23.10.2011 | 20:21
Föst í hinni "gríðarmiklu orku" og hinum "geysimörgu tæknistörfum."
Meðan þess sem búið er að syngja síbyljusöng um í áratugi er hin "gríðarmikla orka" í Þingeyjarsýslum og hin "geysimörgu tæknistörf" sem stóriðjan skapi.
Í þessu fari er Valgerður Sverrisdóttir (Álgerður Nótt) föst.
Á tímabili var fullyrt fyrir norðan að minnst 1000 megavött af jarðvarmaorku væri í Þingeyjarsýslum þótt allar rannsóknir og reynslu skorti til að færa rök að því.
Nú kemur í ljós að þessi tala er minnst fimm sinnum minni. Þá er gert ráð fyrir tvennu: Að hægt sé að reisa 90 megavatta virkjun í Bjarnarflagi og stækka Kröfluvirkjun um annað eins.
Hvorugt er fast í hendi. Í 35 ár hefur ekki fundist lausn á sýruvandamálum í borholum í Kröflu.
Vaða á með hiuta virkjunarsvæðisins inn í Vítismó og stórskaða með því friðun Gjástykkis, ef henni fæst framgengt.
Eftir er að sjá hvernig þrítugföldun á virkjun í Bjarnarflagi, sem þegar hefur mengað Grjótagjá og stefnir í Mývatn getur virkað án þess að eyðileggja lífríki vatnsins.
Lausnin er sögð niðurdæling í aðeins 3ja kílómetra fjarlægð frá hótelunum og ferðamannastöðunum við vatnið og enginn veit hvaða áhrif niðurdæling hefur á jarðskjálfavirkni þar né heldur hve vel tekst til með að láta setja affallsvatnið niður í jörðina án þess að það hafi áhrif á Mývatn.
Rétt austan við Bjarnarflag er Hverarönd við Námaskarð, eina meiri háttar hverasvæðið á landinu sem liggur alveg við hringveginn og er ekki að sjá af mati vísindamanna að tryggt sé með öllu að það haldi sér þegar 90 megavatta orku verður pumpað upp í næsta nágrenni.
Í þeim efnum virðist eins og svo víðar hafa verið ákveðið að standa ekki við alþjóðlega skuldbindingu okkar Íslendinga varðandi það að náttúran eigi að njóta vafans.
Þar á ofan er það einróma niðurstaða íslenskra sérfræðinga á sviði jarðvarma, að í stað þess að látið sé nægja að reikna með 50 ára endingu hvers virkjanssvæðis þyrfti þessi tími að verða minnst 2-300 ár til þess að þessi nýting standist kröfur um sjálfbæra nýtingu og endurnýjanlega orku, sem er þriðja síbyljan sem er kyrjuð.
Og þá er ég komin að hinum "geysimörgum tæknistörfum" og "forsendu fyrir fjölgun starfa" sem stóriðjan á að skapa.
Í fróðlegu erindi Guðmundar Gunnarssonar um þetta efni hvað snertir rafiðnaðarmenn, sem ég hlýddi á í gær, kom fram að síðustu 30 ár hefur störfum á því sviði fjölgað úr 2000 í 6000.
En ekkert af þeirri fjölgun hefur komið frá stóriðjunnni heldur eingöngu frá öðrum tæknigreinum og þjónustu.
Vonbrigði að Alcoa skuli hafa hætt við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvers vegna er ekki aukin grænmetisræktun á svæðinu? Nægt er nú heita vatnið, eða er það ekki? Og orkan. það yrði örugglega minni tilkostnaður og skapar ekki síður störf en álverksmiðjan, og svo var meiningin hjá Alcoa að fá raforkuna nánast gefins í verkefnið. Getum við ekki eins notað þessa orku sjálf, í aukna ræktun, heldur en að gefa orkuna úr landi? Yrði þannig raforku-fórn til Alcoa ekki of dýr fórn fyrir álvers-störf þegar upp er staðið? Ég veit þetta ekki, en bara spyr?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 23.10.2011 kl. 20:51
Sæll Ómar.
Hvað áttirðu við með því þegar þú varst á sínum tíma að berjast á móti Kárahnjúkavirkjun að rétt væri að hætta við hana og virkja frekar jarðhitasvæðin í Þingeyjarsýslum til að fá orku fyrir árlver Alcoa í Reyðarfirði? Viltu svara mér?
Svo verðurðu að reikna með því að einhverjir kunnugir staðháttum lesi bloggið þitt og passa þig að fara með rétt mál
Stefán Stefánsson, 23.10.2011 kl. 21:20
Og hver ætti að éta allt það grænmeti?
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 21:22
Það eru svo mörg tækifæri fyrir Norðan.
Þingeyingar hafa verið að nýta sér þau. Núna þegar Alcoa hefur loksins tilkynnt opinberlega að fyrirtækið er hætt við álver, þá geta þeir farið að snúa sér að nýta enn fleiri tækifæri.
Viðtalið við Valgerði var svolítið sérstakt og ég vona að það lýsi ákveðnum hugsanagangi sem er á förum. Orkufrekur iðnaður er ekki eitthvað sem Íslendingar eiga að byggja.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 21:23
Námaskarð eina meirihátar hverasvæðið við hringveginn? Hveragerði/Ölfus er við hringveginn.
Það hefur ekki veri gefið út að ekki sé næg orka í Þingeyjarsýslu, heldur einungis að ekki er hægt að lofa nema 200 mw á allra næstu árum.
Hvar finn ég þessa "alþjóðlegu skuldbindingu" okkar að náttúran eigi að njóta vafans? Hver skrifaði undir þessa skuldbindingu fyrir hönd íslensku þjóðarinnar? Þessi skuldbinding er ansi víðtæk þykir mér og stenst varla mannréttindalög. Ég hef grun um að þessi skuldbinding sé ekki til, nema í einhverjum draumórum hjá öfga náttúruverndarfólki.
Og svo er það "fróðleikurinn" hans Guðmundar Gunnarssonar, formanns rafiðnaðarsambandsins og yfirlýstur álversandstæðingur til margra ára. Þetta er ekki fróðleikur, Ómar, heldur hrein lýgi í manninum og ótrúlegt ef hann kemst upp með þetta af umbjóðendum sínum, rafvirkjum.
Ekki eru einungis fjölda rafiðnaðarmanna í vinnu beint fyrir álverin, heldur einnig fjöldi í raforkugeiranum í heild sinni, eingöngu vegna stóriðjunnar. Sömu sögu má segja um t.d. verkfræðinga, en nýlega kom fram að um 200 þeirra eru í vinnu bæði beint og óbeint hjá álfyrirtækjunum og þá er ótalið fjöldi þeirra hjá raforkufyrirtækjunum og öðrum fjölmörgum afleiddum störfum.
Og svo tillaga Önnu Sigríðar í fyrstu athugasemdinni. Dæmigerð "eitthvað annað" tillaga.
Þuríður Bachmann, þingmaður VG hér eystra, vildi hefja svepparækt á Fljótsdalshéraði. Það var hennar svar, þegar hún var spurð að því hvað hún vildi heldur gera í staðinn fyrir álverið á Reyðarfirði. Engar kröfur virðast kjósendur Vinstri grænna gera til þingmanna sinna um þekkingu á iðnaðar og landbúnaðarmálum. Svepparæktendur hafa á köflum átt erfitt uppdráttar á svæðum sem hafa verið byggð upp sérstaklega í þessum tilgangi, t.d. á Flúðum í Hrunamannahreppi. Þar er orkan til þessara hluta bæði sjálfbær og ódýr og auk þess er svæðið við bæjardyr aðal markaðssvæðisins. (80% neytendanna)
Þurríður vildi að Héraðsmenn settu peningana í þá samkeppni og flytja með dýrum dómi vöruna á SV-hornið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2011 kl. 22:11
Flott með grænmetið, ég get t.d. étið endalaust af agúrkum án þess að verða saddur. Ég er ekki eins duglegur með tómatana.
Annars mætti kanski athuga að rækta eitthvað annað, ekki einblína endilega á það sem allir eru að rækta. Á Flúðum fékk einn einu sinni hugmynd sem engum hafði dottið í hug að myndi ganga og fór að rækta sveppi. Ég hef heyrt af einhverjum Hollending sem á gróðurhús hérna einhversstaðar sem hann leigir fyrir hjólhýsi á veturna en ræktar einhverskonar afbrigði af túlipönum á sumrin þar sem að birtan allan sólarhringing flýtir fyrir vexti þeirra og flytur þá alla út. Kanski mætti rækta bláber eða eitthvað framandi sem væri kanski hagkvæmt að flytja út með hagnaði. Kanski erfðabreytt bygg til sem inniheldur lyfjaprótin?
Það er orðið nokkuð ljóst að Álver verður ekki reist, þá er bara að bretta upp ermarnar, hætta að röfla og reyna að finna þetta eitthvað annað
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 22:18
Ég var einn af þeim sem fyrir fimm árum lét blekkjast af því, sem þá hafði verið haldið fram í nokkur ár á grundvelli rannsókna vísindamanna, að með djúpborunum væri innan fárra ára hægt að fá 5-10 sinnum meiri orku úr jarðvarmasvæðum en áður var hægt.
Það hefði þýtt að með slíkum borunum við Þeistareyki eina yrði hægt að fá orku fyrir 250 þúsund tonna álver í Reyðarfirði.
Frekar en að valda mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum sem hægt var að valda á þessu landi þótti mér þessi kostur illskárri, þótt það þýddi nokkurra ára frestun á gangsetningu álvers fyrir austan.
Þá, eins og æl síðan, hafa skoðanasystkin mín þurft að heyja örvæntingarfulla varnarbaráttu gegn hinni óstöðvandi stóriðju- og bankabóluhraðlest, sem hér var sett í gang árið 2002.
Í ljós kom, að djúpboranabyltingin, eins og ýmislegt fleira, var aðeins byggt á ágiskunum, og þegar loksins í hitteðfyrra fékkst erlent fé til þess að gera einhverja mikilvægustu tilraun í þessum efnum, sem hægt var að gera í heiminum til þess að fá úr þessu skorið, virtist mönnum vera svo mikið í mun að komast í átt að Vítismó og Gjástykki, að þeir boruðu þessa borholu við hliðina á holu, sem misheppnaðist 1975 og hlaut þá nafnið "Sjálfskaparvíti" !
Auðvitað komu þeir niður á kviku á 2ja kílómetra dýpi og tilraun, sem kostaði tvo milljarða króna á núvirði, var hent út um gluggann !
Með þessu ráðslagi var eyðilögð öll von um að fá frekari erlendan stuðning við þessa mikilvægu rannsókn og líkast til verður aldrei úr því skorið, hvort djúpboranir verði mögulegar.
Stóriðju- og virkjanafíklar Íslands hafa dregið okkur á asnaeyrunum of lengi og nú er komið mál til að staldra við og ná áttum. Og þótt löngu fyrr hafi verið !
Ómar Ragnarsson, 23.10.2011 kl. 22:19
Það er alveg ótrúlegt að lesa þetta svar þitt Ómar og sjá allt bullið sem veltur upp úr þér. Þú þarft að kynna þér hlutina aðeins betur áður en þú berð svona þvælu á borð fyrir almenning og fara rétt með staðreyndir..
Djúpborunarverkefnið www.iddp.is er í gangi og og standa íslensku orkufyrirtækin að því ásamt mörgum erlendum samstarfsaðilum. En það er bara búið að bora fyrstu holuna af þremur sem tilheyra verkefninu og er það holan í Kröflu.
Stefán Stefánsson, 23.10.2011 kl. 22:36
Krafla er klárlega verðmætasta tilraunaverkefni sem nokkurn tíma hefur verið farið út í. Hún er í dag grundvöllurinn af þeirri þekkingu sem þingmenn monta sig af á tyllidögum að sé að verðamætasta útflutningsvara.
Ef sjónarmið Ómars fengju að ráða, þá væri þessi þekking ekki til staðar.
"Náttúran verður að njóta vafans"
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2011 kl. 22:50
það á að byggja vindmyllur.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.10.2011 kl. 23:09
Já, líka
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2011 kl. 23:23
Ég byrjaði að lesa bloggið þitt hérna en hætti strax og ég sá þetta
"Í þessu fari er Valgerður Sverrisdóttir (Álgerður Nótt) föst." - hvað er þetta - ertu að reyna að vera fyndinn eða hvað. Mér fynnst þetta bara barnalegt í besta falli
rafngudmundsson (IP-tala skráð) 23.10.2011 kl. 23:43
Eiður Guðnason, þáverandi umhverfisráðherra, undirritaði Ríó-sáttmálann svonefnda á ráðstefnu Sþ í Ríó de Janero 1992, þar sem sjálfbær þróun og það að náttúran njóti vafans eru meðal atriða.
En auðvitað var þessi undirritun, ráðstefnan og sáttmálinn bara "draumórar hjá öfga umhverfisverndarfólki" og því bull og lygi hjá mér.
Hverasvæðið í Hveragerði stenst engan samanburð við Hveraröndina. Það get ég fullyrt eftir að hafa skoðað hverasvæðin í Yellowstone.
Ég hef ekki séð að enn hafi verið haldið áfram í framhaldinu af klúðrinu við Kröflu sem Stefán Stefánsson afgreiðir sem "allt bullið sem veltur upp úr" mér. Var þó skilmerkilega sagt frá þessari borun í fjölmiðlum og eftir u. þ. b. hundrað ferðir um þetta svæði veit ég vel hvar þessi hola er, hef fylgst með henni frá upphafi til þessa dags og tekið af henni myndir allan tíman og er vel kunnugt um það hvar "Sjálfskaparvíti" er.
En auðvitað er þýðingarlaust fyrir mig að segja þetta því að það er allt afgreitt sem "bull."
Verði haldið áfram með djúpborunarverkefnið er það vel og skal ég verða fyrstur manna til að fagna því.
Ómar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 00:43
"Ef sjónarmið Ómars væru til staðar væri þessi þekking (sem hefur fengist við Kröflu) ekki til staðar" segir Gunnar Th. Gunnarsson.
Þekkt röksemdafærsla að ef maður dirfist að benda á það sem orkumálastjóri og sérfræðingar hafa sagt í 40 ár, allt frá Guðmundi Pálmasyni til þessa daga um að jarðvarmavinnslan hlíti allt öðrum lögmálum en vatnsaflsvirkjanir hvað það snertir að fara þurfi að með gát og þolinmæði, þá er maður með þessum ábendingum orðinn á móti jarðvarmavirkjunum.
Ef ég dreg það í efa að rétt sé að við stefnum að því að framleiða sem allra fyrst 10-20 sinnum meira rafmagn handa álverum en við þurfum til eigin nota, þá er maður orðinn "á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu."
Í landinu eru 28 meðalstórar og stórar virkjanir og af þeim hef ég samþykkt 24. Samt skal ég teljast í hópi "öfga náttúruverndarfólks."
Tölur Guðmundar um fjölda rafiðnaðarmanna í orkugeiranum annars vegar og hins vegar í vegna annarra tæknigreina og þjónustu sem hann kemur með innan úr þeim verkalýðssamtökum sem hann hefur unnið fyrir í áratugi afgreiðir Gunnar Th. Gunnarsson umsvifalaust sem "hreina lygi."
Þú vilt sem sé meina að talan 2000, sem hann nefndi, sé "lygi", talan sé miklu hærri. Hvaðan hefur þú það?
Ómar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 01:03
Þú sagðir: "Rétt austan við Bjarnarflag er Hverarönd við Námaskarð, eina meiri háttar hverasvæðið á landinu sem liggur alveg við hringveginn"
...en svo breytir þú þessu í "Hverasvæðið í Hveragerði stenst engan samanburð við Hveraröndina", gott og vel en þetta er ekki það sama og í pistlinum.
Þú segir einnig: "..og er ekki að sjá af mati vísindamanna að tryggt sé með öllu að það haldi sér þegar 90 megavatta orku verður pumpað upp í næsta nágrenni."
Ég veit ekki hvort þú ert að misskilja eðli orkunnar í iðrum jarðar. Af orðum þínum má skilja að orkan sé bara tekin burt en það er nú einfaldlega ekki hægt. Hins vegar er forsenda nýtingarinnar að vatn sé fyrir hendi og niðurdælingin er m.a. til þess að viðhalda því í heita berginu á þeim stað sem borað er. Án þess að ég viti meira en hver annar, þá reikna ég með að niðurdælingu þurfi einnig, þó borað sé dýpra.
Það er hvergi orðað í neinum alþjóðlegum sátttmálum, "Ríó" eða öðrum, að "náttúran eigi að njóta vafans". Það er hins vegar talað um:
"Varúðarregluna sem kveður á um að ekki skuli ráðast í framkvæmd sem kann að hafa alvarleg áhrif á umhverfið nema að sýnt sé fram á að hún hafi ekki slík áhrif."
"Alvarleg áhrif" er almennt orðalag og verður ávalt túlkunaratriði og hefur lítil lagaleg áhrif eða bindandi áhrif.
Þú hefur eftir Guðmundi Gunnarssyni: "En ekkert af þeirri fjölgun (rafiðnaðarmenn) hefur komið frá stóriðjunnni (á síðustu 30 árum) heldur eingöngu frá öðrum tæknigreinum og þjónustu.
Þetta er ekki rétt. Guðmundur hlýtur að vita betur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2011 kl. 02:36
Ómar. Framkvæmdastjóri Landsvirkjunar hefur aldrei sagt að það verði ekki hægt að virkja nema 200MW fyrir austan. Hann sagði að ekki væri hægt að skrifa undir bindandi samning um sölu nema þessu magni,eins og er. Síðan þurfi að gera frekari tilraunir og aðrar rannsóknir í framhaldinu og vel mætti vera að mikið meyra afl komi í ljós og yrði virkjað. En það þyrfti að mæla álagsgetu hvers svæðis og finna út framleiðslu getu til langframa. Við höfum heyrt slíkar skíringar áður.
Eftir því sem þú segir vissir þú alla tíð að það væri komið niður á hraun á tveggja kílómetra dýpi á þessum stað sem borað var.
Ég votta þér virðingu mína fyrir slíka ofur visku. En er hola sem endar í bráðnu hrauni ekki jafn gild 4-5km ofurholu?. Ég vissi ekki annað en djúpborunar verkefnum hefði verið hætt ,en gleðst einlæglega að lesa að svo er ekki. Ég veit að þær eru tæknilega erfiðar , þrýstingur ofboðslegur og tæringar efnin í öðru veldi. En vandamálin eru til þess að leysa þau og það gera okkar verkfræðingar sem ég ber mikið traust til. Ef við getum komið í gang ofurþrýstings virkjunum. Þá mun Krafla svo sannarlega veita birtu og il eins og Sólnes gamli sagði forðum.
Snorri Hansson, 24.10.2011 kl. 02:46
Ég velti því fyrir mér, hversvegna Guðmundur og hans menn eyddu fjölmörgum klukkustundum (sennilega mörgum dögumeða vikum) í það að semja um kaup og kjör rafiðnaðarmanna við Alcoa ef að "engin" ný störf fyrir þá stétt fyrirfinnst í stóriðju.
Ég ber mikla virðingu fyrir þínum skoðunum Ómar og hef mjög gaman að lesa bloggið þitt þó svo að við séum ekki sammála um marga hluti, en þú átt að vita betur en þetta, í álverum hvort sem menn eru með eða á móti þeim er tæknimenntað og háskólamenntað fólk stór hluti af starfsfólki, eða vel yfir 30% Iðnmenntað fólk er einnig fjölmargt, svo ekki sé minnst á þá verktaka sem vinna á daglegum grunni við stóriðjuna en mjög sjaldan er minnst á þegar talað er niður til þeirra fyrirtækja sem í þessum geira starfa, en verktakar sem hafa allt sitt lífsviðurværi af stóriðju eru líklega jafnmargir og starfsmenn þessara fyrirtækja og stór hlutur af þeim eru iðn eða tæknimenntaðir.
En varðandi orkuna sem er í iðrum jarðar í Þingeyjarsýslum, þá er nú hverjum manni ljóst að ekki er jafn einfalt að meta afl úr jarðvarma eins og úr vatsafli og því rétt að stíaga varlegar til jarðar þar, en það hefði engu að síður mátt framlengja viljayfirlýsingar og gera jafnvel einhverskonar samstarfssamning um rannsóknir eða undirbúning öllum til heilla.
Eiður Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 09:48
Eitur ( Arsenik úr Hellisheiði ) og eitraðar gufur eru vandamál gufuaflsvirkjana.
Aðalsteinn Agnarsson, 24.10.2011 kl. 09:59
Trúið mér, það eru vindmyllurnar sem eru málið. Framtíðin. Hægt að fá EY styrk sennilega til byggja þær þarna í þingeyjarsýslum. Nóg er loftið.
Ennfremur er hægt að brenna trjákrurl til orkuframleiðslu og á sennilega að fara að pófa það í Grímsey þar sem enn er kynt með olíu.
Svo á ekki að nota orkuna í eitthvað svona rugl dæmi eins og alþjóðleg stórfyrirtæki. Á að nota han í allt annað en það. Skrítið með íslendinga suma að þeir fá alltaf glígju í augun ef alþjóðleg stórfyrirtæki er um að ræða. þetta Alkóa td. gæti bara farið á hausinn. þeir eiga í vandræðum núna er sagt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 24.10.2011 kl. 10:22
Já, það gæti líka fallið loftsteinn á hausinn á okkur . Alcoa er 100 ár gamalt fyrirtæki sem gerði bindandi samning til 40 ára við LV.
Ef samsteypan fer á hausinn, hversu líklegt er að verksmiðjunni á Reyðarfirði verði lokað? Ég held að það séu engar líkur á því.
Moka yfir verksmiðjuna? Nei, ætli það.
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2011 kl. 11:07
2000 er tala rafiðnaðarmanna í örkugeiranm 1980 og 2000 er samsvarandi tala 2010. Þar með ekki sagt að þetta séu sömu störfin allan tímann. Einhver hafa lagst af og önnur ný bæst við í staðinn.
Ómar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 20:55
Framkvæmdaraðili þarf að sýna fram á að framkvæmdin hafi ekki alvarleg áhrif. Sönnunarbyrðin er því öll í þá átt og þess vegna er talað um að náttúran njóti vafans.
Djúpborunarholan við Kröflu er aðeins 1300 metra frá stað þar sem gaus 1975. Samkvæmt fréttaflutningi af boruninni bar hún ekki árangur sem djúpborunarhola eins og raunar hlýtur að liggja í augum uppi, hitinn í bráðinni kviku er óviðráðanlegur og skapar enga gufuorku.
Ómar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 21:11
Fjörugar umræður og greinilegt að áhugamenn um álbræðslur vilja ógjarnan að þeir verði slegnir út af laginu.
Þegar eg er á ferð um Austurland með ferðahópa og segi þeim frá hreindýrum, vaknar mikill áhugi fyrir að fá að skoða þau. Það er unnt á einum stað, Klausturseli en kostar töluverðan krók og auk þess dýrmætan tíma þannig að þangað hefi eg aldrei komið. Mér skilst að þartilbær yfirvöld hafi ekki verið par hrifin af þessu framtaki bóndans þar enda virðist vera auðveldara að fá leyfi fyrir að byggja álbræðslu og reka hana fremur en að hafa nokkur hreindýr til að sýna ferðafólki.
Í sumar sem leið kom eg tvívegis við á Möðruvöllum og í bæði skiptin gátu ferðamenn séð íslenskan ref sem þar var. Þessi yrðlingur vakti óskipta athygli útlendingsins og voru mörg hundruð ljósmynda teknar af dýrinu.
Aldrei hefi eg verið spurður um að fá að skoða álbræðslur. Skiljanlega. En útlendir ferðamenn vilja sjá íslensk dýr sem þeir hafa ekki tækifæri heima hjá sér.
Unnt er að sjá hreindýr í Húsdýragarðinum í Reykjavík auk framangreindu Klaustursseli. Einkennilegt er að svo virðist sem enginn hafi áhuga fyrir að auka ferðaþjónustu á Austurlandi með því að sækja fast að fá leyfi fyrir að halda nokkur hreindýr í gerði til að sýna ferðafólki. Eitt er víst að það myndi draga vel að og unnt væri að byggja upp fjölbreytta þjónustu fyrir ferðafólk sem skapað gæti kannski tug manns atvinnu yfir sumartímann með ýmsu tengdu eins og handverki og listiðnaði. En það er kannski ekki það sem hávaðamenn meðal áltrúboðsins mikla vilja. Það er eins og ekki sé unnt að byggja upp atvinnulíf á Austurlandi án þess að álbræðslur komi við sögu.
Guðjón Sigþór Jensson, 24.10.2011 kl. 23:50
Mín framtíðarsýn fyrir þetta svæði á sínum tíma var að leggja veg upp úr Hrafnkelsdal inn að Fremri-Kárahnjúk með afleggjara niður að Hafrahvammagljúfri við Niðurgöngugil.
Inn í Lindur lægi slóði og þaðan göngustígur niður að Rauðuflúð með göngubrú yfir hana svo að fólk gæti gengið niður með hinum marglitu Stöpum og Arnarhvoli og inn að kláf á Kringilsá og upp með fossum hennar um Stuðlagátt að Töfrafossi.
Þegar ég sigldi síðar á Örkinni um allan dalinn í ótal hæðum sá ég hvernig hægt hefði verið að gera frábæra göngustíga beggja vegna árinnar í mismunandi hæðum, allt að 100 kílómetra langa samtals á svæði, sem hafði alla burði vegna einstæðra sköpunarverka Jöklu til þess að komast á heimsminjaskrá UNESCO eins og Louis Crossley, sem bjargaði Frankliná á Tasmaníu frá virkjun, benti á.
Það var ekki fyrr en með siglingunni á Örkinni sem ég kynntist fyrst þessu svæði á þann hátt, að ég er eini Íslendingurinn, sem það hefur gert svo ítarlega.
Senn kveð ég þetta jarðlíf og tek þá vitneskju með mér í gröfina, svo að landar mínir geti andað léttara. Nema að einhvern tíma komi sá tími að kvikmyndin "Örkin" verði fullgerð og sýnd.
Þá fyrst gæti þjóð mín séð hvað hún gerði þarna.
Hún gat ekki hugsað sér að hægt væri að gera "eitthvað annað" við þetta svæði en að tortíma því í 180 metra djúpa drullu til eilífðar.
Ómar Ragnarsson, 25.10.2011 kl. 00:04
Hvet þig eindregið að halda áfram og ljúka við þessa heimildamynd Ómar. Því miður bar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki þá gæfu að sjá þennan mikla möguleika sem þú hefur bent á. Og flumbrugangurinn endaði með hneykslanlegri kollsteypu græðginnar sem því miður hluti þjóðarinnar vill ekki bera ábyrgð á.
Við reyndum að koma í veg fyrir þetta allt. Ekki var á okkur hlustað. Þó mátti hver sem vildi heyra. En gróðafíknin og áhuginn fyrir einhæfri atvinnu var skynseminni yfirsterkari. Og stór hluti þjóðarinnar fylgdi þessari eyðingu í blindni.
Góðar stundir en án fleir álbræðslna!
Guðjón Sigþór Jensson, 25.10.2011 kl. 00:28
Það er magnað að lesa þetta eftir ykkur félaga, Guðjón og Ómar. Þið eruð algjörlega úr takti við raunveruleikan.
Þið talið um að eitthvert fólk sem hafi sérstakan áhuga á "álbræðslum". Ég þekki enga slíka en íbúar á Mið-Austurlandi eru hins vegar afar þakklátir þau tækifæri sem hafa skapast með tilkomu verksmiðju Alco Fjarðaáls á Reyðarfirði.
Guðjón sér mikil tækifæri í því að sýna útlendingum hreindýr og furðar sig á að bændur skuli ekki bjóða upp á slíkt.
Ef flytja á dýr inn á svæði sem hugsað er sem húsdýragarður verður að skoða sjúkdómasögu bæjarins sem það er vistað á. Þá verður héraðsdýralæknir að veita samþykki fyrir flutningi, auk þess sem leyfi ráðuneytisins þarf að liggja fyrir. Mjög fá fordæmi fyrir leyfisveitingum af þessu tagi.
Einhverjir muna e.t.v. eftir móðurlausa hreindýrskálfinum sem vistaður var á bænum Sléttu í Reyðarfirði sumarið 2009. Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, hótaði að senda dýralækni að sléttu til að aflífa kálfinn, vegna þess að tilskilin leyfi til að halda hann voru ekki fyrir hendi.
Ef það væri raunhæft og arðbært að vera með húsdýragarð á Austfjörðum, þá væri búið að stofna einn slíkan. En Guðjón er alveg með þetta á hreinu, enda segir hann:
"Eitt er víst að það myndi draga vel að og unnt væri að byggja upp fjölbreytta þjónustu fyrir ferðafólk sem skapað gæti kannski tug manns atvinnu yfir sumartímann með ýmsu tengdu eins og handverki og listiðnaði."
Guðjón er greinilega mikill viðskiptasnillingur!
Með þessari hæðni er ég þó ekki að segja að fólk eigi ekki að reyna þetta, enda er það gert nú þegar. Að vísu hafa einhverjir farið á hausinn við slíkar tilraunir og ekki hafa störfin verið talin í tugum, eins og Guðjón gerir... en samt
Þeir sem aka um Austurland sjá vilt hreyndýr víða, ef þeir hafa augun hjá sér og leiðsögumenn eins og Guðjón eiga auðvitað að vita þetta.
Það var aldrei meiningin að verksmiðjan á Reyðarfirði yrði "tourist attraction". Náttúran á Austfjörðum er það hins vegar og hún hvarf ekki með tilkomu verksmiðjunnar. Karahnjúkavirkjun hefur aftur á móti mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og um það vitnar ferðamannafjöldinn á staðinn.
Ómar vildi gera 100 km. langa göngustíga og göngubrýr yfir Hafrahvammagljúfur og akvegi inn á svæðið. Falleg framtíðarsýn hjá þeim gamla, en þó honum auðnist það ekki í þessu jarðlífi, þá eru nú einhver önnur svæði eftir í landinu sem ekki hafa verið lögð undir "álbræðslur", sem gætu nýtt sér krafta og hugmyndir hans hvað þetta varðar.
Reyndar er það svo að töluvert fjármagn þarf í svona verkefni og það þarf að koma úr ríkissjóði. Margra ára barátta fyrir mannsæmandi túristavegi að Dettifossi hefur nýlega skilað árangri. Á meðan hafa vegabætur á þjóðvegi 1 verið settar á ís.
Mér skildist á fréttum að þér hefði verið gefnar einhverjar miljónir til að ljúka myndinni þinni, Ómar. Fóru þeir peningar í "eitthvað annað"?
Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 10:14
Djúpborunarverkefnið er í fullum gangi. Sjá vefsíðuna www.iddp.is Iceland Deep Drilling Project.
Þarna birtast reglulega fréttir. Siðasta fréttin er dagsett september 2011 og þar má sjá áhugaverðar videómyndir frá prófunum.
Það tekur auðvitað tíma að ná tökum á þessari nýju tækni, en við eigum mjög færa verkfræðinga og vísindamenn sem kunna til verka.
Við fjórðu vídómyndina stendur: "Video clip: This video clip shows the transparent superheated steam flow ca. 12 h after opening. T: 410°C, P: 40 bar, H: 3150 KJ/Kg, Power output potentially 30-40 MWe. The well was closed 11. August for modification on the flow line. Wet scrubbing pilot test will begin about mid-September 2011".
Sem sagt, þessi fyrsta (grunna) djúpborunarhola gæti framleitt 30-40 MW raforku, sem verður að teljast mikið. (MWe stendur fyrir Mega-watts electrical). Gufan er 410°C heit og þrýstingurinn 40 bör.
Þetta lofar vissulega góðu og full ástæða til að gleðjast .
.
Öll fréttin af þessum prófunum er hér.
Ágúst H Bjarnason, 26.10.2011 kl. 15:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.