6.11.2011 | 13:45
Þarf að sannfæra aðra um sérstöðu sína.
Ég er varla búinn að blogga um ummæli Tryggva Þórs Herberssonar um framboð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þegar frétt kemur um fundaherferð hennar um landið.
Þetta getur orðið erfið fundaferð því að reynt getur á þekkingu hennar á landshögum og sérhagsmunum á hverjum stað.
Ég vitna í síðasta blogg mitt um sterkasta tromp hennar sem hlýtur að felast í því að hún sannfæri Sjálfstæðismenn um að hún sé þess megnug, eins og hún var í borgarstjórn Reykjavíkur á erfiðustu árum hennar, að laða fram ný og árangursríkari samvinnu- og samræðuvinnubrögð í stjórnmálum en hér hafa ríkt sem geti breytt Alþingi þannig að það losni við stimpilinn átakaþing og fái í staðinn stimpilinn vinnuþing.
Það verður ekkert áhlaupaverk að breyta ásýnd Alþingis því að landsstjórnmál eru miklu flóknari og erfiðari við að eiga en sveitarstjórnarmál í einstökum byggðarlögum og því ekki sjálfgefið að stjórnmálamaður, sem náð hefur góðum árangri á sveitastjórnarstiginu, nái samsvarandi árangri í landsstjórnmálum.
Hanna Birna í herferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Halló, Ómar ....að laða fram ný og árangursríkari samvinnu- og samræðuvinnubrögð í stjórnmálum en hér hafa ríkt sem geti breytt Alþingi þannig að það losni við stimpilinn átakaþing og fái í staðinn stimpilinn vinnuþing...... vá, hvílíkur orðaflaumur. Það verður enginn Sjalli, kúlulána Tryggvi Þór eða Valhallar Hanna Birna, sem taka fyrstu skrefin í þá átt sem þú talar um. Vertu ekku svona naive drengur. Ertu fæddir í gær?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.11.2011 kl. 14:12
Ég minni þig á að í augum margra var Hanna Birna bara "kjaftagleið strengjabrúða, þjálfuð í Valhöll af Kjartani Gunnarssyni" þegar hún kom fyrst fram á sjónarsviðið í borgarstjórnmálunum.
Enginn átti því von á neinu nema áframhaldandi átakastjórnmálum í borgarstjórn þegar hún tók við embætti borgarstjóra og svo virtist sem kjörtímabilið 2006-2010 yrði frá upphafi til enda algerlega dæmalaust klúður.
Sá sem hefði haldið einhverju öðru fram hefði verið talinn "fæddur í gær" og "naive".
Það þurfti að vísu tvo til, bæði meirihluta og minnihluta, en hið ótrúlega tókst.
Því miður hafa fjölmiðlar og fólk meiri áhuga á hasar og dramatískum átökum heldur en tíðindalitlu samvinnuátaki ólíkra stjórnmálaafla, því að umbrot og ólga eru fréttnæmari.
Þess vegna stóð almennt vanhæfi stjórnmálamanna upp úr í huga kjósenda í byggðakosningunum 2010.
Ómar Ragnarsson, 6.11.2011 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.