"Hamarinn sem hæst af öllum ber."

Hornbjarg er kannski stærsta fuglabjarg landsins en Látrabjarg er mun aðgengilegra og auðveldara fyrir ferðamenn.  Látrabjarg á sérstakan sess í huga mínum síðan ég gerði fyrstu heimildarmynd mína fyrir Sjónvarpið, en hún var um Látrabjarg og bar nafnið  "Hamarinn, sem hæst af öllum ber" var um Látrabjarg.

En mestu varðar þá að konan mín frá Vesturbyggð og sú byggð mér sérlega hugstæð eins og sést af lagi og ljóði sem ég samdi á sínum tíma í oðastað hennar:

BYGGÐIN MíN.

Langt í vestri vakir byggðin mín

vinaleg í faðmi brattra fjalla.

Unaðsleg hún ól upp börnin sín

er þau hlupu´um strönd og græna hjalla.

Roðagylltur Rauðisandur er.

Rís úr hafi landsins ysti vörður.

Ævinlega´er efst í huga mér

æskubyggðin kæra, Patreksfjörður.

 

Fyrir 25 árum krækti ég mér í firmanafnið "Hugmyndaflug" og hugðist fara út í það að bjóða ferðamönnum, einkum erlendum, að kaupa sér eins dags ferð, þar sem þeim væri tryggt einstætt ferðalag.

Staðirnir, sem í boði væru, yrðu Látrabjarg, Hornvík og Hornbjarg eða Kverkfjöll og færi eftir veðri hvert haldið yrði. Ef ekki væri flugfært til neinna þessara staða fengju þeir endurgreitt verð ferðarinnar.

Flogið yrði frá Reykjavík og lent á gömlum lendingarstað í fjörunni við Hvallátra, þaðan gengið um gömlu verstöðina Brunna að Bjargtöngum. Frá Bjargtöngum er stutt ganga upp aflíðandi bjargbrúnina að Ritugjá, þar sem bjargið er 60 metra hátt og fuglalífið í algleymingi.

Því miður láta alltof margir þetta nægja, en það er ótal margt að sjá ef menn halda áfram upp eftir aflíðaindi bjargbrúninni alla leið upp, þar sem bjargið er rúmlega 440 metra hátt.

Mesta ævintýrið er þó að fara niður svonefnda Saxagjá um snarbratta urð og ganga þaðan til vesturs út á svonefnda Saxagjárvöllur, en í þar slógu menn fyrrum gras með orfi og ljá, heyjuðu í bratta, sem er ávið bröttustu húsþök og drógu síðan eða báru heyið alla leið upp á bjargbrún.

Hér er aðeins fátt nefnt, en að mínum dómi eru möguleikar þessa svæðis stórlega vannýttir.

Á sínum tíma ræddi ég þessi áform við þáverandi flugmálastjóra, Pétur Einarsson, sem leist mjög vel á þær. Þegar til átti að taka var skriffinnskan í kringum þetta hins vegar svo mikil að ég hætti við, enda nóg að gera við önnur viðfangsefni.


mbl.is Mikilvægt að vernda svæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Eldri maður ættaður úr Aðalvík eða Hælavík sagði mér frá, er hann var að alast upp.

Þá snjóaði miklu meir en í dag, oft blindbylur svo dögum skifti, eina leiðinn

var að brjótast ofan í fjöru, þar var autt, er fjaraði út.

Hann sagði þetta hafa verið ömurlegt líf, yfir veturinn.

Aðalsteinn Agnarsson, 25.9.2011 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband