17.6.2011 | 22:08
Ánægjuleg hátíð.
Þótt svalt væri í veðri á Hrafnseyri í dag var afar ánægjulegt fyrir okkur, sex fulltrúa úr Stjórnlagaráði, að vera þar og taka þátt í að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar, sem var í forsvari fyrir "stjórnlagaþingið" 1851 sem hlaut nafnið Þjóðfundur og var kosið með sérstöku beinu persónukjöri, aðgreint frá kosningum til Alþingis.
Við flugum þangað á TF-TAL, sex sæta flugvél í eigu Sverris Þóroddssonar, en slíkt sparar mikinn tíma miðað við það að aka fram og til baka.
Með ólíkindum var hve marga maður þekkti þarna og var yfirdrifið nóg að spjalla við fjölmarga á meðan á tæpra fjögurrra stunda viðdvöl okkar stóð.
Sem dæmi má nefna að Kjartan Gunnarsson tók myndina hér við hliðina þar sem vinstra megin eru Þorvaldur Gylfason, Silja Bára Ómarsdóttir og Eiríkur Bergmann Einarsson, en hægra megin Gísli Tryggvason og Salvör Nordal. Í baksýn eru gamli bærinn á Hrafnseyri og kirkjan.
Sýningin nýja um Jón Sigurðsson er aldeilis afbragð og gefur færi á að kynnast lífi hans og starfi á sérstaklega áhugaverðan hátt.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var svo sannarlega í essinu sínu á heimavelli þegar hann flutti afbragðs góða hátíðarræðu.
Ég hef áður verið viðstaddur þegar hann hefur flutt ræðu um Jón sem var snilldarverk. Það var við styttu Jóns í Winnipeg þar sem hann flutti blaðalaust á ensku einhverja bestu tækifærisræðu sem ég minnist.
Eitt af því sem mér líkaði vel var það að hann dró það fram betur, en flestir gera, hve umdeildur Jón var á stundum, svo mjög að hann treysti sér ekki heim til Íslands í sex ár og annar var kjörinn forseti Alþingis en hann.
Sömuleiðis var hann ekki á þjóðhátíðinni 1874.
Ástæðan var sú að Jón var óhræddur við að standa við sannfæringu sína í viðkvæmum deilumálum, þótt ekki væri slíkt til vinsælda fallið þá og þá stundina.
Hugrekki hans, framsýni og stefnufesta voru að mínum dómi langstærstu kostir hans.
En Jón var ekki eina íslenska stórmennið sem þurfti að sæta því að vera settur til hiðar um stund.
Rétt eins og hann var ekki á þjóðhátíðinni 1874 var stórskáldinu Einari Benediktssyni ekki boðið á Alþingishátíðina á Þingvöllum.
Það var ekki fyrr en eftir hans dag sem honum var valinn grafreitur við hlið Jónasar Hallgrímssonar í Þjóðargrafreitnum á Þingvöllum.
Menningarsetur á Hrafnseyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gaman að því hvað fulltrúar stjórnlagaháðs brosa blítt til Kjartans Gunnarssonar.
Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.6.2011 kl. 23:09
Allir eiga að brosa blítt til allra 17. júní. Eða er ekki svo? Raunar erum við svona brosmild yfir því að Kjartan, sem var fyrir tilviljun staddur þar sem okkur vantaði einhvern sem við þekktum, fékk rangar leiðbeiningar frá mér um það á hvaða takka hann ætti að styðja á myndavélinni minni.
"Styddu á litla takkann til vinstri. Það hlýtur þér að líka vel, þann litla til vinstri.
Kjartan studdi á hann en engin mynd kom.
Þá áttaði ég mig á því að ég hafði sagt honum rangt til og sagði við hann: "Styddu á þann stóra til hægri!. Það hlýtur þér að líka enn betur."
"Stóra til hægri", sagði Kjartan brosandi og smellti a um leið og við hlógum að þessu.
Ómar Ragnarsson, 17.6.2011 kl. 23:45
Ómar Ragnarsson, 17.6.2011 kl. 23:45: Fyrirgefðu Ómar minn. Ég var búinn að gleyma því hvað þú tróðst upp á mörgum skemmtunum hjá FLokknum í gegnum tíðina og áttir þá eðlilega vingott við framkvæmdastjóra FLokksins, sem seinna varð varaformaður bankaráðs Landsbankans.
Jú Ómar, við eigum að vera svo ósköp þæg og góð á 17. júní.
Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.6.2011 kl. 00:05
Þetta er ekki rétt, Hilmar Þór. Ég átti nákvæmlega engin samskipti við Kjartan Gunnarsson vegna skemmtana fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Þau ár sem ég ferðaðist um landið skipulega á héraðsmótum Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna voru það framkvæmdastjórarnir Baldvin Tryggvason og skrifstofustjórinn Már Jóhannsson sem voru tengiliðir hjá Sjálfstæðisflokknum og Þráinn Valdimarsson hjá Framsóknarflokknum.
Finnst sérkennilegt að þetta skuli vera orðið aðalatriðið í athugasemd næstum hálfri öld síðar.
Ómar Ragnarsson, 18.6.2011 kl. 00:26
Þá hefur maður mynd af liðinu sem stendur fyrir að afsala fullveldi Islands til Evrulands. Að þetta fólk skuli ekki skammast sín að voga sér að sýna sig yfir sig ánægt á minningarhátið freslishetju Islands Jóns Sigurðssonar.
Björn Emilsson, 18.6.2011 kl. 15:57
Ég skil ekki þennan algerlega órökstudda og fráleita sleggjudóm þinn, Björn, og því síður að skipta þjóðinni í tvennt: Annars vegar þá sem eigi að njóta þeirra forréttinda að mega "sýna sig" á þjóðhátíðardaginn og hins vegar þá sem sitja skuli innilokaðir í stofufangelsi þann dag.
Ómar Ragnarsson, 18.6.2011 kl. 16:50
Annað, Þjóðfundurinn 1851, eða ´stjórnlagaþing´ eins og þú vilt kalla þann merka atburð var haldið til að vinna að fullveldi Islands. Meðan þitt svokallaða ´stjórnlagaþing´ er sett upp til að afnema fullveldið og afsala fullveldi Islands til ESB eða svokallaðs Evrulands. Eg hef og er mikill aðdáandi þinn Ómar eins og allir islendingar. Við bara skiljum ekki stuðning þinn við að samþykkja afnám fullveldisins til þriðja aðila.
Björn Emilsson, 18.6.2011 kl. 17:20
Þetta er alrangt hjá þér, að ég hafi "samþykkt afnám fullveldisins til þriðja aðila" eða hvernig "svokallaða stjórnlagaþing sé sett upp til að afnema fullveldið og afsala fullveldi Íslands til ESB."
Gersamlega staðlausir stafir og órökstuddir með öllu.
Ómar Ragnarsson, 18.6.2011 kl. 20:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.