24.9.2011 | 18:28
Bara byrjunin ?
Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur eru ekki að leika sér þegar þeir dæla jarðhitavatni niður um borholur.
Þvert á móti er hér um afar nauðsynlegar aðgerðir að ræða vegna þess að annars rennur afgangsvatn frá Hellisheiðarvirkjun út í umhverfið og verður smám saman til vandræða. Auk þess er vonast til að hægt sé að búa til nokkurs konar orkuhringrás, sem geti aukið nýtingu svæðisins, en eins og nú er fara tæp 90% orkunnar ónýtt út í loftið.
Þetta er ekki eina virkjunin, þar sem fást þarf við affallsvatn. Í Svartsengi er þetta vandamál og um tíu kílómetrum fyrir sunnan Kröflu er stækkandi tjörn, sem þar er að verða að stöðuvatni, en vatn í það rennur alla leið þangað ofan frá virkjanasvæðinu.
Á mynd hér að ofan er horft yfir þetta stækkandi vatn og sjást gufustrókarnir frá Kröfluvirkjun í fjarska.
Þetta vandamál á eftir að þrefaldast þegar búið verður að stækka Kröfluvirkjun eins og ætlunin er að gera, og eins og er yppta menn bara öxlum, þegar minnst er á þetta og segja að þetta verði leyst með niðurdælingu.
En þetta er ekki verst þarna heldur við Bjarnarflag. Þar er aðeins 3ja megavatta virkjun en samt er affallsvatnið farið að renna í gegnum Jarðböðin í átt að Mývatni, sem er aðeins um rúmlega þriggja kílómetra fjarlægð.
Á myndinni er horft í áttina að Námaskarði og Bjarnarflagi en nær sjást Jarðböðin og affallsvatnið frá þeim.
Affallsvatnið er þegar komið í Grjótagjá, sem er ekki lengur með tært vatn eins og áður, heldur gruggugt.
Þarna stendur til að gera þrjátíu sinnum stærri virkjun og erfitt að sjá annað en að allt hið stóraukna grugguga affallsvatn hennar fari beint ofan í Mývatn, sem er aðeins þrjá kílómetra í burtu og landslag hallar þangað.
Engar áhyggjur virðast menn hafa af því, framleiðslan á Bakka mun væntanlega fá forgang yfir lífríki Mývatns ef á þarf að halda.
Síðan yppta menn bara öxlum og segja: Það verður allt í lagi, affallsvatninu verður komið fyrir kattarnef með niðurdælingu þegar þar að kemur.
Niðurdælingin á Hellisheiði er enn á tilraunastigi og styrkt af þeim sökum. Nú hafa þegar komið fram ófyrirséðar afleiðingar af henni varðandi jarðskjálftamælingar og tilrauninnni að öðru leyti ekki lokið né liggur fyrir árangur af henni.
Samt er búið að slá því föstu að reisa í Bjarnarflagi stórvirkjun, 50% stærri en núverandi Kröfluvirkjun er, rétt við Mývatn og láta virkjunina njóta vafans, - ekki náttúruna eins og við skuldbundum okkur til að gera með því að undirrita Ríósáttmálann 1992.
Náttúra Mývatns er ekki aðeins eitthvað loftkennt fyrirbæri í sjálfu sér og áhugamál "Lattelepjandi kaffihúsafólks í 101 Reykjavík", heldur undirstaða undir ferðaþjónustunni á þessum slóðum og þeim miklu tekjum, sem fólk hefur af henni.
Veitt eru þau svör varðandi það, sem þarna á að gera, að vöktun verði viðhöfð varðandi þetta atriði.
Og hvenær byrjar hún? Svar: Þegar virkjunin hefur tekið til starfa ! Þá munu menn standa frammi fyrir því að hafa selt orkuna frá henni langt fram í tímann svo að í raun verður þessi vöktun jafn óþörf og það þegar læknir tekur púlsinn á látnum sjúklingi.
Manngerðir skjálftar trufla vöktun Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.