Gleymda bensínlokið.

Gleymda barnið á norskri bensínstöð minnir mig á atvik á norskri bensínstöð fyrir þrjátíu árum.

Þegar við Jón bróðir minn vorum á leið frá Osló til Karlstad til að keppa í heimsmeistarakeppninni í ralli í febrúarbyrjun 1981 áttum við leið um lítið þorp Noregsmegin við landamærin.

Þar uppgötvaði ég að ég hafði týnt bensínlokinu á bílnum og sá fram á að kaupa nýtt bensínlok.

Ég fór því inn í bensínstöð sem við komum að og bað um bensínlok en afgreiðslumaðurinn skildi mig ekki.

Ég reyndi nú, auk dönskunnar, að nota ensku og þýsku en ekkert gekk.

Þetta þótti mér alveg óskiljanlegt og var farinn að halda að eitthvað vantaði í þennan Norðmann.

Bað hann að koma út með mér sem hann gerði.

Þegar ég benti á opinn áfyllingarstútinn, birti yfir andliti Norðmannsins þegar hann sagði: "Ja, benzinlok!"

Það var þá eftir allt sama orðið sem frændþjóðirnar tvær notuðu um þennan hlut ! 

Hvernig í ósköpunum átti mér að detta það í hug?!


mbl.is Gleymdi barninu á bensínstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar,

Nú er minnið aðeins að svíkja þig....   

 Mikið rétt, þetta atvik gerðist, þegar þið Jón voruð að keppa í Sænska rallinu 1981, fyrstir íslendinga að keppa erlendis í Rally.  Ég var með þér þennan dag að safna saman dekkjum o.fl. og við vorum á lánsbíl frá Jan Johannsson, sem var aðstoðarökumaður og sigurvegari í fyrsta alþjóðarallinu á Íslandi árið áður. 

 Áður en umrætt atvik á bensínstöðinn átti sér stað, hafðir þú bitið í þig að tala einungis norsku þennan dag og hafði gengið á ýmsu.  Við vorum að verða bensínlitlir og því var farið til að fylla á.  Þegar athöfnin átti að hefjast, kom í ljós að bensínlokið vantaði á bílinn og við vildum alls ekki skila honum þannig.  Þú fórst því inn á stöðina (með þína norsku) og komst aftur skömmu síðar og spurðir mig hvað "Bensínlok" væri á norsku, nokkuð sem ég hafði ekki hugmynd um.  Þú fórst inn aftur og komst, með afgreiðslumannin í taumi út, frekar fúlann og bentir honum á tjónið.  Á leiðinni heyrði ég þig tauta öll þau hugsanlegu nöfn á ýmsum tungumálum yfir tappann.  Þegar að bílnum kom færðist skilningsljómi yfir manninn og hann sagði með sínum norska hreim "Ah, Bensínlok"  Þetta var sem sagt sama orðið og á íslensku.  

Við ætluðum náttúrlega að kafna úr hlátri við þetta, en þetta er eitt af því eftirminnilegasta úr þessari frábæru ferð á Sænska rallið, en af nógu var að taka, svo sem því að fara með Renault bílinn út í farþegaflugvél, þar sem 25 fyrstu sætinn höfðu verið fjarlægð og sjá upplitð á afgreiðslumönnunum í Oslo þegar vélin var opnuð, svo ekki sé talað um verðlaunaafhendinguna í Karlstad, þar sem þú tróðst upp og tókst "Torfærukeppnina" og snérir öllu upp á sigurvegarana, Audi og Ford.  Salurinn ætlaði að truflast úr hlátri og t.d. Finnar komu að borðinu hjá okkur og spurðu hvað Svíar hefðu borgað þér fyrir að taka þátt í rallinu og koma með þessa uppákomu....

Hvað sem öllu líður, þá var þetta ógleymanleg ferð og hafðu þakkir fyrir þessa 10 frábæru daga í Sænska rallinu um árið....

Kveðja,

Ólafur Guðmundsson.

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.7.2011 kl. 22:45

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er allt saman rétt og satt hjá þér, Ólafur, enda var það svo að ég var alveg búinn að gleyma þessu atviki þegar þú minntir mig á það fyrir nokkrum árum.

Af því leiðir að þú mundir það allan tíman mun betur en ég og þakka ég þér fyrir að segja söguna eins og hún var, sem og frá lokahófinu.

Önnur ógleymanleg og enn eftirminnilegri atriði man ég hugsanlega betur en þú, enda varst þú ekki viðstaddur sum þeirra af eðlilegum ástæðum, af því að þau gerðust inni á sérleiðum.

Einkum er atvikið í einu hliðinu um nóttina eftirminnilegt, þegar bíllinn þurfti að fara í gegnum tékkskoðun einmitt þegar hann var bæði rafmagnslaus og bensínlaus.

Hvernig okkur tókst að leika á sænsku eftirlitsmennina og klára sérleiðina á eftir er nokkuð sem á ekki að geta gerst.

En það er löng saga og bíður betri tíma.

Ómar Ragnarsson, 12.7.2011 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband