20.8.2011 | 14:22
Ljóðrænt veður í Reykjavík.
Það verður ljóðrænt veður í borginni okkar og ekki hægt að fara fram á betra. Ég notaði tækifærið í gærkvöldi til að flytja lagið "Reykjavíkurljóð" á samkomu og í tilefni dagsins bendi ég á að á tónlistarspilaranum hér vinstra megin er að finna þetta lag í flutningi Ragnars Bjarnasonar.
Lagið er fjórða efsta á listanum, fyrir neðan "Þar ríkir fegurðin", en af einhverjjm ástæðum sést nafn lagsins ekki í titlinum heldur "Gunnar Þórðarson-Ragnar..."
Í því er á fjórum mínútum lýst sögu borgarinnar frá landnámi, umhverfi hennar, lífinu og menninguna í henni og úthverfum hennar og helstu söguslóðum, minnismerkjum.
Lagið eftir Gunnar Þórðarson. Stórsveit hans leikur en kvartettinn Borgarbörn syngur með Ragnari.
Hér fyrir neðan er textinn við lagið:
REYKJAVÍKURLJÓÐ.
Ljúf stund, - safírblá sund
þegar sindraði´á jöklinum glóð, -
tvö ein, - aldan við hlein
söng um ástina lofgjörðarljóð.
Þau leiddust inn í Laugarnes, lögðust þar,
ástfangin og rjóð hið fyrsta Reykjavíkurpar,
þau Ingólfur og Hallveig.
Enn er unaður hér
leiðast elskendur á nýrri öld
um torg í vorri borg,
njóta yndis um sumarkvöld.
Við Austurvöll og Ánanaust
er elskað alveg fölskvalaust.
Hér er hamingjan rík
og hvergi betra´að kyssa´og elska en í Reykjavík.
Nú syngja allir saman:
Borgin mín! Blikandi haf sem skín!
Alþingi og Dómkirkjan svo fín!
Jón hnakkakertur á stallinum sperrtur
starir á næturlíf, faðmlög og gleði og grín.
Í ból
sígandi sól
litar sæinn eins rauðan og blóð.
Við fjörð
Esjan enn vörð
stendur áfram um sagnaslóð.
Göngum rúntinn! Gefum bra-bra!
Næturgleðin engu lík!
Og óviðjafnalegt að skemmta sér í Reykjavík!
Ljúf stund, safírblá sund
þegar sindrar á jöklinum glóð.
Tvö ein, - aldan við hlein
syngur ástinni lofgjörðarljóð.
Í úthverfunum una sér
ungu fjölskyldurnar hér:
Sport, stress, bras, börn og org!
Það kostar sitt að keppa´um lífsgæðin í svona borg.
Nú syngja allir sama:
Borgin mín! Blikandi haf, sem skín!
Börnin við Tjörnina, svo fín.
Pabbi og mamma púla og djamma,
paufast í umferðarteppu á leið heim til sín.
Ljúf stund, safírblá sund
þegar síðast ég kveð mína þjóð.
Á ný um þennan bý
geng í anda um sagnaslóð,
kem í Iðnó, keyri rúntinn,
leiði elsku um Lækjartorg
og þakka´að fá að fæðast, lifa´og deyja í svona borg.
Ó, er það ekki yndislegt að eiga svona borg!
Menningarnótt hafin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.