25.8.2011 | 09:42
Hvergi fleiri Buickbílar. Hvað um okkur sjálf?
Bíltegundin Buick hefur alla tíð verið í hópi dýrra bíla. Nú eru framleiddir mun fleiri bílar af þeirri gerð í Kína en í Bandaríkjunum.
Kínverjar eru að ganga í gegnum svipað og vestrænar þjóðir, þar á meðal við Íslendingar, gerðu þegar bílavæðingin hófst. Fyrstu áratugi bílavæðingar hér voru Íslendingar með stærri og eyðslufrekari bíla að jafnaði en nokkur önnur Evrópuþjóð.
Í Bólunni bókstaflega mokuðum við inn stórum amerískum pallbílum og dýrum evrópskum bílum.
Hvergi í Evrópu eru færri dísilbílar en hér á landi.
Ég tel hins vegar að það sé mikil einföldun að draga þá ályktun af fáum Priusbílum að það sé merki um óraunsæi í bílakaupum. Hraðar framfarir í gerð dísilvéla hafa valdið því að tvinnbílar hafa ekkert fram yfir jafnstóra dísilbíla og allra síst í löndum með kalt loftslag.
Tvinnbílarnir eru dýrari í framleiðslu og flóknari að gerð og ég tel það skrum og ranga forgangsröðun að gefa þeim sérstaka aflætti og frí bílastæði.
Þetta er bara p.r. fyrirbæri ríkafólksins að mínum dómi. Sem dæmi má nefna að forsetabíllinni okkar, sem er að vísu stórkostlega góður Lexus-tvinnbíll, er bæði flóknari og í raun dýrari en sambærilegir BMW eða Benz lúxusbílar með dísilvélum sem gefa þeim bílum jafn litla eyðslu og jafnmikinn kraft og hinn flókni Lexus-tvinnbíll býr yfir.
Í augnablikinu liggur beinast við fyrir okkur að fjölga metanknúnum bílum og stuðla að hagkvæmari bílaflota með minni og sparneytnari bílum en við höfum alla tíð talið að við þyrftum að eiga.
Rafskutlur geta líka sparað mikla peninga. Orðið vespa er fráleitt um þá gerð bifhjóla sem er kölluð "scooter" á ensku eða "roller" á þýsku, því að Vespa er aðeins ein tegund af bifhjólum.
Á sínum tíma var orðið "Asdic" notað um dýptarmæla af því að framleiðandinn hét Asdic. Síðan tók íslenskt orð við af því að framleiðendurnir urðu fleiri.
P. S. Var að fá senda athugasemd um þetta með Asdicið þar sem mig misminnti. Þeir notuðu þetta mælitæki í síldveiðunum og þetta var sonar-leitartæki til að finna kafbáta og Asdic var dulnefni en ekki nafn framleiðandans.
Orðið "ampex" var notað fyrstu árin um stór myndbandsupptökutæki af því að framleiðandinn hét "Ampex". Síðan hvarf þetta að sjálfsögðu.
Ég held að orðið "skutla" ná best "scooter". Þessi hjól eru í oftast smærri en önnur, þótt hægt sé að kaupa stórt lúxushjól af gerðinni Suzuki Burgman 650. Þau eru frábrugðin öðrum hjólum að því leyti að hreyfillinn er fyrir aftan og neðan ökumanninn og beintengdur við afturhjólið.
Þar með gefst alveg opið frítt pláss fyrir fæturna í góðu skjóli beint fyrir framan ökumann.
Burgman 650 er fyrsta skutluhjólið þar sem hreyfillinn fjaðrar ekki með afturhjólinu, heldur er fastur í grindinni. Það væri mitt óskahjól ef ég ætti slíkt.
Við Íslendingar þurfum ekki að kvíða hvarfi olíunnar því fáar ef nokkrar þjóðir eiga endurnýjalega orkugjafa sem geta sinnt nær allri orkuþörf sinni. Þess vegna eigum við ekki að bruðla með hana af óforsjálni.
Rafbílar í vörn í Kína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nákvæmlega, Ómar. Þessvegna er brýnt fyrir okkur - eins og þú hefur margsinnis bent á - að taka frá hagkvæma orkukosti til þess að framleiða raforku vegna samgangna okkar hér innanlands í framtíðinni. Held að einkabílisminn hljóti að renna sitt skeið og dragast verulega saman og fólk ferðist þeim mun meira með hagkvæmum almenninsfarartækjum, sem auðveldara yrði að knýja með raforku. Ef farið verður í vetnisvæðingu að einhverju marki, verður sá kostur afskaplega dýr og óhagkvæmur. Það þarf mikla raforku til að rafgreina vetni úr vatni og nýtingarstuðullinn slakur. Vafalaust verðum við þó að nota þann kost - að einhverju marki allavega - til að knýja fiskiskipaflotann. Það er þó fyrirsjáanlegt að stóru togskipin, með olíuþyrstu 10.000 kw vélarnar í dag, verða ekki endurnýjuð.
Gamlingi (IP-tala skráð) 25.8.2011 kl. 14:32
Ég er nokkuð hræddur um það að Vetnisdraumurinn sé ekkert annað en draumur næstu 200 árin. Ef að við ætlum að taka þátt í þróun vetnisökutækja þá á Strætó BS að skipta út öllum eiturspúandi dísel druslunum sem þeir eru með fyrir vetnis strætó. Bara með því að losna við þessi skrímsli úr umferð myndi snarbæta loftgæðin á höfuðborgarinnar.
Og þegar við erum komin með 2 vetnisstöðvar á höfuðborgarsvæðið þá gætu önnur fólksflutningafyrirtæki skipt út 1 eða 2 bílum í innanbæjarakstri. En ég er ansi hræddur um það að áður en við finnum ódýra lausn til að framleiða vetni í stórum stíl þá er vetnisdraumurinn bara draumur.
Stebbi (IP-tala skráð) 25.8.2011 kl. 20:50
Ef aðeins brot af Kínverjum haga sér eins og Íslendingar viðheldur það framleiðslunni með tilheyrandi mengun. Húsgögn í Kína eru að stækka gífurlega og annað eftir því. Aukning á dýrum eðalbílum er ógnvekjandi, því vart sér til sólar í sumum borgum í Kína. Hér sér vindurinn um að koma útblæstri í burtu, nema á góðvirðisdögum.
Vespan ætti að vera faratæki unga fólksins, lipur og létt mesta hluta ársins. Varasöm í hálku og líka kennd við ættkvísl geitunga.
Sigurður Antonsson, 25.8.2011 kl. 21:26
„Á sínum tíma var orðið "Asdic" notað um dýptarmæla af því að framleiðandinn hét Asdic. Síðan tók íslenskt orð við af því að framleiðendurnir urðu fleiri.“
Ertu nú alveg viss um þetta? Asdic er ekki dýptarmælir heldur fiski, eða kafbáta, leitartæki sem leitað er með lárétt frá skipinu. Og ólíklegt er að nokkur framleiðandi asdictækja hafi heitið asdic heldur var þetta dulnefni á græjunni meðan hún var í þróun enda var þetta háleynilegt hernaðartæki. Sjá um þetta til dæmis: http://en.wikipedia.org/wiki/Sonar#ASDIC
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.8.2011 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.