Bjargar því sem bjargað verður.

Ég hef árum saman haldið því fram að tónlistarhúsið Harpa væri of stórt og dýrt og fært að því rök að hægt hefði verið að komast af með mun minna og margfalt ódýra hús, líkt og gert hefur verið í Þrándheimi, en í þeirri borg og Þrændalögum eru hvað líkastar aðstæður við það sem er í Reykjavík og á Suðvesturlandi. 

Rekstur hússins verður vandamál og betra hefði verið að eyða meira fé í sköpun og flutning tónlistar. 

En auðvitað er ekki um annað að ræða en að sætta sig við orðinn hlut og reyna að fá sem skásta niðurstöðu.  Við sitjum uppi með margt af því sem hér var gert þegar við Íslendingar fórum með himinskautum í oflæti okkar og hrokafullri græðgi og verðum að lifa með því og líta á björtu hliðarnar.

Og einn stóran ljósan blett er að finna,- glerhjúp Ólafs Elíassonar, eins af þekktustu listamönnum heimsins um þessar mundir. 

Þótt hann hafi verið dýr og viðhald hans verði það líka, auk þess sem það á eftir að koma í ljós hvernig hann þoli saltrokið íslenska og umhleypingana,  getur hann óbeint orðið nokkurra peninga virði sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem eitt af því sem ástæða sé til að sjá í Reykjavík. 

Þetta meistaraverk getur því bjargað því sem bjargað verður varðandi þetta hús. 


mbl.is Glerhjúpurinn „meistaraverk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er einmitt EKKERT réttlætanlegt við þetta mannvirki.  Réttast var að slaufa þessu um leið og kostur var.

Reyndar hefði aldrei átt að  byrja á þessari vitleysu...

Jón Ingi (IP-tala skráð) 3.9.2011 kl. 16:31

2 identicon

Ég held að þessi glæsilegi glerhjúpur  verði einn stærsti kostnaður í rekstri Hörpunnar, bæði þrif og viðhald eigi eftir að vera stór póstur í rekstri hússins. Ég held að við fáum ekkert meira af ferðamönnum út á hjúpinn, þó svo að hann sé glæsilegur. Það eru glæsilegar byggingar og tónlistahallir víða annarsstaðar og ferðamenn sem koma hingað eru ekki að koma hingað gagngert til að glápa á glerhöll Mammons.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.9.2011 kl. 16:54

3 identicon

Sæll. Flottar byggingar eru og verða alltaf umdeildar. Mikið var kvartað þegar Hallgrímskirkja var áratugi í smíðum. Næsta "stórverkefni" var Þjóðarbókhlaðan var áratug í smíðum og þótti skandall. Endaði svo með sérstökum skatti á þjóðina sem hét "Þóðarbókhlöðuskattur" Þeir sem hafa komið þar inn og þurft að nýta sér sérhæfða þjónustu þarna fatta auðveldlega þvílíkt þarfaþing þessi bygging er og öll starfsemi hennar. Þeir sem aldrei hafa komið þarna inn eru líka hættir að rífast um hana. Nú er það Harpa. Ég datt þarna inn og lenti í hópferð að skoða bygginguna. Fannst hún flott. Tapaði svo 50 þúsundum á 3 mínútum. Ég datt nefnilega inn á miðasölu Sinfóníunnar og labbaði út með miða á 14 tónleika, t.d. allar sinfóníur Beethovens, í besta sæti. Eina sem maður getur huggað sig á svona tapstundum er að vera ekki giftur, þá hefðu útgjöldin verið helmingi hærri !

Örn Johnson (IP-tala skráð) 3.9.2011 kl. 22:36

4 Smámynd: Landfari

Góður Örn :)

Landfari, 4.9.2011 kl. 00:28

5 identicon

En fyrir allt þetta fé hefði verið hægt að bæta samgöngur út á landi stórkostlega.  Frekan en að vera að fleygja almannafé í ENN EITT snobbið í RVK.

Jón Ingi (IP-tala skráð) 4.9.2011 kl. 00:29

6 identicon

Og Örn.  Þú hefðir alveg getað hlustað á allar 14 simphoníur Bethoven í ódýrara snobblausu húsnæði og notið þess jafn vel....

Jón Ingi (IP-tala skráð) 4.9.2011 kl. 00:34

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það þótti skandall hvað Þjóðarbókhlaðan var lengi í smíðum,  - ekki að hún væri reist eða að hún væri miklu stærri en þörf væri á.

Tónlistarhúsið Harpa hefði átt að reisa miklu fyrr og hafa hana minni. 

Ómar Ragnarsson, 4.9.2011 kl. 02:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband