24.9.2011 | 23:57
"Kjörið alræði"?
Ég hef verið að glugga í bókina "Rússland Pútíns" sem rússneska blaðakonan Anna Politkovskaja skrifaði eftir að Pútin var endurkjörinn forseti fyrir sjö árum.
Skrautsýningin og tilstandið, sem nú er haft í frammi í tenglsum við það að Medvedev ætlar að víkja á næsta ári fyrir Pútín úr forsetaembætti passar algerlega inn í þá lýsingu, sem Politkovskaja gefur í sinni bók á aðferðum Pútíns og hans manna við að nota öll meðöl nútíma áróðurstækni til að upphefja þennan raunverulega einvald Rússlands.
Þetta eru aðferðir sem þekktar hafa verið hjá einvöldum að Stalín og Hitler meðtöldum.
Politkovskaja var myrt í október 2006 og á sömu lund hefur farið fyrir mörgum þeirra, sem dirfst hafa að kasta rýrð á einvaldinn, sem hefur bæst við röð hinna fjölmörgu einvalda, sem hafa stjórnað Rússum með harðri hendi um aldir.
Í bók sinni gagnrýnir Politkovskaja þjóð sína fyrir það að hún skuli leyfa honum að komast upp með ofríki sitt og ótal pretti og blekkingar sem því fylgir. En smám saman hefur færst yfir hana doði og uppgjöf sem veldur því að Pútín getur fengið meirihluta í "frjálsum" kosningum. Yfir slíkt hefur Sigurður Líndal prófessor sett fram hugtakið "kjörið alræði."
Politovskaja bendir til dæmis á það að Pútín hafi aldrei tekið þátt í stjórnmálalegum kappræðum í sjónvarpi heldur sett eigið sjónarspil á svið með dyggri aðstoð ríkissjónvarpsstöðvanna í Rússlandi.
Ég kom til Rússlands fyrir nokkrum árum, og þótt ég væri aðeins í landinu í þrjá daga, var það nógur tími til þess að heyra heimamenn lýsa því hvernig tveir helstu bölvaldar þjóðarinnar, fátækt og spilling, þrífast og nærast undir einvaldsstjórn Pútíns.
Spillingin gegnsýrir allt þjóðfélagið, ekki síst réttarkerfið.
Nómenklatúran hvarf ekki með falli kommúnismans heldur skipti bara um föt og gerðist nómenklatúru-gróðapungar.
Politkovskaja játar í bókinni að kommúnisminn hafi farið illa með Rússland en sýnist það sem nú er að gerast þar vera orðið jafnvel enn verra. Það eru sannarlega stór orð, einkum vegna þess að vesturlandabúar láta sér það vel líka að rússneska samfélagið sé sveipað í Pótemkimtjöld yfirborðslýðræðis og markaðssamfélags.
Fögnuðu framboði Pútíns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.