Tákn mótsagnanna.

Sú var tíð að í íslenska Kanaútvarpinu var eitt vinsælasta lagið "The green berets", spilað í síbylju til dýrðar sérsveitum Bandaríkjahers í Vietnamstríðinu og til að efla móralinn í herstöðvum Bandaríkjamanna.

Textinn fjallaði um hin hugrökku og dáðríku hreystimenni, sem skipuðu úrvalssveitir hugsjónamannanna sem fórnuðu lífi sínu fyrir baráttuna við hina illu kommúnista.

Þetta var þrusugott lag og enn í dag flýgur það stundum mér í hug að gera íslenskan texta við það.

En þá vaknar erfið spurning: Væri slíkt viðeigandi?

Ástæðan er sú að það skilja himinn og haf , annars vegar það álit sem Jón Væni (John Wayne) og skoðanabræður hans höfðu á þessum sérsveitium og birtist í þessu góða lagi, og - hins vegar það hræðilega óorð sem ýmsar gerðir þessara sveita komu á þær þegar leið á stríðið.

Í huga mér syngur enn laglínan, sem var nokkurn veginn með þessum texta: "These brave men, - Americas best!"

Þegar fjölmiðlun, umfjöllun og umræða um Vietnamstríðið magnaðist á síðustu árum sjöunda áratugarins kom í ljós, að það væri líka hægt að syngja:  "....Americas worst".

Líklegt er að eðli þessa hræðilega stríðs hafi verið slíkt, að enginn leið hafi verið fyrir sérsveitir af þessu tagi að komast hjá því að drýgja ódæði, rétt eins og óvinurinn.

Í lokin fékk heitið The Green Berets svo slæman blæ á sig, að hætt var að spila dýrðaróðinn  í Kanaútvarpinu.

Og heitið "The green berets" var þar með komið með í flokk með Gestapo, SS, STASI og öðrum illræmdum heitum í orðabókinni.

En þótt menn geti haft það álit að Grænhúfan sé tákn hins illa, breytir það sennilega litlu um það að grænhúfa Jóns væna feli í sér peningaverðmæti sem magnaður gripur.

Líklegast er það sama að segja um öskubakka, sem ég á, og gerður var af Íslendingi, sem fór ásamt öðrum Íslendingi á kostnað Heinrichs Himmlers yfirmanns SS-sveitanna til Dachau 1938 og nam þar mótasmíði fyrir höggmyndagerð, en Himmler var mikill áhugamaður um höggmyndalist. ´

Í Dachau, þar sem þessir Íslendingar voru á vegum Himmlers að leggja grunn að íslenskri höggmmyndagerð, voru einar illræmdustu fangabúðir nasista.

Maður ímyndaði sér síðar meir sem unglingur, þegar maður horfði á þennan óhuganlega öskubakka á heimili foreldanna og vissi orðið um tilurð hans, að öðru megin við fangelsismúrin hefðu verið Gyðingar í hlekkjum að höggva grjót, og hinum megin við vegginn tveir sérvaldir Íslendingar að vinna úr því.  

Þessi íslenski mótasmiður var hreinn öðlingur og góður heimilisvinur á bernskuheimili mínu sem hann heimsótti oft. Hans mun ég ævinlega minnist ævinlega mikilli hlýju og þakklæti fyrir ótal góðar stundir þegar hann tefldi við föður minn og ég sá um að spila viðeigandi jassmúsík á plötuspilaranum.

En hann og faðir minn, þá kornungir menn, áttu það til að gantast með ýmsa hluti í miklum hálfkæringi og 1948 gaf hann  föður mínum stóran kringlóttan öskubakka í afmælisgjöf, þar sem myndarlegt merki SS, hauskúpa og krosslagðir leggir,  tróndi yfir þveran bakkann.

Svona getur heimurinn nú verið lítill, að rekja megi einn óvenjulegasta og hugsanlega verðmætasta heimilisgrip minn óbeint til Himmlers og SS-sveitanna.

Þessi bakki, eins og Grænhúfan, eru vitni um tákn og gripi, sem geta falið í sér hrikalegar mótsagnir og verið verðmæt fyrir vikið "for good or worse" eins og Kaninn orðar það.  

Í hvert  skipti sem ég horfi á öskubakkann birtist hann mér sem áminning um það, hve stutt getur verið á milli góðs og ills í lífi mannsins.


mbl.is Metfé fyrir alpahúfu John Wayne
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég horfði nýlega á endurgerð Choen bræðra á myndinn The true Grits og hitti svo á að sjá frummyndina viku seinna þeirri sem Jón Væni fékk Óskarinn fyrir.  Trúlega  fékk hann þó verðlaunin fyrir leikferilinn meir en þessa mynd þó allt slippi nú til hjá karli þar. (Þar bar hann augnlepp sem seldur var á sama uppboði og húfuræksnið)

Einhvernvegin fékk ég það á tilfinninguna að grunndvallarpunkturinn í sögunni (sem ég vildi gjarnan lesa) sem myndirnar voru gerðar eftir, hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá leikstjórunum, sérstaklega þeim seinni.

Það sé einmitt hið sama og áminning öskubakkans "hve stutt getur verið milli góðs og ills í lífi mannsins"

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 15:57

2 identicon

„Á afmæli keisarans". Heill sé þér, Vilhjálmur hugumstór! hugprúði frændi og bróðir og vinur. Stynur nú loft og storð og sjór, stælist nú afl um leið og hrynur. Sigri og íifi þin listnæma storð, ljósvaldur kærleikans efli þitt ríki, og deyi' ei þess sonanna dyrustu orð og dafni' ykkur enn margur Goethes líki Og vertu altaf á vegum guðs og veri' 'ann í öndvegi sálar þinnar, og máttinn í vöðvum þíns mannsöfnuðs, hann mildi af ríkdómi gæzku sinnar. Svo er það mín heitasta ósk og von, að afl ykkar, vit og mentir fríðar b e t r i hvern ykkar svinnan son og sendi' okkur hinum raddir þýðar. Og auðnist þér lengi að lifa', og sjá þitt land og þess sonu friðinn signa. Nær blessunin krýnir bygð og lá og blóðinu hættir að rigna. Og hafðu þá mátt í hug og önd, — með hjörtun 5 þínu prúða liði — að bjóða heiminum bróðurhönd og byggja að tryggum alheimsfriði. Landið, 13. apríl 1917, bls. 60.

Húsari. (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband