Skjóta fyrst, spyrja svo.

Íbúar Hveragerðis verða að sætta sig við það í framtíðinni að vera vaktir jafnvel nótt eftir nótt af jarðskjálftum sem sumir hverjir eru meira en þriggja stiga.

Ástæðan er sú að fyrst var skotið og nú fyrst á að spyrja.

Þegar virkjanirnar voru settar í gang gerðu "öfgamenn" og "kverúlantar"athugasemd við það að mikið væri bruðlað með orkuna, - aðeins rúmlega tíu prósent hennar nýttist en upp undir 90% færu ónotuð út í loftið.  Einnig gæti orðið vandamál þegar fram í sækti hvað yrði um allt affallsvatnið og það mál þyrfti að leysa áður en rokið væri af stað.

Þetta var afgreitt á sama hátt og svo margt annað í þessum bransa: Þetta verður leyst með nýrri tækni síðar með því að dæla vatninu aftur niður í jörðina.

Nú er verið að gera þetta og þá kemur það öllum í opna skjöldu að þessu fylgja hrinur jarðskjálfta af áður óþekktri tíðni og þar að auki stærri en nokkurn óraði fyrir.

Nú er óskað eftir rannsókn, en í raun er lang líklegast að rannsókn á skjálftavirkninni verði aðeins sóun á fjármunum og að þetta sé allt samana búið og gert.

Hér, eins og ævinlega, verða hagsmunir stóriðjunnar hafðir í fyrirrúmi.

Sú hugsun að stóriðjan hafi forgang er svo inngróin að þegar íbúar í Vogum tregðast við að fá stórar háspennulínur við bæjardyr sínar er þeim hótað með því að þeir og aðrir á Suðurnesjum skuli borga með hækkuðu rafmagnsverði þann viðbótarkostnað, sem hljótist af því að leggja línurnar í jörð.

Engum dettur í hug að það væri eðlilegra að stóriðjan, sem kaupa á raforkuna, borgi fyrir þetta.

Nei, alls ekki kemur til greina að snerta hið lága orkuverð til hennar.

Í Helguvík má sjá eitt magnaðasta dæmið um það hvernig fyrst var skotið og síðan spurt.

Rokið var í miklar framkvæmdir við að reisa álver áður en búið var að útvega orku og semja um hana og raflínur við alls tólf sveitarfélög.

Síðan eru þeir, sem vilja ekki viðhafa svona vinnubrögð, sakaðir um að "vilja ekki atvinnuuppbyggingu og framfarir," "vera á móti rafmagni" og "vilja fara aftur inn í torfkofana.".  

Aðeins þremur kílómetrum frá austurbakka Mývatns á að reisa 30 sinnum stærra jarðvarmaorkuver en þar er núna. Affallsvatnið frá þessu litla orkuveri er þegar  komið í Grjótagjá og rennur í átt að vatninu.

En það er greinilega búið að ákveða að virkja þarna, því að það er komið inn í Rammaáætlun og ráðamenn tala um þetta eins og orðinn hlut.

Engum virðist hafa dottið í hug að affallsvatnið gæti stórskaðað hið einstæða vatn Mývatn, sem er aðdráttarafl fyrir tugþúsundir ferðamanna.

Nei, þarna er sagt eins og syðra: Þetta verður leyst með niðurdælingu. Svæðið verður vaktað og fylgst með, - eftir að virkjunin tekur til starfa.

En Bjarnarflag er fjórfalt nær hótelunum við Mývatn en Hellisheiðarvirkjun er frá Hveragerði.

Er sjálfgefið að hótelgestirnir og íbúarnir sætti sig við að verða ekki svefnsamt nótt eftir nótt?

Ekkert af þessu vita menn, vegna þess að stóriðjan á Bakka á að hafa forgang og valta yfir allt.

Þegar ég minnist á þetta hér í pistlunum vekur það nákvæmlega engin viðbrögð enda er þetta bara "röfl hjá öfgamanni, sem er á móti atvinnuuppbyggingu og framförum og vill að við förum aftur inn í torfkofana. " 


mbl.is Vilja rannsaka skjálftavirkni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Beint í mark.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 20:15

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eiginlega sjálfsmark !!!!!

