2.8.2011 | 11:45
"Stærsta leiksýning veraldar".
Á svæðinu milli Vatnajökuls og Suðurjökla (Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls) á sér stað stærsta leiksýning veraldar, sem kalla mætti The Greatest Show on Earth á ensku.
Með 3-500 ára millibili verða þarna stærstu eldgos á Íslandi, 930, 1480 og 1783. Eldgjárgosið 930 er stærsta gos sem vitað er af á jörðinni á sögulegum tíma, stærra en Skaftáreldar.
Leiksýningin skiptist í goskafla og sandburðarkafla. Þegar gaus 930 rann hraun allt niður í Meðalland og fór yfir land sem áður hafði ýmist gróið upp eða farið undir aurburð ánna á svæðinu.
Síðan kom uppgræðslu- og aurburðarkafli fram að Skaftáreldum, en hið nýja Skaftáreldahraun rann þá yfir það svæði sem gróður og sandur höfðu numið.
Nú stendur yfir uppgræðslu- og aurburðarkafli þar sem aur frá Skaftárkötlum og nýr gróður eins og mosi þekur æ stærra svæði af hrauninu, sem rann 1783.
Hver sá, sem fer um þetta svæði og fær að vita á hvað hann er að horfa hlýtur að hrífast af því að vera áhorfandi að "Stærstu leiksýningu veraldar".
Hugmyndir um virkjanir á svæðinu hafa miðað að því að grípa inn í þessa miklu leiksýningu náttúrunnar líkt að ruðst væri upp á svið í leikhúsi, þar sem verið væri að sýna grískan harmleik eða harmleik eftir Shakespeare og, og "tekið í taumana."
Nú um stundir er maður ekki viðræðuhæfur um hluti nema að allt sé mælt í peningum, því miður. Ég er þess fullviss að miklu meira fé er hægt að fá út úr þessu svæði með því að auglýsa það upp á viðeigandi hátt til að efla þar ferðamennsku heldur en með því að einblína á virkjanir.
Sá ágóði er til frambúðar og auk þess fæst heiður og virðing sem út af fyrir sig má meta til fjár í formi viðskiptavildar.
Umsvif af virkjanaframkvæmdum standa hins vegar aðeins yfir í nokkur ár og gróðahugsunin á bak við þær er mótuð af afar mikilli skammsýni.
Hugsunin er líka afar ágeng, samanber orðalagið "Búlandsvirkjun verður reist lengra frá Langasjó". Sem sagt: Hún verður reist, hvað sem tautar og raular, og fer þá fyrir lítið ályktun landsfundar Samfylkingarinnar 2009 þar sem lýst var þeirri stefnu flokksins að friða allt svæðið á milli Vatnajökuls og Suðurjökla.
Búlandsvirkjun verður reist lengra frá Langasjó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Búlandsvirkjun er aftarlega á lista yfir virkjanakosti í rammaáætlun. Þessi frétt gæti hafa orðið til vegna áhuga virkjunarmanna til að koma henni framar í röðina. Sem borinn og barnfæddur Vestur-Skaftfellingur skil ég ekki áhuga þeirra á þessum virkjanaáformum. Þessar virkjanaframkvæmdir skapa að aðeins vinnu og tekjur í héraði meðan á þeim stendur. Orkan verður síðan notuð í öðrum landshlutum. Þá er búið að skemma ósnortið land og draga stórlega úr gildi þess fyrir ferðamenn og aðra sem unna ósnortinni náttúru. Ferðaþjónusta er eina atvinnugreinin sem er í sókn á þessu svæði. Röksemdum með virkjunum þarna mætti kannski líkja við það að það skapaði lækninum vinnu að tappa blóðinu af sjúklingnum.
Ómar S. Jónsson, 3.8.2011 kl. 23:02
Fyrirhuguð virkjanaáforn í Skaftárhreppi eru hreint út sagt skelfileg fyrir náttúruna, landslag, lífríki og samfélag. Það á einfaldlega að láta jökulárnar í Skaftárhreppi í friði og nýta náttúruna á sjálfbæran hátt fyrir landbúnað, ferðaþjónustu og þekkingarstarfsemi.
Ég reyndi að blogga um fréttatilkynninguna en tókst ekki að tengja. Hér er slóð á bloggið mitt. Vona að Ómar Ragnarson fyrirgefi mér það. http://www.olafiaj.blog.is/blog/olafiaj/
Ólafía Jakobsdóttir (IP-tala skráð) 4.8.2011 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.