1.9.2011 | 00:18
Hvítklædd eins og Vigdís forðum í Kaupmannahöfn.
Ein af fyrstu opinberu heimsóknum Vigdísar Finnbogadóttur til útlanda var frægðarferð hennar til Kaupmannahafnar. Þar heillaði hún Dani upp úr skónum að allt annað féll í skuggann, hvítklædd eins og prinsessa í hugsanlegu ævintýri eftir H. C. Andersen.
Rétt á eftir gerðist það að sjö ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar voru á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn.
Hér heima var ekki ónýtt að gantast með þetta á samkomum og tala um þann ævintýrablæ sem Íslendingar hefðu sett á æskustöðvar sjálfs ævintýraskáldsins: Fyrst kom Mjallhvít frá Sögueyjunni og svo komu dvergarnir sjö!
Vigdís brilleraði líka á sameiginlegum blaðamannafundi hennar og Margrétar Danadrottningar, þegar danskir fjölmiðlamenn gengu hart að þeim og baunuðu á þær krefjandi spurning. Danir lýstu þessari skotrhíð spurninga með danska orðinu krydsild, en einn blaðamannanna hér heima þýddi þetta þannig að þær hefðu borðað kryddsíld.
Þetta henti Stöð 2 síðar á lofti og nefndi árlegan áramótaþátt sinn með formönnum stjórnmálaflokkanna þessu nafni.
Allir falla í skuggann af Mette Marit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hún var óneitanlega skondin þessi kryddsíldarfrétt. Þessi blaðamaður hefur örugglega í gegnum tíðina oft verið spurður hvor honum þyki kryddsíld góð.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 1.9.2011 kl. 11:21
Þetta er ekki nýtt af nálinni og ég kann mörg dæmi. Oftar en einu sinni gerðist það á stríðsárunum að fréttnæmt þótti þegar Staff hershöfðingi lét til sín taka. Það hefði svo sem getað gengið í einhverja ef ekki hefði viljað svo illa til að hann var hershöfðingi beggja stríðsaðila og jafnvel hjá enn fleiri þjóðum.
Ástæðan var sú að "the general staff" var enska heitið yfir yfirherráð stríðsþjóðanna en staff var hins vegar ekki nafn á hershöfðingja.
Ómar Ragnarsson, 1.9.2011 kl. 13:49
Axel Jóhann Hallgrímsson, 1.9.2011 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.