Lendir alltaf á almenningi.

Fyrir 100 árum stefndi í óhjákvæmlega heimsstyrjöld sem háð yrði vegna hagsmuna valdagírugra heimsveldisssinna í stjórnmálum og fjármálum.

Valdsmenn höfðu komið sér upp alveg nýjum möguleikum tl þess að búa til allt að tífalt stærri heri en áður höfðu þekkst, og í löndum um allan heim smöluðu ráðamenn ungum mönnum í blóma lífsins í milljónatugatali til þess að þeim yrði slátrað í stríði, sem átti að verða "stríðið, sem endar öll stríð", en varð í staðinn forleikur að enn verra stríði tuttugu árum síðar.

Þessi ungu menn voru hluti af því, sem kallað er alþýða, almenningur eða þjóð og fórnir hins tilgangslausa stríðs lenti á þessum hluta almennings og þar með á alþýðunni í meira mæli en dæmi voru um áður.

Í síðari heimsstyrjöldinni var blóðbaðið síðan með loftárásatækni fært út til allra aldurflokka þjóðanna, allt frá kornabörnum til gamalmenna.  Enn og aftur var það almenningur sem afleiðingar stríðsins lentu á.

Fjármálastefna og hervæðing Þýskalands frá og með 1934 byggðist á þeirri forsendu að hernema önnur lönd og færa þau undir yffirráð þýsku stjórnarinnar svo að hægt væri að mergsjúga þau og fjarmagna hið nýja heimsveldi germanskra ofurmenna. 

Öðruvísi var ekki hægt að standa undir hinni dæmalausu hervæðingu. Þarna ráku hinir þýsku valdamenn stefnu, sem frá upphafi hlaut að bitna á almenningi í mörgum löndum þegar upp yrði staðið en gagnast auðræðinu og fáræðinu, valdastéttinni og stórfyrirtækjunum.

Nú er að skella á óhjákvæmlegt hernaðarástand í fjármálum heimsbyggðarinnar vegna þess að náð hefur verið hámarki nýtingar olíunnar og önnur auðlindanýting mun á hverju sviðinu eftir annað ná hámarki á fyrri hluta þessarar aldar.

Leiðin liggur aðeins niður á við og allar hinar takmörkuðu neyðarreddingar sem verða einkenni lungans af þessari öld, munu eins og fyrri daginn bitna á almenningi.

Það sést best á viðfangsefni leiðtoga Þýskalands og Frakklands á fundi þeirra í dag, sem er að þýskur almenningur fyrst og fremsat verði látinn borga brúsann fyrir björgun bankanna í Frakklandi og fjármálakerfis fleiri þjóða ESB.

Hvar sem litið verður í heiminum verður það hinir varnarlausu milljarðar alþýðufólks, sem fjármálakreppa af völdum auðlindakreppu mun bitna harkalega á.  

Því miður virðist ekkert hafa breyst síðustu 100 árin í þessu efni.

Í stað beinnar hervæðingar er komin ný tegund hervæðingar, "fjárvæðing" þar sem almenningi verður að vísu ekki gert að fórna lifi og limum heldur lífskjörum og eigum.

Ísland var fyrsta landið sem fékk að finna af þessu smjörþefinn, en áður en lýkur mun engin þjóð heims sleppa við þetta nýja stríð.

Í aldarbyrjun var sagt að á þessari öld myndu stríð við hryðjuverkamenn taka við af stríðum síðustu aldar.

En hið nýja auðlindakreppustríð á eftir að verða stríð okkar aldar og því miður er hætt að það muni framkalla hefðbundin vopnuð stríð þar sem beitt verði allt frá byssuhólkum tll gereyðingarvopna.


mbl.is Merkel og Sarkozy funda um skuldakreppuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband