Tognaði við að taka upp tösku.

Það er ekki nýtt að afburða íþróttamenn togni á ótrúlegan hátt. Örn Clausen, sem þrjú ár í röð var í 2-3ja sæti á heimsafrekalistanum í tugþraut, átti að keppa á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952 en varð fyrir því óhappi þegar þangað var komið, að togna illa í handlegg við það að taka upp þunga ferðatösku og sveifla henni upp í hillu.

Örn var oftar eindæma óheppinn en í þetta sinn. Þegar hann flaug ásamt gullaldarliði íslenskra frjálsíþróttamanna til Brussel 1950 notuðu hlaðmenn Flugfélags Íslands tösku hans til að halda kyrri hurð á Reykjavíkurflugvelli og hún varð eftir fyrir bragðið.

Á þessum árum var þess enginn kostur að koma töskunni í tæka tíð til Brussel og skólaus tugþrautarmaður er verr settur en nokkur annar íþróttamaður, því að nota þarf mismunandi skó í mismunandi greinum.

Hann varð því að fá lánaða misstóra skó hjá öðrum keppendum, meðal annars kastskó hjá Jóel Sigurðssyni, sem voru þremur númerum of stórir!

Þegar litið er til þess að Torfi Bryngeirsson þakkaði það forláta stökkskóm, sem hann vann í hlutkesti heima, að hann varð Evrópumeistari í langstökki, má furðu gegna að Örn var hársbreidd frá því að vinna gullið í tugþrautinni.

Örn var það góður, að ef hann hefði keppt í 110 metra grindahlaupi eða langstökki, hefði hann átt möguleika á verðlaunasætum í þessum greinum.


mbl.is Tognaði vegna flughræðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Var það óheppni að hlaðmennirnir gleymdu þessari þungu tösku 1950,

kannski frestuðu þeir tognun í handlegg um 2 ár?

Aðalsteinn Agnarsson, 5.9.2011 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband