9.9.2011 | 19:24
"Jarðvegur" er margvíslegur.
Það er ekki nákvæmt orðalag að segja að "jarðvegur" fjúki nú burt frá landinu. Í umræðum um gróðurfar er orðin "jarðvegur" og "jarðvegseyðing" yfirleitt notuð sem samheiti yfir gróður og mold þegar rætt er um tjón af völdum eyðingar lands, sem verður gróðursnautt á eftir.
Eyðing á frjóum jarðvegi er mun alvarlegra mál en eyðing gróðursins sjálfs, því að fari allur frjór jarðvegur ofan af sandi, möl eða urð, verður margfalt erfiðara að endurheimta gróður en þegar einhver jarðvegur verður eftir.
Sem betur fer er askan, sem nú fýkur af öskufallssvæðunum frá gosunum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum, ekki þess eðlis að söknuður sé af því að hún fjúki á haf út, heldur að miklu leyti landhreinsun af því að losna við öskuna þar sem hún þakti gróður.
Síðan er ekki hægt að alhæfa um áhrif öskunnar, því að þar sem hún sekkur ofan í jarðveginn, virðist gróskan oft aukast á eftir.
Öðru máli gegnir um uppblásturssvæði á Kili og sunnan Langjökuls. Mestur hluti sandmisturs sem kemur frá svæðinu sunnan Langjökuls kemur frá leirum við Hagavatn, en hins vegar er enn alvarleg eyðing á gróðri, mold og frjóum jarðvegi á sunnanverðum Kili og víðar á afréttum Sunnlendinga.
Landið fýkur burt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.