Fyrirmynd frá nágrannalöndum.

Eins og komið hefur fram á fundum stjórnlagaráðs hafa verið skiptar skoðanir um það hvort setja eigi takmarkanir á það um hvað sé heimilt að greiða þjóðaratkvæði.

Sumir hafa talið í lagi að engin takmörk séu enda gætu ýmis mál lent á gráu svæði, en aðrir hafa bent á að reynslan af því að hægt sé að vísa skattamálum og til dæmis fjármálafrumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslu hafi verið slæm á þeim örfáu stöðum þar sem það hafi verið heimilt.

Sú skoðun hefur haft betur í ráðinu að rétt sé að fara að með þeirri gát, sem margar þjóðir sýna í löggjöf sinni, enda sé það mikil breyting í sjálfu sér að 10% kjósenda fái rétt til að kalla fram bindandi þjóðaratkvæðagfreiðslu og að 2% kjósenda geti lagt fram frumvarp á Alþingi.

Sú skoðun kom fram hjá sumum ráðsmanna að rétt væri að núverandi skipan ótakmarkaðs málskotsréttar forseta Íslands væri óbreyttur og þar með væri haldið opinni leið til að öll lög gætu verið undir á borði hans.

 


mbl.is Þjóðin hefði ekki fengið að kjósa um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svisslendingar greiða atkvæði um allt hvaðeinsa sem þá lystir, þarmeðtalið þjóðréttarleg málefni,skattamál og fleira. Sviss er fyrirmyndarríki og réttast væri að fara þangað, ljósrita kerfið þeirra og faxa hingað heim.

Tal um Kaliforníu á ekki heima í þessu samhengi. Ótrúlegt að horfa á menn sitja með nítjándualdar hugmyndir um þingræði á tuttugustuogfyrstu öldinni. Öld lýðræðis.

marat (IP-tala skráð) 22.7.2011 kl. 16:27

2 Smámynd: Björn Emilsson

Ómar, Fyrst þú ert að tala um Stjórnlagaþingið þitt viltu þá ekki útskýra 109 grein tillagna ykkar um Framsal Ríkisvalds. Fellur Framsalið undir þjóðaratkvæðagreiðslu?

Björn Emilsson, 22.7.2011 kl. 16:54

3 identicon

Sæll Ómar.

Þú ert einn af þeim örfáu sem skipaðir voru á þetta svokallaða Stjórnlagaráð sem ég ber eitthvert traust til, þó svo að þú hafir reyndar hengt þig aftan í vonlausa Samfylkinguna.

Mér sýnist að margt af tillögum ykkar myndu verða til bóta í Íslenskri stjórnskipan og fyrir þjóðfélgaðið í heild.

En þessi óþjóðlega tillaga ykkar um framsal fullveldis þjóðarinnar til ríkjasambanda eins og ESB eða yfirþjóðlegra apparata eins og leikurinn virðist helst hafa verið gerður til verður því miður til þess að sennilega kemst ekkert af ykkar annars sumum ágætu tillögum í gegn !

Þess vegna verður að kjósa um einstaka tillögur ekki allar ykkar tillögur saman í einum pakka "JÁ" eða "NEI" !

Því annars verður öllum ykkar tillögum bæði slæmum og góðum sópað útaf borðinu í þjóðaratkvæðagreiðslu af miklum meirihluta þjóðarinnar þar sem þátttaka verður allt að 3svar sinnum meiri en í Stjórnlagaþingskosningunum.

Þetta mun verða bara útaf þessu eina úldna ESB-fúleggi og skemmda ESB epli sem þið eða meiri hluti ykkar smygluðuð inn í heildar pakkann !

Vona að þú reynir þarna að hafa eitthvert vit fyrir þeim sem harðast ganga þarna fram í glórulausu ESB- trúboðinu !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 22.7.2011 kl. 18:09

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég hefði kannski ekki notað sama texta og Gunnlaugur en margt segir hann sem flaug í gegn um hugann.

Það er morgunljóst að mörg okkar sem studdum skipan stjórnlagaráðs erum ósátt við þann fullveldisslaka sem skín í gegn um mikilsverð ákvæði.

Árni Gunnarsson, 22.7.2011 kl. 19:37

5 identicon

Eru "nágrannalöndin" sem hérna er vísað til fleiri en Danmörk?

Og eru þessir örfáu staðir þar sem atkvæðagreiðslur almennings um skattatengd málefni hafa leitt til vandræða fleiri en Kalifornía?

