Eru hólar nú orðnir fjöll ?

Borgarhólar heita lágir hólar efst á bungu Mosfellsheiðar. Hólarnir rísa í mesta lagi um tuttugu metra yfir sléttuna í kring eða álíka hátt og Landakotshæðin eða Valhúsahæð.

Engum hefur dottið í hug að kalla þessar hæðir fjöll eða að kalla Rauðhólana fjöll.

En nú er þetta breytt ef marka má tengda frétt á mbl.is, því að þar segir að á Mosfellsheiði sé "fjallið" Borgarhólar.

Ef þeir eru orðnir að fjöllum er næsta stig að segja að Reykjavíkurflugvöllur sé fyrir vestan "háfjallið" Öskjuhlíð !


mbl.is Maðurinn ekki alvarlega veikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fréttirnar eru nánast undantekningalaust (síðan þú hættir Ómar!) skrifaðar af fólki sem aldrei hefur komið upp fyrir Ártúnsbrekkuna.

Eitt dæmi frá því í sumar: þá var sagt frá því í stóráfallastíl af miklum átroðningi ferðamanna við hina friðlýstu Helgustaðanámu fyrir austan, að túristarnir flyttu með sér í burtu silfurbergsteina í stórum stíl, og að ef ekki yrði gripið í taumana, þá væru dagar þessa náttúruvættis brátt taldir. Síðan át hver fjölmiðillinn þetta upp eftir öðrum, vandlætingartónninn var ósvikinn og fölskvalaus, og brátt lögðustu viðkomandi stofnanir og allt upp í ráðherra á sömu sveif: þessa ósvinnu y-r-ð-i að stöðva.

En hafði einhverra þessara postula komið á svæðið eða þekkti til aðstæðna? Augljóslega ekki, því þær eru þannig að ekki með nokkru móti hægt að vinna tjón á þessum námum (en þær eru tvær, sú neðri og sú efri), þótt menn fegnir vildu, því þær eru gjörsamlega galtómar. Þótt skriðið sé inn í botn á þeirri neðri, og öflugu ljósi beint að klettaveggjunum þá sést þar hvergi, endutek hvergi, votta fyrir silfurbergi. Í hinni efri, (sú er opin fyrir veðri og vindum), sést heldur hvergi votta fyrir silfurbergi nema á einum stað hátt upp í hamrabelti, en til þess að komast að þvi þyrfti mikla stiga eða stillansa sem að hinn venjulegi ferðamaður hefur ekki með sér í farteskinu.

Hins vegar, fyrir FRAMAN báðar þessar námur, en þær voru í notkun í hátt í 3 aldir, er námusalli þar sem óteljandi smáa silfurbergsmola er að finna, sem að ekki hefur þótt taka því að hirða við námuvinnsluna á sínum tíma. Námusalli þessi skiptir líklega nokkur hundruðum tonna, og þótt þeir nokkur hundruð ferðamenn sem sækja staðinn heim árlega, þá eru þarna nægir molar handa öllum næstu aldirnar og sér ekki högg á vatni þótt menn grípi eitt eða fleiri stykki með sér til minja.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 26.9.2011 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband