5.8.2011 | 23:43
"Örbíla-naumhyggjusafn" er draumurinn.
Við siglum inn í öld samdráttar og nýtni, sem mun óhjákvæmilega vaxa af hreinni nauðsyn í kjölfar bruðls mannkynsins með auðlindir jarðar.
Aðeins tvö örbílasöfn er að finna á netinu, annað í Austurríki og hitt í Georgíu í Bandaríkjunum.
Síðustu þrettán ár hafa safnast fyrir hjá mér allmargir örbílar og bílar, sem standast þær kröfur sem ég mun geta til naumhyggjusafns, þ. e. bílar sem hafa verið eða eru ódýrastir.
bóluárunum gaf fólk mér þessa bíla marga hverja, því að það var ekki "in" að láta sjá sig á öðru en nýjum og fínum bílum.
Á morgun er í ráði að fara á einum þeirra, minnsta Mini í heimi, í Gleðigönguna. Ef hægt yrði að koma upp örbíla-naumhyggjusafni má telja líklegt að ferðamenn muni vilja skoða það.
Það eina sem vantar er hentugt húsnæði, sem enn hefur ekki fundist.
Smámunasafn kúnstugs safnara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Frábær hugmynd, Ómar!
En getur það virkilega verið að ekki finnist hentugt húsnæði undir svona safn? Er ekki borgin full af tómu húsnæði? Og svo væri kannski ekki úr vegi að hugsa eilítið um sérstæða staðsetningu svona safns. (Og svo skiptir auðvitað miklu máli hversu marga bíla við erum að tala um)
Hvernig væri t.d. að vera svolítið nýskapandi og öðruvísi og staðsetja safnið á efstu hæð í einhverju skrifstofuhúsnæði? Flestir bílanna myndu hvort eð er komast fyrir í venjulegri lyftu, er það ekki (eða svona næstum því)?
Væri ekki hægt að tengja þetta listrænni hönnun/iðnhönnun og gera safnið hluta af einhverju hjá listasöfnum eða jafnvel Listaháskólanum (margir bílanna eru ekkert minna áhugaverðir í því samhengi, og þá yrði hópur heimsækjenda líka breiðari)?
Mætti ekki kanna áhuga opinberra aðila á því að vera með í verkefninu (Vegagerð / Stofnanir sem hafa meö orkumál að gera / Árbæjarsafn (sem nú þegar er mjög vinveitt Fornbílaklúbbnum) ?
Svo þarf svona safn kannski ekki endilega að vera allt á einum stað? Hvernig væri ef fjöldinn af bílum væri nægur til að koma mætti 2-3 fyrir á ýmsum áhguaverðum stöðum á höfuðborgarsvæðinu (nú eða enn dreifðara um landið)?
Mætti ekki koma þeim fyrir í flugskýli / flugskýlum? Eru engin svoleiðis með aukapláss, nú í kreppunni?
Hvað með anddyri stórfyrirtækja? Þau eru mörg hver með hátt til lofts og vítt til veggja. Er ekki á ýmsum stöðum pláss fyrir eins og 1 stk. Morris Minor eða NSU Prince á veggjunum hjá þeim? Með smá skilti sem útskýrir af hverju bíllinn hangir þar og hvar næstu bíla er að finna?
Að lokum: Svona safn mætti alveg útbúa án stórra útgjalda. Þessir smábílar voru væntanlega flestir hannaðir og byggðir sem einföld verkfæri, frekar en einhvers konar stöðutákn. Mætti ekki einmitt undirstrika það með því að sýna bílana í sínu eðlilega ástandi, með dældum, ryðblettum og rispum? Sparar stofnkostnað og er í raun "réttari" mynd af tilgangi bílsins.
Bara mitt innlegg í umræðuna.
Kveðja, Birgir Birgisson, iðnhönnuður og fyrrverandi Bragga-bílstjóri
Birgir Birgisson (IP-tala skráð) 6.8.2011 kl. 07:19
Þetta er nú ekki alveg rétt, Egeskovslot í Danmörku hefur einmit slíkt örbílasafn. Ég er nokkuð viss um að slík söfn finnist víðar.
Á Egeskovslot er einnig safn óuppgerðra bíla. Þ.e. sýndir í því ástandi sem þeir eru.
Thor Svensson (IP-tala skráð) 6.8.2011 kl. 10:40
Samgöngusafnið á Skógum? Nær að henda bílunum inn og taka "skaftið" niður til brúks, hehehe.
Jón Logi (IP-tala skráð) 6.8.2011 kl. 16:20
Safnið þarf helst að vera á stað þar sem hægt er að aka bílunum út úr því og halda þeim gangfærum.
Ég hef sennilega ekki fundið danska safnið á netinu vegna þess að ég leitaði að "microcar musemum" á netinu.
Ómar Ragnarsson, 6.8.2011 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.