Mér reiknast til að þau ríki Bandaríkjanna sem búa við sambærilegt kerfi og Kalifornía séu 22 talsins. Hvað eru ríki í fjárhagsvandræðum stórt hlutfall þeirra?

Til samanburðar: Hvað eru Grikkland, Portúgal, Írland. Spánn og Ítalía stórt hlutfall fulltrúalýðræðisríkja í Evrópu?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 22.7.2011 kl. 20:10

6 Smámynd: Vendetta

Þessar tillögur stjórnlagaráðs eru sorglegar, en eru nákvæmlega það sem Samfylkingin vonaðist eftir. Ef Alþingi eyðileggur núverandi stjórnarskrá með því að fara að óskum stjórnlagaráðs mun næsta skrefið vera að komast hjá því að þjóðin fái að kjósa um hana. Hvernig ríkisstjórnin ætlar að gera það verður næsti þáttur leikritsins.

Annars var skemmtilegt að lesa Staksteina í dag. Þar var spurt, hvort það væru örugglega ekki fleiri dægurmál, sem hefðu gerzt í þessari viku, sem stjórnlagaráð vildi setja inn í stjórnarskrána.  

Annars skil ég ekki hvers vegna Ögmundur er að kvarta. VG ber alveg sömu ábyrgð á stjórnlagaráði og Samfylkingin með þátttöku sinni í ríkisstjórninni. En á meðan Samfylkingin er ekkert að fela landráðastefnu sína, þá leikur VG tveimur skjöldum og talar með klofinni tungu.

Vendetta, 22.7.2011 kl. 20:34

7 identicon

Ómar, ég hafði trú á þér en þvílík vonbrigði að þú skulir afhjúpa þig sem boðsvein samfylkingar á stjórnlagaþinginu. Hvað kom fyrir? var þér mútað eða hótað?

Hér eruð þið að tryggja það að stjórnarliðar geta skuldbundið þjóðina með samning eins og Icesave 1. Haldið þið virkilega að við getum treyst stjórnvöldum til að gæta hag þjóðarinnar til hins ýtrasta. Nær allir eru sammála um að þessi samingur var verulega vondur og glapræði væri að samþykkja hann, samt flaug hann í gegnum alþingi íslendinga!! Hvað eru þið að spá? Ég sem lýðræðiselskandi íslendingur mun segja feitt NEI við stjórnarskránni.

Hvað er að lýðræðinu í Sviss?

Er lýðræðið í konungsríkjunum í nágrenni okkar ekki bara lélegur fyrirsláttur til að verja þingræðið sem samþykkti Icesave 1 eins og hjörð.

Ég og aðrir lýðræðiselskandi munum berjast gegn ykkur með látum.

Skammastu þín Ómar..

Sigurður Helgason (IP-tala skráð) 22.7.2011 kl. 21:29

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Áður en mér er formælt frekar er rétt að upplýsa það að ég var einn þeirra Íslendinga sem skoraði á forseta Íslands milli jóla og nýárs 2009-10 að skjóta Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér að ofan er ég að útskýra mismunandi sjónarmið stjórnlagaráðs en ekki endilega að túlka mínar skoðanir.

Varðandi "landráðin" sem eiga að vera fólgin í því að einhverjar reglur séu til um framsal á valdi ríkisins er það að segja, að samkvæmt núverandi drögum er það tryggt að þjóðin mun eiga síðasta orðið um slíkt. Er það svona voðalegt að þjóðin ráði þessu sjálf?

Þeir sem sífellt tala um "landráð" í þessu efni eru að saka nær alla ráðamenn Íslands frá 1944 um landráð, því að á síðustu 67 árum höfum við framselt ótal hluti stóra og smáa.

Fyrsta verulega framsalið var aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum þar sem við verðum að hlíta ályktunum Öryggisráðsins, sem oft eru um hernaðaraðgerðir, samanber Kóreustríðið, stríðið í Kosovo og Flóastríðið.

Listinn af sáttmálum og tilheyrandi afsali er mjög langur frá 1944:  Alþjóða flugmálastofnunin, NATO, EFTA, hafréttarsáttmálinn, Alþjóðadómstóllinn í Haag, Mannréttindasáttmálar Sþ og Evrópu, mannréttindadómstólli í Strasborg, RÍÓ-sáttmálinn, Kyoto samkomulagið, mannréttindasáttmáli, EES, stríðsglæpadómstóllinn o. s. frv.

