2.10.2011 | 14:13
Dýrmæt "heimildamynd."
Kvikmyndin Eldfjall og allir þeir sem að henni standa eiga skilið þau verðlaun og það lof sem hún hefur fengið.
Ég kalla myndina "heimildamynd" innan gæsalappa vegna þess að mörkin milli leikinna mynda og heimildamynda geta oft verið víðari en virðist í fljótu bragði.
Fyrir alla þá, sem hafa upplifað hliðstæður þess, sem gerist í myndinni Eldfjalli var myndin afar dýrmæt varðandi það að íhuga efni hennar.
Ég hef heyrt að einhverjir hafi gagnrýnt að tempóið í henni hafi verið of hægt á nokkrum stöðum.
Því er ég ósammála. Ef myndin átti að vera "sönn" og gefa rétta mynd af því ástandi, sem hún lýsir, er eitt af einkennum þess ástands, að tíminn líður afar hægt, stundum eins og hann ætli aldrei að líða.
Gunnar Eyjólfsson leikari sagði mér einu sinni frá því að einhvert mesta leikkona, sem hann hefur kynnst, hafi verið áhugaleikkona á Akranesi, sem lék til dæmis kerlingu Jóns í Gullna hliðinu svo vel að hann hafði ekki séð það betur gert.
Gunnar sagði mér, að hún hefði meira að segja geta "leikið með bakinu", það er, sýnt tjáningu þegar hún sneri baki í áhorfendur.
Theódór Júlíusson er upprunninn úti á landi og hefur kannski þurft að hrista það af sér, þegar hann kom suður, að vera ekki frá upphafi inni í í nnsta hring leikhúsheimsins í Reykjavík.
En hann hefur svipaða náðargáfu og áhugaleikkonan á Akranesi forðum og geta jafnvel "leikið með bakinu." Það gerir hann í Eldfjalli og það gerði hann í söngleiknum "Ást" í Borgarleikhúsinu, meðal annars í atriði okkar tveggja þar sem við göngum til baksviðs og snúum baki í áhorfendur.
Það fór kliður um salinn í hvert sinn sem þessar örfáu sekúndur söngleiksins liðu.
Theódór er fagmaður af hæsta gæðaflokki sem leikari auk þess sem hann hefur meðfæddan og ræktaðan túlkunarhæfileika. Þetta skilar sér vel í Eldfjalli í samleik við aðra, sem standa sig afar vel og gera þessa mynd svo góða og eftirminnilega sem hún er.
Viðfangsefnið er dásamlega íslenskt og alþjóðlegt í senn, viðkvæmt vandamál sem er feimnismál en er nauðsynlegt að láta koma upp á yfirborðið eins og gert er í þessari mynd.
Það væri freistandi að fara nánar út í það, en fyrir þá, sem eiga eftir að sjá myndina er betra að það sé ekk gert. Því að ástandið og aðstæðurnar, sem myndin lýsir, þurfa að koma jafn óvænt fyrir áhorandann og þau gera í lífinu sjálfu.
Eldfjall fékk kvikmyndaverðlaun kirkjunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.