Blóðug utanríkisstefna.

Þegar ég var rúmlega tvítugur háskólanemi kom þáverandi utanríkisráðherra, Emil Jónsson, eitt sinn til okkar og hélt tölu um utanríkisstefnu Íslands.

Okkur ungu mönnum var heitt í hamsi út af mörgum atriðum í utanríkisstefnu Íslands og annarra þjóða og var baunað hart á Emil. 

Hann tók þessu af stóiskri ró og kvaðst vera kominn með ansi þykkan skráp eftir langan stjórnmálaferil. 

Sagði síðan sem svo að því miður væri það blekking þegar talað væri um að utanríkisstefna þjóða byggðist í raun á sanngirni og tærum hugsjónum og því að vera samkvæm sjálfri sér, þótt það væri látið í veðri vaka. 

Í raun væri niðurstaðan yfirleitt sú að utanríkisstefna hverrar þjóðar væri þröng hagsmunagæsla fyrir hana sjálfa eða ráðamenn hennar á hverjum tíma. 

Mér hefur oft síðan orðið hugsað til þessarar nöturlegu lýsingar Emils þegar hún hefur æ ofan í æ reynst rétt.  Og þegar stórveldi hafa átt í hlut hefur stefnan oft verið harðari og miskunnarlausari vegna þess að ráðamenn réttlæta hana með því að þeir þurfi að verja hagsmuni svo margra milljóna eða hundruða milljóna manna. 

Nefna má mýmörg dæmi en þessi koma í fljótu bragði upp í hugann: 

Bresk utanríkisstefna var öldum saman sú að koma í veg fyrir að nokkurt stórveldi yrði of sterkt á meginlandinu. Þess vegna voru þeir óvinir Frakka öldum saman meðan Frakkar voru öflugasta stórveldið á meginlandinu, og í bandlagi við hinar og þessar þjóðir, svo sem í orrustunni í Waterloo. 

Þegar Þjóðverjar sameinuðust í eitt ríki og urðu fjölmennasta og öflugasta ríkið á meginlandinu sneru Bretar við blaðinu og gerðu bandalag við fyrri erkifjendurna Frakka gegn Þjóðverjum og Austurríkismönnum í Fyrri heimsstyrjöldinni og síðan aftur í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Churchill úthúðaði Stalín og kommúnistum manna mest á fjórða áratugnum, en þegar Hitler réðist inn í Sovétríkin sneri Churchill blaðinu snarlega við, hét Stalin umsvifalaust stuðningi og tryggð af slíkri einurð að dráp hins kommúniska harðstjóra á milljónum manna heyrðust ekki framar nefnd. 

Þegar hann var spurður um það hvernig þetta mætti verða var svarið einfalt: "Ef Hitler réðist inn í helvíti myndi ég ekki hika við að styðja myrkrahöfðingjann og gæti áreiðanlega sagt einhver falleg orð um hann í Neðri málstofunni."

Flestar þjóðir leika tveimur skjöldum þegar utanríkisstefna er annars vegar og stórveldin eru stórtækust, enda mest í húfi fyrir þau, einkum ef þau þurfa að verja heimsveldishagsmuni. 

Það sem er verst við þetta er að valdamenn þeirra reyna að klæða utanríkisstefnuna í búning fagurra og göfugra hugsjóna. 

Hjá Stalín var viðkvæðið að rétta hlut öreiganna og þeirra sem minnst máttu og frelsa þá frá kúgun og ofríki auðvaldsins.  Í framkvæmd leiddi þetta til dauða tugmilljóna manna og hins versta einræðis og kúgunar, ekki aðeins í heimalandinu, heldur einnig í leppríkjum Sovétríkjanna og kommúnistaríkjum í öðrum heimsálfum.

Bandaríkjamenn mega eiga það að þeir björguðu Evrópu tvívegis frá því að lenda undir járnhæl þýskrar heimsveldisstefnu og í síðara skiptið var um að ræða að bjarga heiminum frá stórbrotnustu villimennsku allra tíma.

Þau viðmið sem Roosevelt forseti þeirra setti fram í ársbyrjun 1941 sem alþjóðlegt takmark í mannréttindamálum, voru dýrmæti fyrir alla mannréttindabaráttu síðan þá. 

En í bæði skiptin dröttuðust Kanarnir þó ekki til þess að skerast í leikinn í Evrópu fyrr en beinharðir peningalegir hagsmunir þeirra voru í veð.

Eftir stríð hafa þeir í orði talið sig vera brjóstvörn frelsis og mannréttinda í heiminum en samt hvað eftir annað stutt grimmar einræðisstjórnir leynt og ljóst, eins og valdaránið í Chile hér um árið var einna gleggsta dæmið um.  

Ferlll nýlenduveldanna víða um álfur var blóði drifinn og skipti ekki miklu máli hvort um var að ræða hernaðarsinnaða alræðisstjórn Japana eða nýlendukúgun vestrænna lýðræðisþjóða. 

Skilgreining Emils Jónssonar, eins hispurslaus og nöturleg og hún birtist ungum hugsjónamönnum í Háskólanum fyrir hálfri öld, var því miður að mestu leyti rétt. 


mbl.is Fyrri 11. september og síðari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Ertu með þessu að taka undr með meginþorra þjóðarinnar er segir að Jóhanna hugsi ekkert um þjóðina, aðeins um sig og sína nánustu, spilltu elítu?

Óskar Guðmundsson, 10.9.2011 kl. 18:12

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Pistill minn fjallar eingöngu almennt um eðli og framkvæmd utanríkisstefnu þjóða.

Ómar Ragnarsson, 11.9.2011 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband