Þurfa að breyta gamalgrónum hugsunarhætti.

Rússneskt flug og rússnesk tæknu eriu full af mótsögnum. Á stríðsárunum framleiddu þeir liprustu orrustuflugvélina í stríðinu, Yak 3, en þýskum flugmönnum var ráðlagt að forða sér frekar en að leggja til atlögu við hana,ef þeir sæu hana.

Stríðið unnu Rússar með magni frekar en gæðum, yfirburða mannafla og framleiðslugetu og einnig því að hafa vopnabúnað sinn einfaldan þannig að hægt væri að halda honum við úti á víðavangi. 

Í Kóreustríðinu fengu Bandaríkjamenn áfall þegar í ljós kom að MIG-15 orrustuþota Rússa var svo lipur, að hún gat flogið í hringi í kringum bandarísku þoturnar. 

En þetta byggðist á því í meginatriðum, að bandarísku þoturnar voru þyngdar með mun meiri öryggisvörnum fyrir flugmennina en voru í þeirri rússnesku. 

Talið er að miklu betri þjálfun bandarísku flugmannanna hafi ráðið úrslitum um það að Rússarnir gátu ekki notfært sér lipurð sinnar þotu. 

Æ síðan hefur rússnesk hönnun flugvéla og hreyfla verið afar góð í frumatriðum en hins vegar hefur skort á að fínpússa hlutina og tryggja endingu véla og hreyfla. 

Ég átti þess kost að kynnast svolítið rússneskum farþega- og flutningaþotum á flugsýningum í París á sínum tíma og voru þær afar athyglisverðar. Einnig flutti einn af innstu koppum í búri Cargolux fyrirlestur hér á landi fyrir nokkrum árum þar sem hann upplýsti að Antonov-flutningaþoturnar væru miklu ódýrari í innkaupi en samsvarandi vestrænar þotur. 

Hins vegar væru þær svo grófgerðar og hreyflarnir svo endingarlitlir að þegar allt var reiknað með, tafir, viðhald, endurnýjun o. s. frv. varð útkoman neikvæð.

Rússar reynsluflugu Tu-144 hljóðfráu þotu sinni ("Concordski) á undan reynsluflugi Concordeþotu Frakka og Breta en síðan fórst rússneska þotan á flugsýningu í París og hún var aldrei framleidd. 

Að lokum fór þó svo að eftir að Concordeþota fórst 35 árum síðar gáfust menn upp á að framleiða hana. 

Hér á landi eru nokkrar rússneskar flugvélar knúnar afar kraftmiklum og furðu léttum stjörnuhreyflum, sem hafa reynst vel og hönnun listflugvélanna afbragð og mikil sigurganga að baki í keppni í listflugi. img_0908.jpg

Hins vegar eru ending, fínstilling og sparneytni ekki eins og á bandarískum og kanadískum hreyflum.

Ég á fjóra rússneska jeppa, þar af tvo Lada Niva (Lada sport á Íslandi) jeppa sem eru frábærlega hannaðir og voru aldarfjórðungi á undan samtíð sinni í því. En kramið er allt svo grófgert og endingarlítið, miðað við það besta sem nú þekkist, að bílarnir líða fyrir það. 

Þar að auki eru hráefnin og frágangurinn oft þannig að ekki er viðunandi. 

Rússajeppinn, eins og GAZ jeppinn var kallaður á sínum tíma, og stendur þarna fyrir aftan Löduna við Mývatn, var að mínum dómi best hannaði jeppi heims þegar hann kom fram. Enda brilleraði hann við íslenskar  aðstæður. En vélin var handónýt og drifin veik.  

Það er rétt hjá Medvedev að Rússar verða að ráðast gegn þeim hugsunarhætti, sem ég hef verið að lýsa hér að framan.   

 


mbl.is Rússar þurfa að nútímavæða flugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sem áhugamaður um flug og vélmenningarnörd almennt, verð ég að leggja orð í belg.

Grundvallarfílósófía Kanans varðandi hönnun orrustuflugvéla var og er afl, brynvörn og flugþþol. Þessi fílósofía trompaði alla aðra hönnunarfílósofíu í seinni heimstyrjöldinni og gerir enn.

Zero, sem hafði enga brynvörn, og MIG gátu beygt krappar en vélar Kanans, en þær voru alltaf í vörn.  Margar Messerschmitt flugvélar voru skotnar niður á leið til lendingar eftir að verða uppiskroppa með eldsneyti, en þær gátu verið uppi kannski 45 mínútur.

P51 Mustang með Rolls Royce Merlin mótor gat flogið fram og til baka til Berlín frá Englandi og "doggfætað" alla leiðina. Ég ýki.

http://www.history.com/shows/dogfights/videos#p-51-mustang-redefines-combat-fighting

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.9.2011 kl. 14:38

2 identicon

Þegar menn bera saman MiG-15 og F-86 má ekki gleyma gríðarlega frábrugðnum vopnabúnaði þeirra, sem einnig má rekja til áhrifa Seinni Heimsstyrjaldar á hernaðarfræði ríkjanna tveggja. MiG-15 bar tvær 23mm fallbyssur og eina 37m en F-86 6 12,7mm vélbyssur. Skot úr þessum vopnum hafa mjög mismunandi skotferla. Fallbyssukúlurnar fara hægar og falla hraðar á meðan vélbyssukúlurnar hafa mun beinni skotferil.

12,7mm vélbyssukúlur eru nægilega hættulegar óvörðum afturenda þotuhreyfla að ekki þurfa margar þeirra að hitta þar til að hann gefur sig, en allt annað mál er með stórar sprengjuflugvélar eins og B-29.

Hálfgert sjálfsmorð væri að ráðast með vélbyssum einum gegn flota slíkra sprengjuvéla, sem skipulagðir voru eftir stærðfræðiformúlum til þess að hámarka varnarmátt þeirra gegn orrustuflugvélum. Til þess að skaða slíkar sprengjuflugvélar með 12,7mm byssum þyrftu flugmennirnir að fljúga mun hægar og halda stefnu sinni í mun lengri tíma til halda sér í réttu skotfæri og gæfu þar mun meira færi á því að láta skjóta sig niður. Hinsvegar þurfti ekki mikið meira en eina 37mm fallbyssukúlu til að taka út eina B29.

Af því leiðir að F-86 var mun betri orrustuflugvél gegn öðrum orrustuflugvélum en MiG-15, en vart nothæf gegn stórum sprengjuflugvélum, sem kommúnistaríkin beittu ekki í Kóreustríðinu.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 8.9.2011 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband