22.11.2011 | 23:47
Upprunalegu merkingu orðanna breytt.
Confirmation heitir sú athöfn á erlendu máli, þegar fermingarbarn staðfestir skírn sína til kristinnar trúar og játar að trúa á Jesúm Krist og að vilja leitast við að hafa hann að leiðtoga lífs síns.
Confirmation var þýtt með íslenska orðinu ferming, sem kannski voru mistök í sjálfu sér, því að réttara hefði verið að nota orðið "staðfesting".
Fyrir bragðið eru haldnar svonefndar borgaralegar fermingar hér á landi, en varla væri hægt að halda sambærilega athöfn í nágrannalöndum okkar í samræmi við evangeliska lúterska trú og kalla þá athöfn "játningu" eða "staðfestingu" sem höfð er um hönd hjá trúlausu fólki.
Á svipaða lund hefur farið um orðið að skíra, sem er íslensk þýðing á erlendu orði sem er "to baptize" á ensku.
Þetta er orð sem upphaflega var notuð um þessa kristnu athöfn þar sem tækifærið var í áranna rás notað til að gefa viðkomandi nafn.
Samkvæmt því gengur það hvorki upp að skíra dauða hluti né heldur að aðrir en prestar geri það, ef viðkomandi fólk er kristinnar trúar eða gengur henni á hönd.
En samt eru leikir menn og jafnvel utan kristni að skíra þetta og skíra hitt, jafn dauða hluti sem dýr.
Borgaralegar fermingar vinsælar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar,
Ég þakka þér fyrir góða grein um málefni þetta. Mér hefur alltaf fundist þessi "borgaralega" ferming hálf furðulegt fyrirbæri og líklegast að Siðmennt sé með þessu að gera sjálfa sig að einhverskonar mótvægi við Þjóðkirkjuna. Vil ég í því samhengi vitna í frétt sem birtist um málið á textavarpinu þar sem talað var um "góðan árangur" í borgaralegum fermingum. Í hverju felst sá árangur?
Ég hef alltaf skilið það sem svo að Siðmennt sé vettvangur fyrir trúleysingja en eins og þú bendir réttilega á þá er "fermingin" einmitt trúarleg athöfn. Á heimasíðu Siðmenntar eru birtar ýmiskonar rangfærslur sem vert er að bregðast við, þær eru iðulega á þá leið að trúað fólk er sett í þá stöðu að þurfa að verja lífsskoðun sína, meðan því er haldið fram að trúlausir þurfi þess ekki. Það er auðsýnt á öllu að Siðmennt reynir að fylla í það tóm sem myndast þegar æðri máttur er tekinn í burtu og eftir stendur kaldur efnisheimurinn, tómur og tilgangslaus. En skyldi það takast í raun og veru?
Orðið skíra er komið af gríska orðinu "baptiso" og það þýðir "að fara í kaf". Enda framkvæmdi hin kristna frumkirkja niðurdýfingaskírnir þar sem, eins og þú bendir réttilega á, menn játuðu trú sína á Jesúm Krist sem leiðtoga lífs síns. Á þeim tíma þurfti enga "eftirá staðfestingu" eða "fermingu", niðurdýfingaskírnin var nóg.
Valur Arnarson, 23.11.2011 kl. 09:53
Ég ber fulla virðingu fyrir hverri þeirri lífsskoðun eða trú sem er jákvæð og uppbyggjandi, þar með talið vel þenkjandi og góðu fólki í Siðmennt.
Ég nota orðið "uppbyggjandi" viljandi, því að sú hugsun er aðalatriðið en ekki það að ráðast með óvild að öðrum juppbyggjandi lífsskoðunum og reyna að rífa niður fyrir þeim.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2011 kl. 13:56
Hvaða þrugl er þetta í ykkur drengir?
Ferming er bara orð, orð sem við notum hér á Íslandi vegna okkar eigin kristnu arfleifðar, því miður ;)
En orð engu að síður.
