9.10.2011 | 00:50
Horft til himins.
Á leiðinni frá Bjarnargili í Fljótum til Reykjavíkur í kvöld var oft magnað að horfa til himins þegar rofaði til á milli snarpra skúra.
Tunglskinið, sem var sérstaklega fallegt þegar sást til tunglsins á milli snarpra skúra, sló bjarma á hvít fjöll og vota vegi, og sjónarspil skúraskýjanna var mikilfenglegt. Einnig brá fyrir fallegum norðurljósum, og í Hrútafirðinum mátti sjá ferðafólk standandi við veginn horfandi til himins með myndavélar á lofti.
Það sá norðurljósin, tunglið og hraðferð misbjartra skúraskýja, en ekki sáum við hjónin neitt stjörnuhrap, þótt vera kunni að einhverjir aðrir hafi séð það.
Nútímafólk missir af því að upplifa náttúruna og veröldina án ljósagangs og hávaða af mannavöldum.
Helga, konan mín, hefur óskiljanlega góða heyrn, svo góða, að síðustu nótt varð hún andvaka í sveitinni, af því að þögnin var svo mikil og það var orðið langt síðan hún hafði upplifað svo mikla þögn. Síðan byrjaði að rigna með dropahljóði og þá sofnaði hún vært.
Svona erum við orðin samdauna hávaðanum í borginni.
Iðunn og Friðrik, dóttir okkar og tengdasonur og fjölskylda þeirra, unnu þrjú ár sem kennarar í Vík í Mýrdal og þau voru á einu máli um þá miklu, dýrmætu og óvnæntu upplifun sem það veitti þeim að standa úti á kyrri vetrarnóttu og sjá stjörnugeiminn í fyrsta sinn ótruflaðan í stað þess að hann ýmist sæist ekki eða væri stórlega deyfður vegna borgarljósanna, sem þau höfðu alist upp við.
Hundruð ljósa á himni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk fyrir síðast Ómar minn.. Ég tek undir allt sem sagt er hér að ofan. Náttúran sýndi á sér flestar hliðar á ferð okkar í gær. Ég var sennilega klukkutíma á eftir ykkur því ekki linti gestristninni á Bjarnagili hehe við fórum ekki fet fyrr en búið var að borða kvöldsnarl enda þurftum við hvergi að stoppa á leið okkar til að næra okkur.
Sigríður Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 15:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.