8.9.2011 | 00:19
Sauðárflugvöllur opinn og hlýindi eftir helgina.
Veturinn er ekki skollinn á þótt kólni í nokkra daga. Spáð er hlýindum eftir helgina og upp undir 13-15 stiga hita.
Ég var um daginn búinn að lofa á facebook myndum og frásögn af dvöl minni á Brúaröræfum í þrjá daga þegar hlýjast var á dögunum og upplagt að vinna við Sauðárflugvöll og njóta um leið öræfakyrrðar og dýrðar.
Það tekur nokkra stund að setja hverja mynd inn þannig að þær rjátlast svona inn ein og ein.
Rétt er að benda á að hægt er að stækka hverja og eina með því að tvísmella á hana.
Ég reyni ávallt að fylgjast með veðrinu þar, þótt ég sé fjarri, og enda þótt oft snjói býsna mikið nær ströndinni er svæðið fyrir norðaustan Vatnajökul úrkomuminnsta svæði á landinu og völlurinn furðu mikið opinn, jafnvel um vetur.
Mér sýnist á gögnum frá veðurstöðinni við Kárahnjúka og af fenginni reynslu að hann verði opinn alla daga svo langt sem séð verður.
Jökuldælingar smala þarna ekki fyrr en í októberbyrjun að jafnaði og það sýnir hve lengi jörð er yfirleitt auð.
Völlurinn er því yfirleitt opinn samfleytt vel fram í nóvember og hefur alltaf opnast í júníbyrjun, jafnvel þótt ófært sé allt í kringum hann vel frameftir mánuðinum.
Í ferð minni um daginn var verkefnið að valta völlinn með litlum valtara og helst að fara tvisvar yfir hann allan.
Þetta er dálítið verk því brautirnar fjórar eru alls 3,7 kílómetrar að lengd og tvær þær lengstu 30 metra breiðar, önnur 1320 metra löng og hin 990 metra löng.
Hinar tvær eru 800 metra langar hvor og 20 metra breiðar.
Það hefur verið og er þolinmæðis- og langtímaverk að merkja brautirnar vel, tína úr þeim grjót og valta, því að merkingarnar við brautirnar eru alls um 500.
Stefán Scheving á Egilsstöðum útvegaði litla valtarann, sem er þarna og kom honum upp eftir.
Hjá Flugmálastjórn fékk ég samanbrjótanlega stöng og vindpoka, sem ég flaug austur frá Reykjavík og setti upp, svona til að sýna hvernig Þjóðverjar hefðu getað gert þarna ýmislegt 1940, sjá nánar hér fyrir neðan.
Á annarri yfirlitsmyndinni er horft yfir þetta náttúrugerða flugvallarstæði til suðvesturs í átt að Kverkfjöllum, en á hinni til norðausturs í átt að Kárahnjúkum. Þangað er 18 kílómetra akstur eftir merktum vegaslóðum.
Útsýnið frá suðurenda flugvallarstæðisins er fagurt með Sauðá í forgrunni og Kverkfjöll og Brúarjökul í baksýn.
Í lýsingu vallarins í AIP-handbók Flugmálastjórnar er tilgreint að merking á lengstu braut vallarins sé rauðmálaðir markar úr eftirgefanlegu efni, en aðrar brautir merktar með litlum, hvítum steinum eins og allar brautirnar voru merktar í upphafi.
En það er hægara sagt en gert að útvega nægilega stóra 50 rauða marka á stærstu brautina og koma þeim tryggilega fyrir og ekki heldur hlaupið að því að finna efni í þá.
Árni Johnsen var mér innan handar í fyrra við að fá körfur úr plasti og lóðabelgi í Grindavík, sem ég sótti á gömlum frambyggðum Rússajeppa og ók alla austur og upp á flugvöllinn.
Rússann skildi ég eftir og sótti hann síðar í sérstakri ferð með Helgu minni.
Í törninni um daginn fór ég í það að grafa markana niður eins og sjá má.
Ég setti sand í botninn á plastkörfunum til þess að klessa þeim niður og stakk gat á lóðabelgina og braut þá saman og gróf þá hæfilega mikið niður til þess að þeir fjúki ekki en standi samt nógu hátt upp úr.
Hvítu steinamerkingunum held ég áfram á milli rauðu markanna.
Næsta sumar er ætlunin að klára að merkja stærstu brautina að fullu auk frekari endurbóta.
Sauðárflugvöllur hefur einkennisstafina SA eftir alþjóðlegu kerfi. Einkennisstafir Íslands eru BI.
Þannig hefur Reykjavíkurflugvöllur einkennisstafina BIRK og Akureyrarflugvöllur BIAR.
Ég málaði í lokin einkennisstafi Sauðárflugvallar á "flugstöðina", gamla Econoline forn-húsbílinn, sem þjónar sem skýli við 5000 fermetra flughlað á brautarmótum.
Líta má á bílinn sem neyðarskýli með aðstöðu til upphitunar og suðu á mat.
Á flugvöllum Flugmálastjórnar eru þríhyrnd hvít pýramídalöguð gluggalaus hús með einum dyrum. Á þau eru málaðir tveir einkennisstafir viðkomandi valla, til dæmis HE á húsinu við flugvöllinn í Herðubreiðarlindum.
Þessir pýramídar eru hafði skjannahvítir og stafirnir stórir til þess að flugmenn eigi auðveldara með því að sjá flugvellina og þekkja þá úr lofti.
Ég gat ekki á mér setið að setja alla einkennisstafiina fjóra, "BISA", á þá hlið "flugstöðvarinnar"sem snýr að innkeyrslunni á flugvöllinn úr vestri, en hin gamla merkta Brúardalaleið liggur einmitt um eina flugbrautina. Orðið "BISA" á nefnilega vel við um það sem ég hef verið að bardúsa þarna síðastliðin átta ár.
Ég skilgreini mig sem "flugvallarbónda" þarna á öræfunum og næsti nágranni minn er Völundur Jóhannesson, 75 ára gamall eldhugi á Egilsstöðum, sem dvelur í tómstundum sínum að sumarlagi í 15 kílómetra fjarlægð fyrir vestan Sauðárflugvöll í húsi sínu í Grágæsadal og stundar þar einstakt ræktunarstarf.
Völundur kom í heimsókn tvívegis meðan ég var þarna um daginn, í síðara skiptið til að hjálpa mér við að koma flugvallarbílnum mínum í gang, en startarinn bilaði í honum.
Í fyrra skiptið kom hann þegar ég var ekki viðlátinn, og var svo elskulegur að setja niður blóm úr garði sínum í Grágæsadal rétt hjá flugvélinni, sem ég var á með þeim fyrirmælum að ég skyldi taka þau með mér suður og færa Helgu minni þau. Var ekki einhvern tíma sagt: "Segðu það með blómum"?
Sauðárflugvöllur er skilgeindur sem "einkavöllur" hjá Flugmálastjórn.
Það þýðir að umsjónarmaður hans og ábyrgðarmaður sér einn og óstuddur um að halda honum við og tryggja að hægt sé að nota hann vel og örugglega.
Ég hugsa hann hins vegar ekki sem "einkavöll" hvað snertir það að taka þar lendingargjöld eða hafa hann lokaðan fyrir aðra en mig, heldur sem nauðsynlegan öryggisflugvöll á norðurhálendinu og eina viðurkennda flugvöllinn á hálendi Íslands, sem allar flugvélar í innanlandsflugi, allt upp í Fokker F50, geti lent á.
Fyrir nokkrum árum stöðvuðust hreyflar Fokker F50 á þessum slóðum á leið vélarinnar til Egilsstaða.
Farþegunum var tilkynnt að þeir skyldu vera viðbúnir því að nauðlent yrði inni á öræfunum. Sem betur fór var hægt að halda öðrum hreyflinum í gangi en slökkva á hinum og lenda síðan á einum hreyfli á Egilsstaðaflugvelli.
Eftir þennan atburð styrktist ég í þeirri ætlan minni að gera nothæfan og viðurkenndan flugvöll á eina staðnum á Íslandi, sem fékk örnefnið "flugvöllur" hjá heimamönnum strax fyrir rúmum 70 árum.
Það var vegna þess að þar fundust við smölun hlaðnar vörður sem talið var að annað hvort Agnar Koefoed-Hansen eða þýski jarðfræðiprófessorinn Emmy Todtmann hefðu hlaðið, og þá hugsanlega með not Þjóðverja að honum í huga.
Í tengslum við það og notkun og viðhald flugvallarins hef ég verið að vinna við kvikmynd, sem bera á nafnið "Brúarjökull og innrásirnar í Ísland" og fjallar um þau áhrif sem þetta flugvallarstæði hefði getað haft fyrir innrás Þjóðverja í Ísland 1940, en forsenda hennar var að þeir hefðu frá upphafi yfirráð í lofti yfir landinu.
Nánar má sjá um það og fleira varðandi völlinn með því að nota leitarorðið Sauðárflugvöllur eða önnur orð tengd þessu í leitarreitnum til vinstri hér á síðunni.
Tæknilega á að vera mögulegt að koma þar fyrir einföldum ljósabúnaði, sem flugmaður gæti kveikt á með því að senda út á talstöð vélarinnar, og með GPS-tækni á að vera auðvelt að finna völlinn.
Aðflug að vellinum hefur verið mælt með mælitækjum fulltrúa Flugmálastjórnar og gert hefur verið aðflug að honum úr norðri á Fokker F50 og úr suðri á Boeing 757!
Lockheed Hercules C-130 og C-17 Globemaster risaflutningaþotan gætu lent þar!
En í bili er það meira en nóg fyrir mig að standa straum af viðhaldi og endurbótum á flugvellinum án nokkurs styrks, einkum vegna fjarlægðar hans frá Reykjavík.
Ég hef að hluta til gert það vegna gerðar heimildarmyndarinnar um það hvernig hann hefði getað haft áhrif á gang seinni heimsstyrjaldaiinnar.
En ef einhver aðili getur tekið þátt í þessum flugvallarbúskap og tilheyrandi kvikmyndagerð með mér væri það vel þegið.
Í þessum pistli kemur ýmislegt fram sem komið hefur fram áður hjá mér um flugvöllinn, en þetta er svona nýjasta skýrsla og yfirlit um stöðuna þarna í dag.
Biðst að lokum velvirðingar á tvítekningu mynda vegna tæknibasls.
Snjókoma í Mývatnssveit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.