagnir né nöfn.  Það var einmitt þess vegna sem ég ætlaði að fletta þessu aftur upp og glöggva mig betur á þessu. En það eru vonandi einhverjir, sem sáu og mundu eitthvað, að minnsta kosti þeir tveir bloggarar sem í hlut eiga.

Ómar Ragnarsson, 9.6.2011 kl. 10:54

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Pistill Hannessar skemmir hvorki eitt né neitt fyrir Geir. Það sem kemur fram hjá Hannesi er einfaldlega hárrétt... og hvernig getur sannleikurinn skemmt fyrir í máli saklauss manns?

Hannes segir m.a. eftirfarandi:

"Geir var vitaskuld að vísa í það, að þeir Atli, Steingrímur og Ögmundur eru pólitískir erfingjar kommúnistahreyfingarinnar íslensku, en þar sem kommúnistar komust til valda, settu þeir jafnan á svið sýndarréttarhöld yfir andstæðingum sínum. (Ögmundur er raunar systursonur eins skeleggasta stalínista á Íslandi, Stefáns Ögmundssonar, sem hlaut harðasta dóminn fyrir árásina á Alþingishúsið 30. mars 1949 og fór margoft í lystiferðir til Ráðstjórnarríkjanna.)"

Og síðar segir Hannes í pistlinum:

"Nú krefjast þeir Atli, Steingrímur og Ögmundur þess, að Geir H. Haarde sæti tveggja ára fangelsi fyrir að hafa verið pólitískur andstæðingur þeirra, því að auðvitað vita þeir jafnvel og aðrir, að Geir framdi engan glæp, braut engin lög. Sök hans er sú ein að vera í röngum flokki.

Sennilega eigum við samt í ljósi sögunnar að þakka fyrir, að þeir Atli, Steingrímur og Ögmundar krefjast ekki harðari refsingar. En eru framfarirnar þær, að mannæturnar eru farnar að nota hníf og gaffal?"

Pistill Hannesar er HÉR

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.6.2011 kl. 12:26

4 identicon

Er þetta bloggfærslan sem um ræðir?

http://kristbjorn20.blog.is/blog/grafarholtsbuinn/entry/1172796/

Benni (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 12:31

5 Smámynd: Óli minn

Já, greinilega. Nú stendur bara ftir að einhver á mbl.is hefur aftengt pistilinn við fréttina.

Óli minn, 9.6.2011 kl. 15:31

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Finnst mönnum það virkilega málefnaleg umræða að rökstyðja það "að "mannæturnar" Atli, Steingrímur og Ögmundur  noti bara hnífa og gafla en ekki byssur og hengingarólar með því að Ögmundur hafi átt móðurbróður, sem "fór margoft í lystiferðir til Sovétríkjanna" og "hlaut harðasta dóminn fyrir árás á Alþingishúsið fyrir 62 árum?

Með öðrum orðum: Hér er gefið í skyn, að "mannæturnar" myndu láta skjóta Geir eða hengja eftir sýndarréttarhöld ef þeir hefðu haft aðstöðu til þess. 

Og rökin eru gerðir frænda Ögmundar fyrir 62 árum og það að VG ( og væntanlega Samfylkingin líka, sem varð til við samruna Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokksins, Þjóðvaka og Kvennalistans) séu "erfingjar kommúnistahreyfingarinnar íslensku"

Er það málefnaleg umræða sem gagnast Geir? 

Ómar Ragnarsson, 9.6.2011 kl. 16:20

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Er þá á sama hátt Sjálfstæðisflokkurinn "pólitiskur erfingi íslensku nasistahreyfingarinnar" af því að hún rann inn i þann flokk fyrir meira en 70 árum og að þá sagði Morgunblaðið að þetta væru "ungir menn með hreinar hugsanir"?

Er virkilega málefnalegt að vera með þessa umræðu á þessu plani? 

Ómar Ragnarsson, 9.6.2011 kl. 16:23

8 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Sæll Ómar,

ég sé að vísað er í pistil minn frá því morgun hjá þér í athugasemdum.  Mér ofbauð þessi skrif og ákvað að birta hann í heilu lagi svo lesendur á Mogganum sjái hvernig þeirra maður skrifar.  Ég er á þeirri skoðun að fólk hafi gott af því að sjá hvernig þessi prófessor við Háskóla Íslands skrifar.

Þar fyrir utan er hann embættismaður og hefur af þeim sökum ríkari skyldur sem.

Aðeins einn hefur réttlætt þessi skrif hjá mér.

Í textanum má auðveldlega lesa ásakanir í garð þessara manna.

Sjálfur er nú prófessorinn sonur manns sem var sósíalisti og fara erfðirnar að verða erfiðar.

Kristbjörn Árnason, 9.6.2011 kl. 17:52

9 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Það er rétt hjá þér Ómar hann hefur verið fjarlægður.  Málið er, að ég gætti þess að birta texta Hannesar óbreyttar nema að ég spurði einnar spurningar. Hvort svona skrif væru viðeigandi fyrir prófessor  og embættismann.  Þetta særir mig ekkert því ég er ýmsu vanur.

Kristbjörn Árnason, 9.6.2011 kl. 18:24

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Eitthvað er nú söguskoðunin hjá þér einkennileg, Ómar.

Jafnaðarmenn klufu sig frá sovét-sósíalistum mjög snemma.

Vinstrimenn á Íslandi reyndu að sameinast í einn flokk, eitt afl, með stofnun Samfylkingarinnar, með sameiningu jafnaðarmanna í Alþýðuflokknum og vinstrimönnunum í Alþýðubandalaginu, en þeir eiga eins og allir vita, djúpar rætur í sósíalisma Ráðstjórnarríkjanna, enda löngu búið að sanna áþreifanleg tengs milli Kremlar og kommúnista á Íslandi, allt frá þriðja áratug og fram á sjöunda áratug síðustu aldar.

Um þessi tengsl má fræðast í bók Þórs Whiteheads, Sovét-Ísland...

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.6.2011 kl. 19:50

11 identicon

Ég get nú ekki séð hvernig menn fái einhverja pólitík í þetta ... morð er morð, og að morðinginn fái að ganga laus því hún er gömul kerling, er ekkert til að hrópa húrra fyrir.  Né til að tala um og hafa í hávegum.  Mér er sko déskotans sama þó hún hafi haldið að hann væri með nasistum.  Morðið er framið eftir stríð ... og ef menn geta ekki gert greinarmun á slíku, eða að menn geri mun á því hver fremur morðið, þá er ekki ástæða til að áætla að það verði friður í framtíðinni.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 20:01

12 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Þór Whitehead hefur mér ekki fundist trúverðugur sagnfræðingur þegar um nútímasögu er að ræða. Vegna þess hversu pólitískur hann er.

Stefán Ögmundsson var mikið ljúfmenni og sérlega heiðarlegur félagi í ASÍ á sinni tíð. Söguskoðun Ómars varðandi nasistanna er alveg rétt og einnig viðurkennd. Þá hurfu þeir skyndilega t.d. á Akureyri aðfaranótt 10 maí 1940. Þeir voru mjög fjölmennir á Akureyri, það mega vinstrimenn eiga að þeir sögðu ekki til þeirra.

Aldrei varð ég varð við þessar rætur í AB var þó virkur félagi þar á bæ og stjórnarmaður til margra ára.  En vitað var að nokkrir félagar höfðu haft samband í austur átt, rétt eins og ýmsir lögreglumenn og embættsmenn í Reykjavík. Stefán Ögmundsson var ekki félagsmaður í AB frekar en Ögmundur  

Kristbjörn Árnason, 9.6.2011 kl. 21:04

13 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Þór Whitehead hefur mér ekki fundist trúverðugur sagnfræðingur þegar um nútímasögu er að ræða. Vegna þess hversu pólitískur hann er.

Stefán Ögmundsson var mikið ljúfmenni og sérlega heiðarlegur félagi í ASÍ á sinni tíð. Söguskoðun Ómars varðandi nasistanna er alveg rétt og einnig viðurkennd. Þá hurfu þeir skyndilega t.d. á Akureyri aðfaranótt 10 maí 1940. Þeir voru mjög fjölmennir á Akureyri, það mega vinstrimenn eiga að þeir sögðu ekki til þeirra.

Aldrei varð ég varð við þessar rætur í AB var þó virkur félagi þar á bæ og stjórnarmaður til margra ára.  En vitað var að nokkrir félagar höfðu haft samband í austur átt, rétt eins og ýmsir lögreglumenn og embættsmenn í Reykjavík voru nasistar sem gengu í Sjálfstæðisflokkinn . Stefán Ögmundsson var ekki félagsmaður í AB frekar en Ögmundur  

Kristbjörn Árnason, 9.6.2011 kl. 21:06

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef allur pistill Hannesar Hólmsteins er "sannleikur" er það greinilega líka "sannleikur" að Ögmundur myndi vilja láta lífláta Geir H. Haarde ef hann hefði tök á því.

Tek það fram í þessu samhengi, að allt frá því er ég var í lagadeild Háskólans í den þótti mér ákvæði stjórnarskrárinnar um Landsdóm furðuleg og afar vafasöm, því að með þeim gæti Alþingi verið sett í óviðunandi aðstöðu. 

Sem fulltrúi í Stjórnlagaráði styð ég þá tillögu sem nú er komin í áfangaskjal nýrrar stjórnarskrár, að Landsdómur verði lagður niður og mál af þessu tagi sett í ákveðinn farveg í dómskerfinu. 

Ómar Ragnarsson, 9.6.2011 kl. 23:48

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er kaldhæðnislegur húmor í Hannesi, þið hljótið að sjá það.

Sjálfstæðisflokkurinn og Nasistaflokkurinn eiga ekkert sameiginlegt nema að þeir sem kusu nasista, kusu síðar sjálfstæðsiflokkinn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.6.2011 kl. 02:07

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Alveg rétt hjá þér, Gunnar, varðandi nasista og Sjálfstæðisflokkinn.

Og þeir sem kusu Kommúnistaflokkinn áttu ekkert sameiginlegt með Sósíalistaflokknum og Alþýðubandalaginu nema að þeir, sem kusu kommúnista kusu tvo síðarnefndu flokkana.

En ekki einu sinni þetta er hægt að segja um þann flokk sem Ögmundur Jónassson er í ,  því að flestir sem kusu kommúnista hér á árum áður, eru látnir og raunar allir látnir sem kusu Kommúnistaflokkinn þau ár sem hann starfaði.

Ómar Ragnarsson, 10.6.2011 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband