5.10.2011 | 21:41
Stærðar hraun færð til í heilu lagi!
Skammt er síðan lesendur mbl.is voru fræddir um það að á Mosfellsheiði væri fjallið Borgarhólar.
Hið rétta er að þetta eru þetta eru litlir hólar á háheiðinni, það litlir að nota þarf kíki til að sjá þá almennilega nema að fara inn á heiðina eftir leifum gamla Kóngsvegarins.
Nú erum við í frétt tengdri þessu bloggi frædd um það að Svínahraun liggi á milli Lögbergsbrekku og Litlu Kaffistofunnar. Hingað til er ekki vitað til að nokkur maður hafi séð hraun á þessu svæði þar sem búið er að tvöfalda Suðurlandsveg.
Hins vegar er hraun austan við enda þessarar tvöföldunar eins og allir geta séð sem hafa farið þessa leið og verður fróðlegt að vita hvað það hraun verði kallað á mbl.is ef viðurkennt verður að það sé til.
Stundum segir landsbyggðarfólk að engu sé líkara en meirihluti íbúa á höfuðborgarsvæðinu komi aldrei austur fyrir Ártúnsbrekku.
Auðvitað eru þetta stórar ýkjur, en svo er að sjá á frétt mbl.is að sá, sem skrifaði fréttina komist aldrei austur fyrir Lögbergsbrekku. Eða að minnsta kosti ekki á þessu ári á þeim tíma sem hinar miklu framkvæmdir hafa verið við breikkun Suðurlandsvegar.
P. S. Varla var ég búinn að ljúka ritun þessa pistils þegar birtist nýjasta fréttin á mbl. is þar sem lesendur eru fræddir um það að Búrfellshraun sé fyrir vestan Mývatn.
Það þýðir færslu upp á að minnsta kosti 15-20 kílómetra til vesturs, yfir vatnið og Mývatnssveit ! Þetta getur maður nú kallað að hrauna yfir Mývetninga. Eins gott að ekkert gerist í stærsta hrauni landsins, Ódáðahrauni. Það gæti lent vestur í Bárðardal!
Samgöngubót í Svínahrauni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég tók einmitt eftir þessu með Svínahraunið.
Svona er þetta með margt annað í fréttum, eins og þú bendir á. Það er e.t.v. ekki hægt að ætlast til að fólk viti ALLT, sérstaklega yngra fólk, rétt skriðið úr menntaskóla en frétta og blaðamenn eiga að sjá sóma sinn í að hafa svona á hreinu. Það er auðvelt í dag með hjálp internetsins.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2011 kl. 04:34
Svínahraun er jafnlangt frá Reykjavík og byggðin á Kjalarnesi, sem er raunar í landi Reykjavíkur. Nú er að koma til skjalanna kynslóð, þar sem algengt var að tala um "tveggja spólu ferð" þegar vegalengdir voru áætlaðar í ferðum í rútum.
Staðarskáli var í tveggja spólu fjarlægð frá Reykjavík. Leiðin milli Reykjavíkur og Akureyrar skiptist kannski svona: Reykjavík- spóla - Borgarnes - spóla - Varmahlíð - spóla - Akureyri. Krakkarnir kynntust engu öðru á leiðinni.
Ómar Ragnarsson, 6.10.2011 kl. 13:50
Hehe magnað
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2011 kl. 16:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.