Ómar Ragnarsson, 23.7.2011 kl. 05:58

9 identicon

Sæll Ómar.

Það eru mér og örugglega öllum sem hér "commenta og einum rómi andmæla þessu fullveldisframsali sem Stjórnlagaráðið leggur til, að þú skulir svo verja þetta hér í svari þínu og telja svo upp aðra samninga sem við höfum gert við stofnanir eins og SÞ, NATO og fleiri, þar sem við erum þátttakendur án þess að láta eftir löggjafarvald okkar og yfirráð yfir fiskveiðilögsögu okkar og stjórn landbúnaðarmála svo eitthva sé nefnt.

Þetta er alls ekki sambærilegt og ég ítreka hér það sem ég sagði í fyrra commenti mínu að því miður mun þessi Samfylkingar sérpantaða fullvelsisframsals tillaga, því miður eyðileggja allt ykkar starf ef kosið verður um tillögurnar í einu lagi.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 23.7.2011 kl. 11:22

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar lagt er saman það fullveldisafsal, sem farið hefur fram í 67 ár verður það að teljast "verulegt".

Ég er í hópi þeirra sem telja að inngangan í EES hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt hún gerði það ekki í hinum EES-löndunum.

Minna má á að inngangan í Sameinuðu þjóðirnar, NATO, EFTA og fleira slíkt fór aldrei í þjóðaratkvæðagreiðslu. Raunar fór engin þjóðaratkvæðagreiðsla fram í 66 ár eftir að núverandi stjórnarskrá var lögleidd.

Gott hefði verið að hafa skýrar reglur um þetta á sínum tíma í stjórnarskrá.

Í núverandi stjórnarskrá vantar alveg ákvæði um þessi mál og ef þið lesið það sem nú er lagt fram, þá erum við að setja um þetta nauðsynlegar reglur í stað þess að stjórnvöld hér á landi hafi til þess svigrúm að keyra svona mál í gegn.

Ég sé til dæmis ekkert það í núverandi stjórnarskrá sem kallar á þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning að ESB.

Það eina sem við höfum eru yfirlýsingar einstakrar ráðherra og þingmanna um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Þær hafa ekkert stjórnskipulegt gildi. ´

Í þessu nýja plaggi má sjá ýmislegt til að bæta réttarfar og gera það skýrara, svo sem ákvæði um Lögréttu.

Við reyndum að fara meðalveg í þessu máli þannig að ferillinn í því endaði með þjóðaratkvæðagreiðslu eins og lofað hefur verið, hvort sem ný stjórnarskrá hefur þá tekið gildi eða ekki.

Ómar Ragnarsson, 23.7.2011 kl. 14:29

11 Smámynd: Vendetta

Ómar, þú smeygir þér alveg framhjá því sem er kjarni málsins: Forsetinn hefur rétt skv. 21. grein að vísa lögum frá Alþingi í þjóðaratkvæðagreiðslu og gefa þar með þjóðinni neitunarvald. Þetta er eina formið fyrir beinu lýðræði sem er til á Íslandi. Þennan rétt forsetans vill stjórnlagaráð skerða, þannig að ekki verður hægt að vísa þjóðréttarlegum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. En einmitt þjóðréttarleg mál eru þau mikilvægustu fyrir sérhverja þjóð og við höfum séð að Alþingi er einmitt ekki treystandi til að sinna þeim málum.

Ef stjórnarskráin fær að vera óbreytt áfram í nokkur ár, þá mun ÓRG vísa lögum (sem hefur verið samþykkt af Samfylkingunni, meirihluta VG og nokkrum ræflum frá öðrum flokkum) um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu og aðildinni mun verða hafnað af meirihluta þjóðarinnar, enda þýðir aðild að ESB (ólíkt SÞ, NATO og EES) fullkomið fullveldisframsal. Þetta má ríkisstjórnin og afsprengi hennar, stjórnlagaráð, ekki taka af þjóðinni.

Hins vegar er ég sammála því að það þarf að vera fleiri bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur í mikilvægum málum hér á landi. Mikilvægum málum. Á borð við IceSave, ESB og þátttöku í stríðsátökum og öðrum vafasömum skuldbindingum. Öllum þjóðarréttlegum málum. Án undantekninga. 

Vendetta, 23.7.2011 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband