12.8.2011 | 18:36
Sjö kynslóðir indíánahugsunarinnar.
Alla síðustu öld var kennt í skólum, hvernig stórkostlegar vísindauppgötvanir færðu mannkyninu batnandi lífskjör, velferð og hamingju.
Þessi vestrænu vísindi ryddu burtu hjátrú og hindurvitnum "frumstæðra" þjóða eins og indíána.
Ég man þá tíð þegar menn sáu fyrir sér að hafin væri "atómöld" þar sem fengist gnægð orku í kjarnorkuverum og að vatnsorkan yrði ekki samkeppnishæf.
Var þetta meðal annars ein helsta röksemdin fyrir því að hér á landi yrði að fara í kapphlaup við að virkja sem mest af vatnsorku áður en hún missti samkeppnishæfni sína.
Merkilegt er hvað gengið var langt í að mæra kjarnorkuna þegar þess er gætt að hún er í raun ekki endurnýjanleg orka en framhjá því og erfiðleikunum við að losna við úrgang frá kjarnorkuverunum var alveg skautað í þessu trúboði.
Þessi þöggun og skammsýni var alveg á skjön við djúpa vísindalega hugsun og upplýsingu, sem átti að vera aðall vestrænnar hugsunar.
Meðal hinna "frumstæðu" indíána var sú hugsun sett fram að engin starfsemi eða nýting væri réttlætanleg nema hún dygði fyrir minnst sjö kynslóðir framtíðarinnar.
Nú liggur ljóst fyrir að langt er í frá að jarðefnaeldsneyti jarðar muni duga svo lengi.
Einnig liggur fyrir að verði kjarnorkan notuð í staðinn muni hráefnin, sem hún byggist á, ekki heldur endast svo lengi.
Í stað þess að gera lítið úr umhverfishugsun indíánanna ætti vestræn vísindahugsun að ganga lengra og gera kröfur til orku og nýtingar auðlinda sem ná mun lengra fram í tímann en sjö kynslóðir, eða eins lengi og séð verði fram í tímann.
Heimurinn færi sig frá kjarnorku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.