Flug snýst um þyngd og rými.

Flug snýst um það að yfirvinna þyngdarkraftinn og flytja þannig þunga á milli staða.

Þunginn þarf þar að auki rými í loftfarinu.

Oft er svo að sjá sem fólk átti sig alls ekki á þessu, - telji sjálfsagt að eigendur loftfara skaffi hvorutveggja skilyrðislaust.

En þannig er það ekki og verður aldrei.

Glíman við þyngd og rými er eitt helsta viðfangsefnið í fluginu, mun frekar en í landsamgöngum og flutningum á sjó.

Dæmi um þetta er að þungi farþeganna kostar mikla peninga. Meðalþyngd þeirra hefur aukist svo mikið að flugvélar, sem áður tóku að jafnaði fjóra í sæti, bera nú aðeins þrjá.

Flugrekendur hafa þurft að bregðast við þessu og það kostar peninga, því að auðsætt er að það kostar mikla orku að lyfta hundruðum farþega upp í meira en tíu kílómettra hæð og flytja þá þúsundir kílómetra.

Skrokkar nútíma þotna voru hannaðir fyrir 60 árum og eru nú orðnir heldur þröngir vegna stækkunar farþeganna.

Séu flugvélabúkarnir stækkaðir kostar það bæði auka þunga og meiri loftmótstöðu.

Krafan um jafnrétti án tillits til líkamsþunga eða fyrirferðar sýnist vera sjálfsögð en til eru þeir sem hafa dregið í efa að 130 kílóa farþegi eigi kröfu á að borga sama fargjald og 60 kílóa farþegi.

Þeir benda á að oftast sé ofþyngdin hinum þungu sjálfum að kenna og að þeir eigi að greiða þann umframkostnað sem af hlýst.

Aðrir benda á að þetta sé ekki einhlítt, sumir séu einfaldlega af náttúrunnar hendi minni og léttbyggðari en aðrir og efnaskiptin séu misjöfn.

Hitt virðist ljóst að ekki er hægt að gera þá kröfu að sumir geti krafist meira rýmis en aðrir án þess að borga fyrir það.

Í tengdri frétt um aukagreiðslu fyrir þá sem vildu færa sig í rýmri sæti í þotu Iceland Express er á tvennt að líta.

Af fréttinni má ráða að vegna þess að sætin hafi hvort eð er verið auð eftir að flugið var hafið hefði það ekki skipt neinu máli fyrir flugfélagið þótt farþegum hefði verið leyft að færa sig án sérstakrar aukagreiðslu.

Í fréttina vantar upplýsingar um það hvort allir hefðu getað fært sig á þennan hátt.

Raunar verður að efast um það vegna þess að takmörk eru fyrir því hvernig hægt sé að hafa alla farþegana í öðrum enda vélarinnar.

En síðan vantar einnig upplýsingar um það hvort þessi rýmri sæti voru í miðju vélarinnar eða fremst, en hið síðarnefnda finnst mér líklegra.

Farþegaþota er um margt líkt móður Jörð. Þeir sem um borð eru eiga ekki um annan verustað að velja á meðan á ferðinni stendur og þau gæði, sem eru fólgin í rými og þyngd, eru takmörkuð.

Rétt eins og flugvélin, ber Jörðin ekki nema ákveðinn fjölda fólks og það er ekki um aðra jörð að ræða.

 


mbl.is Boðið meira fótapláss fyrir 33 evrur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband