5.10.2011 | 13:29
Að vera "baggi á þjóðinni."
Einn bloggara dagsins spyr hvort "menningarsnobbararnir geti ekki fengið sér almennilega vinnu eins og venjulegt fólk" og á þá við það fólk, sem tengist listum og menningu, sem þiggur laun af opinberum aðilum fyrir störf, sem samkvæmt þessum skilningi bloggarans eru ónytjungsstörf.
Maður tekur svona sneið til sín, því að samkvæmt þessum skilningi hefði ég átt að fá mér "almennilega vinnu" í þau 31 ár, sem ég var í föstu starfi hjá RUV og afsala mér þeim lífeyri, sem ég þigg eftir að ég hætti þar í föstu starfi.
Nafnalistinn er langur, sem fellur í þennan flokk ónytjunga samkvæmt hugsunarhætti sem er líklega algengari hér á landi en víðast annars staðar.
Svo ég haldi mig við Sjónvarpið má taka af handahófi nöfn "ónytjunga" á borð við Sigmar Guðmundsson, Þóru Arnórsdóttur og Gísla Einarsson. Burt með þetta fólk af skjánum. Það getur fengið sér "almennilega vinnu eins og venjulegt fólk".
Helgi Tómasson hefði að sjálfsögðu átt að fá sér "almennilega vinnu" í stað þess að læra listdans og stunda hann í upphafi ferils síns hjá Þjóðleikhúsinu.
Og Halldór Laxness átti að sjálfsögðu að fá sér "almennilega vinnu" í stað þess að treysta á það árum saman á meðan hann var að öðlast heimsfrægð að fá styrk af ríkisfé.
Baltasar Kormákur, Friðrik Þór Friðriksson og aðrir slíkir áttu ekkert með það að fá styrki úr Kvikmyndasjóði, - þeir áttu að fá sér "almennilega vinnu", til dæmis í álverum landsins, í stað þess að vera í hópi þess fólks sem hefur skapað milljarða veltu hér innan lands og útflutningsverðmæti, sem menningargeirinn hefur alið af sér.
Sinfóníuhljómsveit Íslands er hrakyrt í sumum bloggpistlu dagsins.
Sagt er að hún sé samansafn letingja og fúskara sem eigi að "fá sér almennilega vinnu" og að hljómsveitin eigi það ekki skilið umfram bílskúrshljómsveitir að fá neitt af opinberu fé.
Þeir sem hæst gala hafa ekki minnstu hugmynd um það hvaða sess og viðurkenningar á alþjóðavettvangi hljómsveitin hefur öðlast hin síðari ár og hvaða vinna og erfiði liggur þar að baki.
Þaðan af síður gera þeir sér grein fyrir því undirstöðuhtverki sem Sinfóníuhljómsveitin og hljóðfæraleikararar hennar gegna í allri íslenskri tónlist, allt frá háklassískum stórvirkjum til dægurtónlistar svonefndrar.
Í fyrra féllu þau ummæli að tónlistarmenn ættu ekk skilið að fá eyri í höfundarlaun, - það gæti hver sem er labbað út í bílskúr og glamrað eitthvað og tekið það upp.
Ef það er svona auðvelt, af hverju skjótast þessir menn þá ekki "út í bílskúr og "glamra eitthvað og taka það upp"?
Grátlegt er að sjá þegar vel menntað ungt fólk "fagnar" þeim möguleika að grundvellinum verði kippt undan undirstöðu gæða íslenskrar tónlistar.
Líkast til myndi þetta unga fólk fagna því ef von væri til þess að starfsemi leikhúsanna í Reykjavík og annarra greina íslenskrar menningar, sem stutt er við af opinberu fé, stöðvaðist.
Ef ég man rétt máttu ungir sjálfstæðismenn varla vatni halda af hrifningu yfir þeim afrekum, sem unnin voru í íslensku fjármálalífi fyrir nokkrum árum, - þar voru sko menn sem "fengu sér almennilega vinnu".
Það er nöturleg tilviljun að sama daginn og frétt er á mbl.is um "fögnuð" SUS-manna yfir þeim möguleika að Sinfóníuhljómsveitin fái á baukinn er frétt um það hvernig hlegið er í erlendum fjölmiðlum af ofurmennum íslenska "fjármálaundursins" eins og sumir kölluðu það.
SUS fagnar mögulegu verkfalli Sinfóníunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Erum við nokkuð að misskilja hvorn annann Ómar.. eða bara í léttri íóníu..
hilmar jónsson, 5.10.2011 kl. 13:36
Fyrst það er verið að tala um bagga á þjóðfélaginu.
Það má alveg loka þjóðkirkjunni, þá getum við verið með sinfóníu, hjálp handa fátækum íslendingum, tannlækningar fyrir börn og alles.
Skora á alla presta að fá sér ærlega vinnu, hætta þessum fáránlega leikaraskap langt fram eftir aldri; Ég meina, halló, ég óx upp úr galdradæminu þegar ég var 6 ára.
DoctorE (IP-tala skráð) 5.10.2011 kl. 13:55
Ég hef rekið mig á það, að það er alveg sama hvað maður skrifar fáránlegan texta á bloggið, sem maður heldur að allir sjái að sé bara grín, þá eru alltaf einhverjir, líklega flestir, sem halda að textinn sé í fúlustu alvöru.
Lærdómur: blogg er ekki góður vettvangur fyrir kaldhæðni.
Aftur á móti er DoctorE með lausnina, láta geimgaldraboðendur sjá um sig sjálfa og þá verður nóg af peningum eftir fyrir simfóníuna, tannlækningar fyrir börn o.s.frv.
Sveinn R. Pálsson, 5.10.2011 kl. 14:33
Já Sveinn, það tekur því að vera rífa úr sér hjartað við að vera skemmtilegur þegar perlunar lenda fyrir svínum..Úps..kaldhæðni
hilmar jónsson, 5.10.2011 kl. 14:52
Ómar. Verður meðalhófið ekki altaf best. Hvort sem það er Listir eða umhverfismál ?
gissur jóhannesson (IP-tala skráð) 5.10.2011 kl. 17:31
Það var ekkert grín á ferðinni í einni af skoðanakönnunum á útvarpsrásum þar sem spurt var út í ókeypis niðurhal á tónlist. Að vísu verður alltaf að taka svona símaspjallkönnunum með fyrirvara en miklum meirihluta fannst sjálfsagt að tónlistarmennirnir hefðu ekkert fyrir listsköpun sína.
Hvað meðalhófið snert var ég þeirrar skoðunar á sínum tíma að útvarpshúsið væri alltof dýrt og óhentugt, nær væri að nota féð í gerð menningarefnis.
Sömu skoðun hef ég haft og viðrað beint og óbeint í mörg ár varðandi Hörpu, að vel hefði vefið hægt að reisa miklu minna og ódýrara hús, sem þó gæfi sömu not og fegurð og Harpa.
Í staðinn er hætta á að húsið verði fjárhagslegur dragbítur. Betra hefði verið að mínum dómi að eyða fénu í beina listsköpun.
Ómar Ragnarsson, 5.10.2011 kl. 19:36
Ertu þá að gera lítið úr fólki sem vinnur í álverum og fólki sem er í bílskúrshljómsveitum og er allt í lagi að skera niður hjá fólki sem er að berjast við lífs hættulega sjúkdóma, þetta var bara hugmynd hjá ungu fólki Ómar óþarfi að vera hrauna yfir það, þú vannst þýna vinnnu vel og enginn var að segja að þú hafir ekki verið að vinna alvöru vinnu nema kannski þessi eini bloggari. ekkert afþví að fólk komi með hugmyndir þótt þeir séu ekki vinstri sinnaðir.
Hjörtur (IP-tala skráð) 5.10.2011 kl. 21:13
Ekki nema fólkið sé í bílskúrsbandi og vinni líka í álveri, Hjörtur. Það er eitthvað svo glötuð blanda.
hilmar jónsson, 5.10.2011 kl. 21:27
Ég er ekki að gera lítið úr tónlistarstarfi í bílskúrum né vinnu í álverum. Hef sjálfur í áratugi unnið við tónlist og upptökur í bílskúrum og vann allt frá tíu ára aldri ýmis erfiðisstörf jafnfram námi.
Þú snýrð þessu á haus, Hilmar. Það eru aðrir sem eru að gera lítið úr menningarstarfi með því að segja að það séu ekki "almennileg störf" heldur einhver ónytjunga- og afætustörf.
Ómar Ragnarsson, 5.10.2011 kl. 21:53
Vil bara taka undir þennan pistil hjá þér Ómar.
Landfari, 5.10.2011 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.