Dýpri og víðari umræðu, takk!

Þegar umræðan um EES stóð hæst á sínum tíma var það áhyggjuefni margra að gagnkvæmt leyfi til fjárfestingar gæti orðið til þess að öflugir aðilar á EES-svæðinu keyptu upp jarðir og lönd á Íslandi.

Hingað til hefur niðurstaðan þó í grófum dráttum orðið sú að Íslendingar keyptu líkast til meira af fasteignum og landareignum í Evrópu heldur en Evrópumenn keyptu hér. 

Nú væri kannski hægt að álykta af þessu, að ekki þurfi um þetta að ræða meira. En áhugi Huang Nubo á mestu landakaupum útlendings á Íslandi til þessa sýnir að aðstæður geta breyst og að full þörf er á því að horfa langt fram á við í þessum efnum. 

Það er þarft mál að Lilja Mósesdóttir setji þessi mál í bætt samhengi. Ég hef áður bent á að öflugur ferðaþjónustumaður, Friðrik Pálsson, taldi sig ekki þurfa að kaupa jörðina Lambhaga til þess að reisa Hótel Rangá til að koma sér upp vaxandi og atvinnuskapandi ferðaþjónustu.

Ég hefði talði það heppilegra að Huang Nubo færi að á svipaðan hátt á Grímsstöðum, og tel að við eigum að stefna að því sama varðandi landakaup og kaup á sjávarútvegsfyrirtækjum, að útlendingar megi ekki eiga meira en 49%.  Raunar þyrfti prósentutalan að vera lægri. 

Danir eru í ESB en banna samt sölu á sumarhúsum til útlendinga. Það sýnir að viðfangsefnið er ekkert einskorðað við Ísland. 

Á blaðamannafundi Huang Nubo var málinu stillt þannig upp, að ef Íslendingar svo mikið sem rökræddu um þessi kaup, yrði ekkert úr fjárfestingu hans hér. 

Svipað hefur heyrst hér áður.  2007 bárust þau skilaboð frá þáverandi eiganda álversins í Straumsvík að ef ekki yrði látið að vilja þeirra um stórfellda stækkun álversins, myndu þeir leggja verksmiðjuna niður. 

Í umræðuna vantar víðari sýn í tíma og rúmi.  Góður rómur var í fyrstu gerður að því á Alþingi þegar Noregskonungur, hinn ágætasti maður, falaðist eftir Grímsey. 

Einar Þveræingur benti á að þótt konungurinn væri hinn besti maður, vissi engin hvers konar erfingjar tækju við af honum, og kynnu að koma upp slíkar aðstæður að "mörgum búandkarlinum þætti þröngt fyrir dyrum." 

Einar horfði lengra fram í tímann og það þurfum við líka að gera nú og einnig að taka þann möguleika með í reikninginn að erlendir viðsemjendur okkar geri það. 

Það er ekki aðeins að við vitum ekkert um það hverjir muni erfa landareignir, heldur vitum við líka ekkert um það hvernig þær muni ganga kaupum og sölum og hverjir myndu þá kaupa þær. 

Í umræðuna vantar líka endanlega sýn á það, hvaða hlutar Íslands geti gengið kaupum og sölum og hverjir ekki, það er, hverjir hlutar landsins eigi að vera eins og Þingvellir, "ævarandi eign íslensku þjóðarinnar sem hvorki má selja né veðsetja" eins og segir í lögum um Þingvelli frá 1928.

Ef Jökulsá á Fjöllum á að vera friðuð eins og Þingvellir þarf að gera ráð fyrir friðuðum bökkum hennar í ákveðna fjarlægð frá ánni sem væru þjóðareign, sem aldrei mætti selja né veðsetja. 

Umræðan hefur verið nokkuð ruglingsleg að þessu leyti eins og sést í tilvitnunum í ummæli Halldórs Blöndals og Ólafs Ragnars Grímssonar á sínum tíma um að Hvamm í Dölum mætti aldrei selja útlendingum. 

Hvammur í Dölum er sögustaður sem enn hefur ekki verið friðaður og gerður að þjóðareign á sama hátt og Þingvellir, hvað sem síðar kann að verða. 

Grímsstaðir á Fjöllum eru eins og sakir standa bújörð svipuð flestum bújörðum á Íslandi með manngerðum túnum, byggingum og landi, sem er illa farið vegna of mikillar búfjárbeitar. 

Jörðinni verður ekki jafnað við Herðubreiðarlindir eða Gullfoss sem eru í umræðunni, en öll  fyrirbæri hinnar einstæðu íslensku náttúru eiga að falla undir hugtakið "þjóðareign sem aldrei megi selja né veðsetja."

Raunar vil ég horfa enn lengra fram, því að við Íslendingar ættum að líta á okkur sem vörslumenn en ekki eigendur þessara náttúruverðmæta, sem eru "dýrgripur alls mannkynsins, / sem okkur er fenginn að láni"... svo ég vitni í það sem ég hef sett fram í ljóðinu "Kóróna landsins".

En það er liklega seinni tíma skref, svo skammt eru þessi mál á veg komin. 

Ekkert er óeðlilegt við þá tilhneigingu að vilja eiga húsnæði, land eða lausamuni fremur en að leigja af öðrum. En sagan sýnir að þessa tilhneigingu er oft erfitt að hemja. 

Það er áhyggjuefni hvernig heilu dalirnir og sveitirnar komast smám saman í eigu valdamikilla eða fjárstekra einstaklinga, fyrirtækja eða félaga. Ef slíkt heldur áfram, þegjandi og hljóðalaust, kann svo að fara að landsmenn sitji í lokin uppi sem leiguliðar í þjóðfélagsgerð, sem líkist þjóðfélagsgerð miðalda, þegar meira en 90% bænda voru ófrjálsir leiguliðar. 

Er þá hætt við að sú staða geti komið upp "að mörgum búandkarlinum þyki þröngt fyrir dyrum". 

 


mbl.is Lilja gagnrýnir forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

 Góð grein hjá þér Ómar og hafðu þökk fyrir hana. Það hefur stundum hvarflað að mér sú hugsun að það er komin tími á að endurhugsa hversu mikið þarf hver og einn þarf af hinum ýmsu hlutum, svo sem peningum eða eignum...

Hjólin geta ekki verið að snúa rétt þegar staðan er orðin þannig að meirihluti þjóðar er vannærður á meðan lítið brot er ofnært...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 4.9.2011 kl. 00:15

2 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

hversu mikið hver og einn þarf, á að vera afsakið.

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 4.9.2011 kl. 00:17

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk Ómar fyrir að gleyma okkur sveitamönnunum ekki.

Sigurður Haraldsson, 4.9.2011 kl. 00:36

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir þörf skrif.

Villi Asgeirsson, 4.9.2011 kl. 07:44

5 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta eru orð í tíma töluð!

Sumarliði Einar Daðason, 4.9.2011 kl. 08:21

6 identicon

Góð grein Ómar. Takk.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 4.9.2011 kl. 13:21

7 identicon

Hvernig væri að hafa, auk friðunar, takmörk á stærð lands sem hver maður má eiga, íslenskur eða útlendur, og banna alveg fyrirtækjaeign á landi, svo það verði alltaf einhver manneskja að bera ábyrgðina á því? Mér er ekkert minna illa við íslenska auðjöfra og viðskipta"snillinga" sem sjá allt í krónum og dollurum, heldur en útlenska.

Ef við ætlum að fara að banna útlendingum að eiga land, eða lögbinda frekari mismunun verðum við að fara að endurskilgreina hvað útlendingur þýðir að íslenskum lögum, því það má ekki koma í veg fyrir að öll þau sem við köllum útlendinga í dag setjist hér að og hefji sjálfsþurftarbúskap á smá landskika, ef einhverjum sýndist svo, eða að manneskja sem hefur ákveðið að eyða lífi sínu hér á landi, sökum vilja til þess eða þarfar, geti keypt sér land undir smá sumarbústað.

Af hverju gerum við ekki regluverkið þannig að ekki verði hægt að misnota kaup á landi, sama hvers þjóðernis kaupandinn kanna að vera?

Elfar (IP-tala skráð) 4.9.2011 kl. 15:19

8 identicon

Hverju orði sannara Ómar, við erum bara vörslumenn, allt annað er misskilningur manna á milli. Það er löngu byrjað aftur leiguliðaforneskjan, bara ill merkjanleg í dag, nema þeir sem sjá, heyra og vilja horfa á aðrar staðreyndir. Þetta hefur ekkert bara með þessi fyrirhuguð kaup Huang Nubo að gera, gremja hefur verið í gangi, en almenningur hefur verið bara svo værukjær, síðan er stærð inn í myndini o.m.f. Og með áframhaldandi sölu verða Íslendingar leiguliðar sem geta ekki skoðað náttúrufegurð landsins. Hvað þá túristar sem hingað koma fá að skoða Gullfors, Geysir Þingvelli og einhverja örfá staði til.

Ingolf (IP-tala skráð) 4.9.2011 kl. 16:05

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er í sjálfu sér engin þörf á því, að allar stéttir á Íslandi eigi jarðir, umfram það að eiga með öllum öðrum náttúruperlur og víðerni óbyggðanna o.fl. sem er í þjóðareign.

Margir "fluttu á mölina" af því að þeir vildu ekki lifa af landinu, heldur af iðn sinni, menntun, sjávarfangi eða öðru. Það var þeirra val og þeirra leið margra til að efnast og skapa sér ágætar lífsaðstæður í kaupstöðum landsins, og eftir á eigum við þess vegna ekki að koma aftan að bændum með því að ásælast svo líka bújarðir þeirra!

En þetta eru mjög athyglisverð orð þín, Ómar, merkilegar hliðstæður:

"Á blaðamannafundi Huang Nubo var málinu stillt þannig upp, að ef Íslendingar svo mikið sem rökræddu um þessi kaup, yrði ekkert úr fjárfestingu hans hér.

Svipað hefur heyrst hér áður. 2007 bárust þau skilaboð frá þáverandi eiganda álversins í Straumsvík að ef ekki yrði látið að vilja þeirra um stórfellda stækkun álversins, myndu þeir leggja verksmiðjuna niður."

Já, þetta eru hliðstæður, segi ég, tek undir það með þér. Látum ekki undan svona þrýstingi, hvorki auðhringa né (ef við eigum að taka Huang trúanlegan) hins nýríka manns.

Jón Valur Jensson, 4.9.2011 kl. 19:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband