Búið að ákveða og ekki hlustað á neitt annað.

Það eru til fleiri en ein leið til að gera góða leið milli Þorskafjarðar og Kollafjarðar en að rista stærsta birkiskóg Vestfjarða eftir endilöngu með plássfrekum trukkaveg. Skógurinn er ekki bara djásn Vestfjarða, - hann stendur við Breiðafjörð og er því hluti af merkilegri náttúru hans.

Ég hef skoðað Teigskóg bæði gangandi og margsinnis fljúgandi og hef tekið af honum kvikmyndir, sem aldrei sjást í fjölmiðlum. Þeirra er ekki óskað, heldur er sagt að af því að enginn komi þangað og enginn þekki skóginn sé hann einskis virði og sjálfsagt að rústa honum.

Það sem gerir hann svo heillandi, er að hann nær víðast hvar ekki niður í fjöru, heldur gengur maður meðfram honum og nýtur fjölbreytilegs landslags, gróðurlendis, skerja, klappa og votlendis í bland.

Af því að þessi stórkostlega paradís sem skógurinn er, er langur og mjór og fyrirhugað vegarstæði fer eftir honum endilöngum, og einnig af því krafan er um hraðbraut með 90 kílómetra hámarkshraða og ekkert minna, veldur slík framkvæmd stórfelldum spjöllum á þessum magnaða skógi og landslagi hans, þar sem örninn hefur verið konungur hingað til.

Það var ógleymanlegt á sínum tíma þegar örninn hóf sig til flugs af hreiðri sínu með risavöxnum vængjum sínum og sveimaði yfir mig til þess að forvitnast um þennan gest í ríki hans.

Þeir sem hafa bent á aðrar leiðir fá það framan í sig að "standa í vegi fyrir vegabótum og byggð á Vestfjörðum" þegar alveg eins má benda á það að stífni þeirra, sem ekkert mega heyra nefnt en lemstrun Teigskógar, hefur haldið þessu máli í hnappheldu.

Þegar talað er um "láglendisleið" er gefið í skyn að eina mögulega slík leið sé að fara um Teigskóg.

Ódrjúgsháls liggur í 160 metra hæð yfir sjó, en slík hæð er litllu meiri en Breiðholtsins í Reykjavík og engan veginn hægt að tala um 160 metra hæð sem "hálendi".

Talað er um Ódrjúgsháls sem "einn erfiðasta og hættulegasta fjallveg landsins", en þá er miðað við veginn eins og hann er með sinni snarbröttu krókabrekku Djúpafjarðarmegin en ekki við nýjan nútímaveg.

Aldrei eru nefndar tölur um það hve oft þessi "einn erfiðasti og hættulegasti fjallvegur landsins" er ófær.

En síðan er alveg litið framhjá þeim möguleika að gera jarðgöng undir Hjallaháls og leggja veginn síðan framhjá Ódrjúgshálsi og yfir Gufufjörð.

Báðar þessar leiðir, sem hér hafa verið nefndar, eru "láglendisleiðir" ekkert síður en Teigskógsleiðin.

Nei, menn eru búnir að bíta það í sig að ekkert annað komi til greina nema vegur um Teigskóg.

Þetta er býsna þekkt fyrirbæri hér á landi.

Menn bitu það líka fast í sig þegar sagt var að 99,9% öruggt væri að olíuhreinsstöð ætti að rísa í Hvestudal við Arnarfjörð til að "bjarga Vestfjörðum". 

Ég hef ekki enn heyrt neitt um að það hafi breyst, og má væntanlega fá að heyra það áfram að vera "óvinur Vestfjarða" af því að ég hef efast um fyrirætlanirnar um að reisa oliuhreinsistöð á einum af fegurstu og merkustu stöðum á Vestfjörðum á sama tíma og engin slík stöð hefur verið reist á Vesturlöndum í tuttugu ár, vegna þess að enginn vill hafa slik ófögnuð hjá sér.

Í dag fór ég um fyrirhugaðar virkjanaslóðir í Norðurþingi, en þar hanga menn ennþá eins og hundar á roði á álveri á Bakka og þeir, sem benda á aðra og skaplegri kosti eru "óvinir Norðausturlands", "á móti framförum" og "á móti rafmagni."

Ég heyrði í fréttum Sjónvarpsins í kvöld að "íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hefðu sýnt hug sinn í verki með því að ganga af fundi" Ögmundar.

Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að allir fundarmenn hafi farið út, en af frétt mbl.is má ráða að um 100 manns hafi verið áfram á fundinum.

 


mbl.is Hefði viljað heyra fleiri sjónarmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekkert við þetta að bæta, nema ég heyri ekki lengur rætt um virkjunar/brúar leiðina fyrir útopnaðan Þorskafjörð?

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 21:22

2 identicon

Ómar:

"Ég hef skoðað Teigskóg bæði gangandi og margsinnis fljúgandi og hef tekið af honum kvikmyndir, sem aldrei sjást í fjölmiðlum. Þeirra er ekki óskað, heldur er sagt að af því að enginn komi þangað og enginn þekki skóginn sé hann einskis virði og sjálfsagt að rústa honum."

Smelltu myndefninu á YOUTUBE og settu hlekk við. Það er ekki hægt að kæfa svona myndefni með hunsuninni einni.

YOUTUBE er stærri "fjölmiðill" en nokkur hér á landi,

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 21:33

3 identicon

Ómar.

Þetta er góð ábending hjá Jóni Loga.

Þúsundir Íslendinga horfa á Youtube á hverjum degi, og margir ná þar ótrúlegu áhorfi með eigið efni.

Þú átt mikið af áhugaverðu efni sem nánst er skylda að koma á framfæri hvort sem það er fullunnið eða ekki. Algengt er að birta "trailer" (forsýningu efnis) sem nýst getur til að fá fjármagn til söluvænnar útgáfu.

Svo langar mig að benda á áhugaverða tilraun hjá Aljazeera

http://aljazeera.com/programmes/activate/

Kannski er kominn tími á óháð Íslenskt vefsjónvarp fyrir "óvinsæl" sjónarmið ?

Jóhann F. Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 22:44

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

En síðan er alveg litið framhjá þeim möguleika að gera jarðgöng undir Hjallaháls og leggja veginn síðan framhjá Ódrjúgshálsi og yfir Gufufjörð.

Báðar þessar leiðir, sem hér hafa verið nefndar, eru "láglendisleiðir" ekkert síður en Teigskógsleiðin!!!!.//// Ómar ef þetta er fær leið hvað mælir þá móti henni,ég bara spyr!!!!

Haraldur Haraldsson, 20.9.2011 kl. 23:25

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er rétt hjá þér Ómar að fleiri láglendisleiðir eru til en gegnum Teigsskóg.

Það er hins vegar kolrangt hjá þér að sú leið sé sú eina sem íbúar á sunnan verðum Vestfjörðum vilja. Þar ert þú að fara með fleipur.

Íbúar þessa svæðis vilja láglendisveg, ekkert annað! Það er hins vegar Vegagerðin sem hefur sett dæmið upp með þeim hætti að Teigskógaleiðin sé eina sem getur uppfyllt þá kröfu, væntanlega vegna kostnaðar.

Göng undir Hjallaháls og ný leið yfir Ódrjúgsháls er einskonar láglendisvegur. Reyndar er varla hægt að segja svo, en sú leið er kostnaðarsöm og skeringar sem gera þarf yfir hálsinn munu valda miklu raski og sjónmengun.

Ég ætla að vona að rök þín um að Ódrjúgsháls sé lítið hærri en Briðholtið, sé skrifuð í hita leiksins. Þú veist manna best mun á snjóalögum um landið og að Vestfirðir eru mun snjóþyngri en suð-vestur hornið. Þar að auki eru tæki og tól til snjóruðnings margfallt fleiri í Reykjavík en Barðastrandasýslu, en eiga þó oft í erfiðleikum með að halda götum opnum þar.

Því verðir að finna leið framhjá þessum hálsi svo hægt sé að kalla þetta láglendisleið.

Önnur láglendisleið er einnig til, en það er þverun Þorskafjarðarins milli Reykjaness og Skálaness. Sú leið er einnig mjög kostnaðarsöm.

Mannslíf eru mikilvæg, sumum þykir skógur vera það líka og ekki ætla ég að geera lítið úr því. Spurningin er kannski hverju virði mannslífið er og hverju virði er að halda byggð á sunnanverðum Vestfjörðum.

Er réttlætanlegt að fórna skógi til þess, skógi sem á mikla sérstöðu?

Er réttlætanlegt að kosta til miklum fjárhæðum til þess og vernda skóginn um leið?

Eða er kannski best að flytja íbúa svæðisins í burtu?

Gunnar Heiðarsson, 21.9.2011 kl. 08:01

6 Smámynd: Pálmi Pálmason

Ómar, þetta er neðan við virðingu þína að gera samanburð á Breiðholtinu og Ódrjúgshálsi, þ.e. hvoru tveggja séu um 160 m. yfir sjávarmáli og því samgöngur sambærilegar.  Ég tek eftir líka í texta þínum að þetta verður ekki vegur heldur trukkavegur, vissulega munu flutningabílar fara eftir veginum íbúum og fyrirtækjum svæðisins til mikillar hagræðingar, tímalega og fjárhagslega. En þú vilt ekki skemma neitt komandi kynslóðum til framdráttar, skrifast: skítt með ykkur sem búið þarna núna.

 En svona málflutningur hefur þjónað þér og þínum líkum, þú lofaðir vestfirðingum á sínum tíma, ef vestfirðir yrðu algjörlega "hreinir" af allri mengandi starfsemi (ekki síst að hætta við hugmynd um að reisa olíuhreinsunarstöð),gætir þú tryggt 400 störf fyrir vestfirði.  Áður en Halldór lét af starfi bæjarstjóra á Ísafirði var hann spurður hvað mörg störf hefðu komið á svæðið í gegnum Ómar Ragnarsson og hans hugsjónasamstarfsmenn, svarið var: EKKI EITT! Og hvað eru mörg ár síðan þú sagðir þetta Ómar??

Varðandi álver á Bakka, þá væri gaman að þú upplýstir okkur með myndum af Gjástykki/Þeistareykjum/Bjarnarflagi, hvernig það lítur út og sýndir okkur þau borstæði sem þegar eru á svæðinu, og tækir þetta á breiðlinsu en ekki "áróðursmynd". Það væri jafnframt gaman ef þú segðir okkur hver fjöldinn er sem fer um svæðið á ári, því það er teljari þarna.  Segðu okkur jafnframt hve margir af þeim eru heimamenn/veiðimenn, því það get ég sagt þér að þetta eru veiðislóðir. 

Þetta er ljótur leikur sem þú stundar gagnvart FÓLKI á landsbyggðinni, því þegar upp er staðið hefur þessi barátta landsbyggðarfólks snúist um afkomu þess Á HEIMASLÓÐUM.  Það er "ódýrt" fyrir þig að mæta á svæðið á tyllidögum og tjá þig af ofstæki um verndun náttúrunnar.  Með allri virðingu fyrir skoðunum þínum og þekkingu á Íslandi, þá fullyrði ég að heimafólk þekkir þessa hluti betur en þú og 101 Reykjavík.

Fólk á landsbyggðinni hefur verið í stöðugri vörn gagnvart Reykjavíkurvaldinu, það reynir að byggja upp lífsafkomu sína, það reynir að verja verðmæti eigna sinna. Hver eru ummæli þín um þetta fólk "það hangir eins og hundar á roði" "menn vilja lemstra Teigskóg" stífni-þvermóðska-heimska-skilningsleysi, þetta eru meginhugmyndir þínar um fólk um landið sem er eingöngu að hugsa um afkomu sína og barnanna sinna, hafðu skömm fyrir!

Ekki hef ég heyrt að þú sért nefndur "óvinur norðausturlands" þú sért " á móti framförum" eða þú sért á "móti rafmagni" en ég fullyrði að þú beitir blekkingum í málflutningi þínum til þess að ná þínu fram þ.e. þú segir gjarnan hálfa söguna og að sjálfsögðu það sem þjónar hagsmunum þínum en það eru engar málsbætur fyrir þig. 

Pálmi Pálmason, 21.9.2011 kl. 09:07

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, það er eiginlega ótrúlegt að Ómar Ragnarsson skuli bera saman Ódrjúgsháls á Vestfjörðum (160m.) og Breiðholtið í Reykjavík (110m.) Ómar, af öllum mönnum!

Þegar vegurinn um Hólmaháls, milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar var lagfærður árið 2010 var hann færður utar á Hólmanesið og við það lækkaði vegurinn úr ca. 160m. niður í um 70m. hæð. Á gamla veginum var mjög oft hálka þegar komið var upp fyrir 100 metrana, þó hvergi væri hált á "láglendi".

Ómar vill ekki raska "einstökum og ómetanlegum" Teigsskógi, en honum finnst allt í lagi að umturna öllu með heilsársvegi yfir Öxi, milli Berufjarðar og Héraðs. Sú röskun mun ekki lækka þann fjallveg, hann heldur áfram að vera í yfir 500m. hæð.

Vissulega mætti lagfæra veginn eitthvað þarna yfir, en að gera þarna heilsársveg, með þeim stöðlum og Evrópukröfum sem við undirgengumst með EES, er svo vitlaust, að það er beinlínis hlæjilegt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.9.2011 kl. 09:38

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er eins og að sumt fólk átti sig ekki á því að hagkvæmar vegabætur eru fjárfesting, en ekki eyðslubruðl. Stytting leiða og færsla þeirra á láglendi er "sparnaður" en ekki eyðsla.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.9.2011 kl. 09:45

9 identicon

Almennt finnst mér Vegagerðin vinna vel þó Teigsskógarvegurinn sé slæm lausn sem þeir voru gerðir afturreka með.

Samgöngur við suðurfirðina standa ekki og falla með eyðileggingu Teigsskógar. Hér er það heildarpakkinn sem skiptir máli, þe hversu greiðfær og örugg leiðin í heild sinni verður.

Málflutningur Ögmnundar var hinsvegar götóttur, -bráðabirgðafjallvegur og göng, kanski, seinna, er óráðshjal.

Sjálfur er ég landsbyggðarmaður sem bjó um tíma í yfir 100 metra hæð í Vatnsendahæðinni í ágætis loftslagi.

Aldrei hef ég staðið Ómar af því að ráðast á landsbyggðina og landsbyggðarmenn.

Mér er hinsvegar alltaf illa við landsbyggðargrát á borð við grein Pálma. Af honum má skilja að hinar dreifðu byggðir séu byggðar skæludýrum og röklausum skítkösturum.

Samgönguvandræði Vestfjarða ráðast af nokkru af erfiðu landslagi og strjálbýli. Hin hliðin er ónóg framsýni þeir sem fara með skipulag samgangna.

Ákveðið var að koma Ísafirði í vegsamband um Djúp og Steingrímsfjarðarheiði. Þessi vegagerð er óþurftarverk, byggðin er nær engin í Djúpinu og lítil þörf á samgöngum Ísfirðinga við Hólmavík.

Ef fjármagnið í Djúpveg hefði verið notað til að tengja saman N og S verða Vestfirði, -þá væri kominn góður vegur á Barðaströndina -hvort sem hann væri um Teigskóg eða ekki.

Vestfirðingum er því nær að líta í eigin barm og velta fyrir sér hverja þeir hafa kosið sem sína fulltrúa í gegnum árin...

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 09:50

10 identicon

Ekki get ég talist kunnugur á svæðinu þótt ég hafi nokkrum sinnum ekið þar um. En ca 3.5 km göng undir Hjallaháls, t.d. frá bænum Gröf yfir í Djúpafjörð, sýnist mér að gæti verið lausn. Kostur er að úr göngunum fengist dýrmætt byggingarefni í nærliggjandi vegi.

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 17:34

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hæstu göturnar á svæðinu Breiðholt/Kópavogur liggja í 140 metra hæð. Við höfum mörg dæmi þess hér á landi að þegar lagðir voru nýir vegir gjörbreytti það ástandinu.

Brekkan bratta og krókótta úr Djúpafirði upp á Ódrjúgsháls er líklega um 60 ára gömul vegagerð. Þetta er ein allra versta brekka á landinu og þótt hún sé skráð 16% er hún líklega nær 18%. Svona brekka verður hin versta ófæra í hvaða hálku sem er.

Hún verður á bak og burt, hvaða leið af hinum nýju verður farin með framtíðarveginn.

Færðin á leiðinni um Mývatnsöræfi sem liggur í tæplega 400 metra hæð gjörbreyttist þegar lagður var nýr vegur, svo að eitthvað dæmi sé nefnt.  

Ég minnist þess ekki að ég hafi lofað 400 störfum á Vestfjörðum ef þeir yrðu stóriðjulausir.

Veit hins vegar að ferðamannastraumur um Vestfirði jókst í sumar.

Yellowstone í Wyoming í Bandaríkjunum er afskekkt hálendissvæði. Það malar samt miklu meira gull ósnortið sem ferðamannaland heldur hefði verið en ef allur jarðvarminn þar og fossarnir hefðu verið virkjaðir.

Samkvæmt lýsingunni hér að ofan ætti að standa risavaxin níðstöng um Sigríði í Brattholti í stað Sigríðarstofu við Gullfoss.

Á þeim tíma sem hún barðist gegn því að fossinn yrði virkjaður var Ísland nánast vegalaust og rafmagnslaust land og meira en helmingur húsakostsins torfbæir.

Virkjun Gullfoss hefði breytt meiru í því efni hlutfallslega fyrir þjóðina en nokkur önnur framkvæmd fyrr eða síðar.

Sigríður gat ekki bent á "eitthvað annað" og var samkvæmt þessu einhver mesta óþurftarmanneskja sem þetta land hefur alið.

Hún gat þá ekki séð það fyrir að fossinn myndi mala meira gull ósnortinn sem ferðamannastaður og aðdráttarafl heldur en hann hefði verið virkjaður.

Í hvert skipti sem ég velti vöngum yfir sumu af því sem gert hefur verið í seinni tíð og því sem stendur til að gera, spyr ég sjálfan mig, hvað Sigríður hefði gert í okkar sporum.

Þá verður auðveldara að svara. 

Ómar Ragnarsson, 21.9.2011 kl. 23:01

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

P. S.  Sigríðarstofa var reist 37 árum eftir hennar dag og þar með viðurkennt það brautryðjendastarf sem hún vann.

Ég hef lengi bent á það hvílíkt glappaskot það var fyrir rúmum 30 árum að ákveða að besta vegatengingin við Vestfirði fælist í því að fara hina ógnarlöngu leið um vestanverðan Húnaflóa í stað þess að hafa í huga, að bein loftlína milli Ísafjarðar og Reykjavíkur liggur rétt austan við Stykkishólm og að því nær þessari línu, sem landleiðin liggur, því betra.

Ómar Ragnarsson, 21.9.2011 kl. 23:17

13 identicon

Ómar. 

Varðandi Olíuhreinsistöð.... þá er ég nokkuð viss um að ekki nokkur maður í minni sveit vildi Olíuhreinsistöð, en við vildum störfin sem hefðu mögulega fylgt henni!!  Ef þú leggur brauðmola fyrir framan hungraðan mann þá gleypir hann brauðið..... þú af öllum mönnum hlýtur að skilja það.  Við íbúar hér erum flest gott og heiðarlegt fólk og erum flest öll mjög ánægð með þá atvinnuuppbyggingu sem er í gangi núna í vistvænu laxeldi með mörgum nýjum og fjölbreyttum störfum!!

Þú þekkir landið þitt vel og þú veist að hálsar og heiðar eru mikill farartálmi.  Við sem hér búum erum sérfræðingar í því að ferðast um hálsa og heiðar á Vestfjarðavegi 60 og vitum að ekkert .... ekkert gerir vegi á hálsunum neitt líka vegum í Breiðholtinu tala nú ekki um hvað þjónustustig (snjóhreinsun, söltun) verður alltaf ólík!!

Ég held að það sé ekki nokkur maður sem vill eyða Teigsskógi..... þetta er ekki spurning um það.  Við erum ekki svo slæm að við viljum bara láta eyða hverrri einustu plöntu í okkar sýslum, nei við erum gott fólk sem viljum vegi sem hægt er að ferðast um að nóttu sem degi alla daga ársins.... rétt eins og hægt er í Breiðholti, en hefur þú t.d. skoðað áætlaðar skeringar sem verða við lagningu nýs vegar um Ódrjúgsháls eða eru sum tré bara hreinlega meira heilög en önnur.  Við viljum finna lausn á þessu máli.  Hvernig væri að þú og fleiri hjálpuðuð til við að benda á alvörulausnir ....

Krafa okkar um láglendisveg er eðlileg en í stað þess að benda endalaust á það við séum  vond og að eina markmið okkar sé að eyðileggja Teigsskóg leggið höfuðið í bleyti og komið fram með alvöruhugmyndir að vegstæði.  Hjálpið okkur í þessari baráttu.... það eru allar hugmyndir velþegnar!!

Bríet Arnardóttir Patreksfirði (IP-tala skráð) 23.9.2011 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband