23.7.2011 | 05:32
Standa okkur nærri.
Ég hygg að engar tvær þjóðir standi okkur nær en Færeyingar og Norðmenn. Á fjölmörgum ferðum mínum um þveran og endilangan Noreg hef ég skynjað greinilega mikla vinsemd og rækt við frændsemi Norðmanna við okkur.
Því er það vel að við sýnum þeim samúð, vinarhug og nærgætni vegna atburða sem hljóta að snerta okkur djúpt.
Mér finnst næstum því eins og þetta hafi gerst hjá okkur. Því er vel að samúðarkveðjur séu sendar frá okkur yfir hafið og Norðmenn látnir vita af því að þeir eigi hér vini og frændur.
Því miður og mér til mikillar hryggðar hefur ein bloggsíða hér á blog.is verið undirlögð af óhroða í hálfan sólarhring í tilefni af þessum hörmulegum fréttum.
Betur hefði verið að það, sem þar hefur verið látið vaða, hefði aldrei birst og vonandi að því linni.
P. S. Nú, á ellefta tímanum, sé ég á fleiri stöðum hér á blogginu skrif af þessu tagi, og að á bloggsíðunni, sem ég átti við, hefur umráðamaður síðunnar stöðvað umræðuna, þó án þess að biðjast afsökunar, heldur kennir hann þeim, sem athugasemdirnar gerðu, um hatursviðbrögð.
Samúðarkveðja til norsku þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hún ætti frekar að einbeita sér að því að senda öryrkjum Íslands samúðarkveðjur, fyrst hún treystir sér ekki í að hjálpa þeim. ÞEIR þurfa á aðstoð að halda.
Heiðar Bergvins (IP-tala skráð) 23.7.2011 kl. 07:57
Hörmungarnar í Noregi eiga ekkert skylt við vandamál öryrkja hér á landi, þau verður að leysa á öðrum vettvangi en sameinumst um að senda Norðmönnum heilshugar okkar samúðarkveðjur,og blöndum ekki okkar dægurþrasi inn í það. Vissulega eiga margir erfitt vegna efnahagshrunsins en við höfum sloppið við að horfa upp á svona aðfarir sem betur fer.
Vandamál a.m.k. sumra Íslendinga þarf að leysa hið fyrsta, vonandi verður tekið á því þegar þing kemur saman í haust og þá þurfum við að standa vel saman og sjá til þess að ekki verði haldið áfram á þeirri ranglátu braut sem hefur viðgengist hingað til.
Sandy, 23.7.2011 kl. 09:08
Á ég að trúa því að hér sé Heiðar að leggja til að við Íslendingar sýnum Norðmönnum ekki samúð í verki af því að vandamál hóps fólks á Íslandi sé alvarlegra en fjöldmorðin í Noregi?
Ómar Ragnarsson, 23.7.2011 kl. 10:33
Hugur okkar er hjá Norðmönnum. Þeir hafa tekið löndum okkar sem þangað hafa flutt af mikilli alúð. Við eigum ekki að blanda stjórnmálum inn í umræðunan. Þú mælir vel Ómar og nærgætni og vinarþel og samúð er það eina sem máli skiptir gagnvart þessari frændþjóð.
Guðmundur St Ragnarsson, 23.7.2011 kl. 14:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.