Það hefur nú varla verið til sú menning sem hefur ekki haft einhverskonar manndómsvígslu í siðum sínum, líkast til tilkomið frá þörfinni til þess að skilgreina hvenær hægt er að fara með barn sem fullorðna manneskju og leggja á það skyldur og ábyrgð.
Það getur vel verið að borgaraleg ferming Siðmenntar komi til að einhverju leyti sem mótvægi við þjóðkirkjuna, enda skiljanlegt þar sem hún hefur ráðið lögum og lofum í íslensku samfélagi alltof lengi.
Þangað til að Siðmennt byrjaði með þessar borgaralegu fermingar þá var enginn annar kostur í stöðunni en að ferma sig í kirkju og nei ferming er ekki bara fyrir kristið fólk, kannski var upphaflegi markhópurinn aðeins kristin ungmenni, heldur er þetta orðið að menningarlegum sið og ritúal.
Hvað átti barn að gera þegar allir félagarnir í kring þyrpast í kirkjuna til þess að ferma sig og fá fjöll af gjöfum? Ekki að ferma sig? Varla væri það vænlegt til vinsælda innan bekkjarsamfélags að vera furðufuglinn sem fermir sig ekki?
Enda eru fæst börn að ferma sig vegna einhverjar trúarsannfæringar, jú vissulega kunna þau að þylja upp frasana sem þeim er sagt að segja eins og t.d.: Ég vil bjóða Jesú inn í hjarta mitt eða ég trúi á Jesú því hann er besti vinur barnanna og svo framvegis, en þetta eru ekkert nema innantóm orð. Krakkar á þessum aldri hafa yfirleitt ekki náð þeim vitsmunalega þroska né rökhugsunað geta hugleitt þetta að einhverju ráði. Líf þeirra snýst um fótbolta, skólaböll og vini.
Nei, flest börn eru nú einfaldlega að ferma sig vegna þess að það er siðurinn í okkar samfélagi og hey þau fá fullt af gjöfum fyrir það, hví ekki?
Það sem Siðmennt hefur gert er að veita þeim krökkum sem hafa kannski engan áhuga á trúarbrögðum, vita ekki hvað þau halda eða einfaldlega trúa ekki kennisetningum trúarbragða stað til þess að líða eðlilega og taka þátt í samfélaginu og ekki einangrast vegna þess að þau hafa enga sérstaka trúarskoðun.
Þá vaknar spurningin, viljum við nokkuð manndómsvígslur yfirhöfuð í okkar samfélagi og ef svo er hvað viljum við að þær miðli til ungmenna í samfélagi framtíðarinnar?
Mitt persónulega álit er að manndómsvígslur eru af hinu góða, þar sem þær geta vakið áhuga ungmenna sem hingað til hafði kannski ekkert hugsað um umheiminn dýpra en það sem er að gerast í þeirra nánasta umhverfi á vitsmunalegri umræðu og hugmyndum um mannréttindi og góð gildi.
Hvað gildum og hugmyndum myndum við þá vilja miðla til þeirra í okkar þróaða samfélagi, þar sem menntun, mannréttindi, jafnrétti og umhverfisstefnur eru með þeim bestu í heiminum?
Sjáum hvað siðmennt hefur að segja um málið:
''Íslenska orðið ferming er þýðing á latneska orðinu confirmare sem merkir m.a. að styðja og styrkja. Ungmenni sem fermast borgaralega eru einmitt studd í því að vera heilsteyptir og ábyrgir borgarar í lýðræðislegu samfélagi en megintilgangur borgaralegrar fermingar er að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins og kenna þeim að bera virðingu fyrir manninum, menningu hans og umhverfi.''
og
''Með kirkjulegri fermingu staðfestir einstaklingurinn skírnarheit og játast kristinni trú. Mörg ungmenni á fermingaraldri eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit. Sum eru annarrar trúar eða trúa á guð á sinn hátt og önnur eru ekki trúuð. Fyrir þau ungmenni er borgaraleg ferming góður kostur. Allir sem áhuga hafa geta fermst borgaralega, jafnvel þótt þeir telji sig trúaða eða tilheyri trúfélagi. Fjölmargir þátttakendur með ólíkar lífsskoðanir fermast borgaralega ár hvert. Sumir tilheyra trúfélögum og aðrir ekki.''
Hmmm þetta hljómar nú ekki svo illa! En þeir hljóta þá fyrir luktum dyrum að reyna að troða illum guðleysishugmyndum í kollana á vesalings saklausu börnunum er það ekki?
Sjáum til:
''Á námskeiðinu eru umfjöllunarefnin fjölbreytt, t.d. samskipti unglinga og fullorðinna, fjölskylduna, mismunandi lífsviðhorf, frelsi, ábyrgð, hamingju, gleði, sorg, samskipti, mannréttindi og réttindi unglinga, jafnrétti, siðfræði, efahyggju og trúarheimspeki, baráttu fyrir friði, samskipti kynjanna, umhverfismál, fordóma, tilfinningar, sorgarviðbrögð og fleira. Foreldrum / forráðamönnum fermingarbarnanna er síðan boðið að koma í eina kennslustund undir lok námskeiðs.''
Hér er linkur ef þið viljið skoða þetta sjálf: http://sidmennt.is/veraldlegar-athafnir/bf-yfirlit/ferming/
Ég get meira að segja vitnað um það persónulega, hvers svo sem virði það er, þar sem ég fermdist sjálfur borgaralega, að þetta eru mjög gefandi tímar sem þú sækir þar sem kennarinn er menntaður heimspekingur og svolítið svipað og að vera í heimspeki tíma í menntaskóla eða háskóla, þar sem kennarinn ræðir stuttlega um ýmis mál og fær nemendur til þess að tjá sig um þau og rökræða og þar með kenna gildi gagnrýnar hugsunar og virðingu fyrir öðru fólki með því að setja sig í þeirra spor og svo framvegis.
Þið fyrirgefið að þetta komment er orði heldur langt, en eins og þið kannski sjáið þá er þetta mér mikið hjartans mál.
Því hvað viljum við fyrir okkar upplýsta samfélag? Börn sem kunna skil á gagnrýni hugsun, mannréttindum og visku eða börn sem eru einungis já-menn mörg þúsund ára gamalla trúarbragða frá Mið-Austurlöndum sem kennir þeim ekkert nema að gefa sig undir æðra vald sem þjónar og þrælar galdrakallsins ógurlega á himnum ofan og letur þeirra vitsmunalegu getu til betri hluta með því að troða upp á þau þeirri bölvun að trúa?
Ps: Vinsamlegast hlífið svo fólki við einhverju blaðri um kærleiksboðskap Jesú Krists, það er varla til manneskja á lífi í dag sem gæti ekki samið langtum betri boðskap en hans jarm á 10 mínútum, þar með taldir þið herrar mínir góðir.
Kærar kveðjur, með afsökun fyrir langloku
Jón hinn illi guðleysingi Ferdínand
Jón Ferdínand (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 14:12
Óskapar þverhaus er þessi Jón Blessaður Ferdinand. Sýnist honum þessi hugmyndafræði hans færa okkur betri heim? Ekki er að sjá það.
Sveinn (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 16:01
Hvernig ætli heimur sem sé algerlega trúaður líti út? Hmmm, ja nú veit ég ekki, kannski svona eins miðaldirnar!
Hvernig var ástandið í hinni alkristnu Evrópu? Var það betra en í dag? Ekki vera svona barnalegur Sveinn.
Jón Ferdínand (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 17:29
Sveinn - ég skil ekki hvernig er hægt að sjá nokkuð neikvætt við það sem Jón Ferdínand skrifaði, þvert á móti.
Kári Ævarsson (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.