19.7.2011 | 10:11
Cadillac desert.
Einhver áhrifamesta bók um umhverfismál sem ég hef lesið er bókin "Cadillac desert" eftir Marc Reisner.
Hún fjallar um inngrip manna í náttúrufar í suðvesturríkjum Bandaríkjanna og opnaði fyrir mér nýjan heim í þessum málum.
Einkum var það sagan af Glen Canyon virkjuninni og baráttuna um hana sem sýndi glögglega að við Íslendingar erum því miður 40 árum á eftir Bandaríkjamönnum í umhverfismálum af þessu tagi, bæði hvað varðar umræðu alla og framkvæmdir.
Í einum af ritdómunum um bókina á sínum tíma var sagt að hún ætti að vera skyldulesning.
Atburðarásin varðandi Eyjabakka og Kárahnjúka hér heima var endurtekning á því sem gerðist varðandi Echo Park og Glen Canyon í Bandaríkjunum.
Athyglisvert er að nöfnin Echo park og Eyjabakkar byrja bæði á stafnum E.
Á sínum tíma barðist bandarískt umhverfisfólk harðar fyrir því að bjarga Echo park af því það þekkti þann stað vel en vissi lítið um Glen Canyon.
Því tókst að bjarga Echo park og gáfu Glen Canyoon eftir en þegar menn uppgötvuðu betur gildi Glen Canyon við upphaf framkvæmda þar kom í ljós að gerð höfðu verið arfamistök, - ef um eftirgjöf var að ræða hefði frekar átt að setja Glen Canyon í forgang.
Þetta fékk svo mjög á David Brower, forystumann náttúruverndarfólks, að á tímabili vöktuðu vinir hans hann vegna þess að hann íhugaði sjálfsmorð.
Hér heima gerðist hliðstæða. Fólk þekkti Eyjabakka betur en Hjalladal og eðli Kárahnjúkavirkjunar, og eftir að náttúruverndarsamtök voru örmagna að lokinni baráttunni um Eyjabakka, var gengið á lagið og ekki aðeins virkjuð Jökulsá á Dal heldur líka Jökulsá í Fljótsdal með tilheyrandi stíflum og lónum austan Snæfells.
Virkjanamenn fengu í lokin jafnvel meira miðlunarvatn en þeir hefðu fengið ef þeir hefðu virkjað fyrst með því að sökkva Eyjabökkum og síðar með því sökkva Hjalladal í samræmi við fyrstu áætlanir þar um.
Nú er hliðstætt í pípunum. Í bili var fallið frá því að virkja Jökulsá á Fjöllum en nú er sótt ákaft eftir því að taka hana með í framkvæmd hinnar gömlu LSD-áætlunar um virkjun allra jökulfljótanna á norðausturhálendinu eftir endurbættri formúlu.
Í Bandaríkjunum átti að fylgja Glen Canyon eftir með því að virkja Coloradoána neðar á tveimur stöðum með virkjunum, sem voru meira en ígildi Kárahnjúkavirkjunar.
Byrjað var á borunum og framkvæmdum en þær stöðvaðar og slegnar af í eitt skipti fyrir öll, þótt sagt væri að þær hefðu lítil umhverfisáhrif.
Hér heima virðist hins vegar brautin greið og í fullri alvöru stefnt að því að stýfa Dettifoss undir því yfirvarpi að aðeins sé tekinn helmingurinn af vatnsafli hans en samt því haldið að útlendingum að fossinn sé sá aflmesti í Evrópu.
Sandbylur huldi Phoenix á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ihugadi sjalfsmord....
Say no more! Daemigert viskvidatilfelli
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.7.2011 kl. 13:03
Dilettantismi Íslendinga í unhverfismálum er skelfilegur, sem og í flestum málum.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.7.2011 kl. 18:29
Sorgleg hvernig er komið fyrir okkur!
Sigurður Haraldsson, 19.7.2011 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.