Haraldur Haraldsson, 10.10.2011 kl. 00:53

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er hundfúlt að þurfa að ganga á landið. Þar er ég algerlega sammála þér Ómar. Ég ýti hins vegar þeirri spurningu til þín, hvernig á hérlent atvinnulíf að byggjast upp á næstu 30 árum? Þ.e.a.s. eftir að okkar dögum lýkur. Á hverju á fólk að lifa og annað þess háttar. Það er nefnilega ekki nóg að koma einungis með ábendingar um það sem miður er verið að gera, heldur þarf einnig að benda á hvernig betur má gera, en ná sama árangri. Hvað viltu gera??? 

Halldór Egill Guðnason, 10.10.2011 kl. 04:47

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvarvetni í heiminum er horft með velþóknun til Íslendinga, fyrir brautryðjendastarf þeirra í jarðvarmavirkjunum.

En Ómar...... neeee ei! Hann finnur þessu allt til foráttu, sem og öðrum grænum orkukostum. Þeim fer óðum fækkandi sem nenna að taka mark á svona bulli.

Það er langt síðan að það var útskýrt hvað er í gangi varðandi þessa jarðskjálfta. E.t.v. er meira um þá en reiknað var með. Það fer í þekkingarbankann, sem væri vel að merkja, galtómur, ef umhverfistalibanarnir fengju að ráða.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.10.2011 kl. 09:27

5 identicon

Er þetta grænn orkukostur? Hann er alla vega ekki endurnýjanlegur.

Annars, talandi um orkukosti....það var frétt um daginn um mjög spennandi kost, sem er sjávarstraumsvirkjun neðansjávar, - ný hönnun.

Af þessari orku er feiknarmikið umhverfis landið.

En, ég týndi hlekknum á fréttina, og þakklátur væri ég ef einhver myndi finna hana.

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 10:32

6 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Í minningunni Ómar finnst mér að þú hafir verið að hampa gufuaflvirkjunum og vilja þær frekar en stóru vatnsaflsvirkjarnir.  En í þá daga voru menn ekkert að spá í hvað væri í gufunni.

Er ekki málið að nota affallsvatnið í gróðurhúsa ræktun. 

Hirða kolefni og vetni úr gufunni fyrst

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 10.10.2011 kl. 10:50

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef alla tíð verið mjög stoltur af forystu okkar í nýtingu jarðvarma, sem byggst hefur á brautryðjendastarfi þeirra sem gerðu fyrstu hitaveituna og síðan á vísindamönnum í fremstu röð.

En það eru einmitt þessir sömu vísindamenn sem hafa fundið út að að hvaða leyti hægt er að ganga allt of langt í hömlulítilli dælingu orkunnar upp úr jörðinni og ýmsum öðrum atriðum.

Því miður  ana ráðamenn á undan vísindamönnunum og hafa gert það alla tíð, allt frá því er menn höfðu að engu þá aðferð við nýtingu jarðvarmans sem Guðmundur Pálmason setti upp á áttunda áratug síðustu aldar.

Nú er tvennt gert rangt: Upplýsingar vísindamanna um það hvernig hægt sé að hafa jarðvarmavirkjanir sjálfbærar eru að engu hafðar og virkjað fyrst og spurt svo varðandi affallsvatnið og not og afleiðingar niðurdælingar.

Nú er upphafinn söngurinn um að ég sé á móti jarðvarmavirkjunum bara af því að ég bendi á þetta.

Setjum svo að einhver hefði haft miklar athugasemdir við of fáa björgunarbáta á Titanic og líka við það að sigla á fullri ferð um viðsjárvert ísjakasvæði, auk þess sem þessi "úrtölumaður" hefði véfengt það að skipið gæti ekki sokkið.

Líklega hefði þessi maður verið talinn vera "úrtölumaður" og "á móti skipasamgöngum" miðað við þau rök sem ég sé hjá sumum hér.

Ómar Ragnarsson, 10.10.2011 kl. 15:21

8 identicon

Það var gert grín að Alfreð, þegar hann setti upp tilraunaeldi á ferskvatnsrisarækju í Ölfusinu, með affallsvatni. Það var kannski ekki svo vitlaus hugmynd?

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband