6.11.2011 | 13:38
Ég hélt að tilgangurinn væri ný vinnubrögð.
Tryggvi Þór Herbertsson sér engan tilgang í framboði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til formennsku í Sjálfstæðisflokknum af því að enn bóli ekki á neinum umtalsverðum málefnaágreiningi hennar og Bjarna Benediktssonar.
Auðvitað væri það æskilegt í augum margra að fram kæmi stefnumunur hjá Bjarna og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur svo að það auðveldaði landsfundarfulltrúum valið.
En það er fleira sem hangir á spýtunni og má í því efni nefna framboð Davíðs Oddssonar gegn Þorsteini Pálssyni 1991. Þar stóð rimman ekki um umtalsverðan ágreining ef ég man rétt, heldur um það hvor þeirra yrði sterkari og árangursríkari leiðtogi.
Þar vó þungt í mati manna hve glæsilegur ferill Davíðs hafði verið sem borgarstjóri.
Á sama hátt og ferlill Davíðs sem borgarstjóra var sterkasta tromp hans 1991 sýnist mér sterkasta tromp Hönnu Birnu sé það hvernig hún og allir borgarfulltrúar tóku sig saman um samvinnustjórnmál í stað átakastjórnmálanna, sem höfðu komið borgarstjórn Reykjavíkur niður á lægsta botn íslenskra stjórnmála.
Þetta tromp hennar er að vísu gerólíkt trompi Davíðs, sem byggðist á sterkum foringjahæfileikum í gamalli herforingjahugsun stjórnmála þess tíma, að byggja upp sterka stöðu í átakastjórnmálum og valta yfir andstæðinga.
Tromp Hönnu Birnu er gerólíkt, forystuhæfileikar sem byggjast á því að laða ólíkt fólk til samvinnu um úrlausn erfiðra viðfangsefna þannig að allir hafi sóma að.
Að sjálfsögðu áttu minnihlutaflokkarnir jafn mikinn þátt í þessu á borgarstjóraárum Hönnu Birnu og meirihlutinn, sem studdi hana til valda, en fram hjá því verður samt ekki komist að miklu olli, hvaða þýðingu leiðtogahlutverk og sameingarhlutverk borgarstjórans hafði.
Mér sýnist fljótt á litið að vinnubrögðin í borgarstjórn á þessum "valdaárum" Hönnu Birnu hafi verið um margt svipuð þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð í Stjórnlagaráði; - þ.e. að hafa samvinnuvilja, vinnugleði og drengskap að leiðarljósi.
Hvað vinnubrögð á Alþingi áhrærir er hægt að orða það með andstæðunum "vinnuþing - átakaþing."
Ég hefði haldið að tilgangur framboðs Hönnu Birnu Kristjánsdóttur væri sú að hún vildi innleiða ný vinnubrögð og hugsun í stjórnmálin sem byggðist á því að stjórnmálamenn séu kosnir til að leysa ákveðin verkefni af hendi sem þjónar og ambáttir almennings en ekki sem drottnarar í embættum í þeim gamla skilningi að embætti væru vegtyllur í framapoti.
Ég skástrika orðin ambátt og embætti, þvi að bæði þýða það sama, þjónusta við þjóðina.
Ég held að það hljóti að skipta miklu máli fyrir framboð og gengi Hönnu Birnu hvort henni tekst að koma þessu skýrt á frambæri ef enginn málefnagreiningur sem máli skiptir kemur fram.
Sér engan tilgang með framboði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir þetta.
Jóhanna Magnúsdóttir, 6.11.2011 kl. 14:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.