10.7.2011 | 21:11
Óróinn að byrja að aukast. Hvað svo?
Ég var að koma úr myndatökuflugi yfir Kötlu og náði góðum myndum af kötlunum tveim. Flóðið er að minnka en nú, þegar ég lendi hér á flugvellinum á Hellu og kíki á það sem þeir eru að fylgjast með hér, starfsmennirnir við Íslandsmeistaramótið hér, má sjá að órói á einum jarðskjálftamælinum í Mýrdalnum er að aukast smám saman í dag.
Já, þeir fylgjast vel með öllu hér, svifflugmenn, ekki aðeins í lofti, heldur líka neðanjarðar!
Það sem fór úrskeiðis varðandi þetta "þjófstart", sem ég spáði í fyrradag, var að ekki tókst að rjúfa veginn eins og tókst þegar Markarfljót hljóp þegar Eyjafjallajökull gaus.
Þá réði úrslitum að Suðurverk var með tæki nálægt brúnni og menn voru fljótir til.
Einnig hefði mátt koma í veg fyrir að brúin færi ef menn hefðu haft þjóðveginn lægri á tveimur köflum sitt hvorum megin við brúna svo að áin fari þar í gegn strax í upphafi.
Svona hefur verið gert við Gígjubrú á Skeiðarársandi.
Nú þyrfti að lækka veginn í þessa veru um leið og gerð er ný brú og spurning er hvort hægt sé að fýta verkinu með því að nota þá stöpla sem enn standa og hafa brúna styttri en þá gömlu.
Einnig má hugsa sér að hafa gröfur tiltækar eins og var hjá Markarfljótsbrú í fyrra.
Neyðarástand í ferðaþjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég veit ekki hvort ég er að gera mig að fífli með því að stinga upp á þessu, en væri hægt að koma á loftbrú yfir svæðið?
Theódór Norðkvist, 11.7.2011 kl. 00:53
Twin Otter vél gæti flogið frá flugvellinum austan við Vík yfir á flugvöll við Skaftafell með 19 farþega í hverri ferð.
Slík útgerð yrði þó afar dýr og vegna þess að rútur og bílar eru venjulega bundnir við ákveðna hópa eða einstaklinga getur svona loftbrú aðeins orðið afar takmörkuð lausn.
Ómar Ragnarsson, 11.7.2011 kl. 10:36
Skil þig, takk fyrir svarið.
Theódór Norðkvist, 11.7.2011 kl. 11:28
Þessi væll forkólfa ferðaþjónustunnar er undarlegur. Hvernig væri að nýta þetta tækifæri og gera eitthvað úr því, í stað þess að væla eins og smákrakkar? Veitingatjöld á bökkum Múlakvíslar með brúarbrot og harðfisk til sölu, bíllinn svo settur á trukk til að aka yfir þessa sprænu sem Múlakvíslin er núna. Breyttir jeppar geta ekið yfir hjálparlaust ef réttur farvegur er fundinn. Svo mætti setja upp bílalestir sem fara Fjallabak. Svolítill retro fílingur sem útlendingum finnst örugglega bara spennandi. Bílaleigur geta komið með svolítinn lager af bílum og fólk skiptir um bíl á hinum bakkanum ef áin er ófær. Fullt er af lausnum en Erna Hauksdóttir og hennar kollegar kjósa frekar að blása út í erlendum fjölmiðlum að ferðaþjónustan á Íslandi sé nánast ónýt. Þar sé ég mesta skaðann.
Hjörleifur Jóhannesson (IP-tala skráð) 11.7.2011 kl. 13:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.