Ekki í fyrsta skiptið og kannski ekki það síðasta.

Yfirlýsingar stóriðjufyrirtækja varðandi það að loka verksmiðjum sínum, leggja þær niður eða hætta við að byggja þær eru ekki nýjar af nálinni.

Árið 2000 var í fullum gangi að reisa 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði fyrir rafmagn frá Fljótsdalsvirkjun. Þá sendu fjárfestar þau skilaboð út a þeir myndu hætta við verksmiðjuna nema að þeir fengu að reisa næstum fjórum sinnum stærri verksmiðju sem þyrfti margfalt stærri virkjun með margföldum óafturkræfum umhverfisspjöllum. 

Þeir fengu sitt fram. 

2007 kom yfirlýsing frá eigendum álversins í Straumsvík að þeir myndu leggja verksmiðjuna niður eftir nokkur ár nema þeir fengju því framgegnt að hún yrði stækkuð mjög mikið og fengi stóraukna orku frá meiri virkjunum. 

Hafnfirðingar felldu naumlega að ganga að þessu og þegar eigendur álversins sáu að hótunin hafði ekki virkað, sneru þeir við blaðinu og fór út í öðruvísi og tæknilegri aukningu framleiðslunnar, sem þarf að sjálfsögðu aukna orku. 

Bæði varðandi álverið í Helguvík og álverið á Bakka var í upphafi látið í veðri vaka að þau yrðu ekki eins stór og álverið á Reyðarfirði en síðan upplýstist að hjá báðum var reiknað með því að þrýsta á um "nógu stórt álver", þ. e. 340 þúsund tonn, annars yrðu þau ekki hagkvæm. 

Líklega verður hótun Elkem Ísland ekki sú síðasta í þessa veru.

Gaman verður að sjá hvort einhvern tíma komi að því að Alcoa muni reka upp vein vegna álversins í Reyðarfirði. 

Þeir græða að vísu 40 milljarða króna árlega á því álveri og verða búnir að borga það upp á næsta ári á sama tíma og við horfum fram á langa tíð afborgana af lánunum vegna Kárahnjúkavirkjunar. 

En það er aldrei að vita nema það verði vælt yfir háu orkuverði eða skattlangningu. Fordæmin eru fyrir hendi og hreðjatakið á atvinnulífi staðanna, þar sem þessi fyrirtæki eru. 


mbl.is Loka ef skattur verður lagður á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er veruleiki þungaiðnaðarins í hnotskurn, -finna lægsta samnefnaran.

Ef settar eru reglur eða mengunarskattar hér, -þá segjast eir eitthvað annað, í eitthvað annað þriðjaheimsríki sem ekki hefur burði eða sjálfsvirðingu til að setja sóðunum stólinn fyrir dyrnar...

Alcoa hefur t.a.m farið fram á að mega byggja og reka álver á Grænlandi með Kínverskum starfsmönnum sem undanþegnir verði Dansk/Grænlenskum reglum um kaup, kjör og aðbúnað á vinnustað.

Við eigum víst sjálf að greiða fyrir afnot okkar að lofthjúpnum í formi kolefnisgjalda á bifreiðaeldsneyti en aðalsóðarnir telja sig yfir lögin hafna, -segjast fara frekar en að hlíta landslögum.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 22.11.2011 kl. 17:18

2 identicon

Ómar R. þú er hálviti

Jón Örn (IP-tala skráð) 22.11.2011 kl. 18:22

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessi pistill, sem aðrir hjá þér um virkjana og stóriðjumál, er uppfullur af fabúleringum sem standast ekki. Ég læt nægja í bili að spyrja þig, Ómar:

 hverjir eru þessir "við" sem horfum fram á langa tíð afborgana af lánunum vegna Kárahnjúkavirkjunar?

Það er augljóst, að úr því "þið" fáið ekki almenning með í lið með ykkur í friðunarfíkninni og almennri andstöðu við stóriðju og virkjanir, þá farið bara aðra leið til þess að kúga almenning undir skoðanir ykkar. VG er ykkur haukur í horni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2011 kl. 18:34

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Við" erum auðvitað öll íslenska þjóðin, sem þessi orkusölusamningur var gerður fyrir, hvort sem við vorum með eða á móti virkjuninni. Landsvirkjun er í eigu allrar þjóðarinnar, er það ekki?

Hin "almenna andstaða mín" við stóriðju og virkjanir tók ekki til rúmlega 20 virkjana sem reistar voru um allt land, en þeirra á meðal eru allar virkjanirnar frá Búrfelli upp að Vatnsfelli og Blönduvirkjun. 

Ómar Ragnarsson, 22.11.2011 kl. 19:43

5 identicon

Mér sýnist þessi vinnubrögð minna mest á það þegar Jóhanna var í kattasmölunni.

gissur jóhannesson (IP-tala skráð) 22.11.2011 kl. 20:35

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Landsvirkjun er sjálfstætt fyrirtæki, þó í eigu ríkisins sé. Það framkvæmir fyrir eigið fé og lánsfé, ekki fé úr sameiginlegum sjóði "okkar", þ.e. ríkissjóði. Þegar fyrirtæki fjárfestir og tekur lán fyrir framkvæmdum, þá er ekki litið á afborganir af lánunum sem glatað fé, heldur þvert á móti er það einmitt féð sem fer í að auka eignarhlutfall og er því í raun "grætt" fé.

Svona er þetta, auðvitað að því gefnu að hagnaður sé af fjárfestingunni. Gríðarlegur hagnaður er af Kárahnjúkavirkjun, og það strax á fyrstu 4 árum rekstrarins. Forstjóri Landsvirkjunnar vill að hagnaðurinn sé meiri og allt gott um það að segja og vonir standa til að svo verði í framtíðinni með hækkandi orkuverði í heiminum.

Í ljósi þeirrar þróunar eru dökkir tímar framundan hjá verndunarfíklum. Þeir hömruðu á því í mótmælum sínum vegna Kárahnjúka, að tap væri á framkvæmdinni og fengu aðkeypta "sérfræðinga" til að styðja þá fullyrðingu sína. Gefin var út viðamikil og dýr skýrsla árið 2001 þar sem þessu var haldið fram og til að slá ryki í augu almennings var umgjörð allra útreikninga klædd í "faglegan" búning og ýmsir hagfræðingar, rekstrarfræðingar, ferðamálafræðingar, og náttúrufræðingar skrifuðu undir til þess að ljá bullinu trúverðugleika. Ein fullyrðingin var, að ef af byggingu Kárahnjúkavirkjunar yrði, myndi ferðamönnum fækka á Íslandi um tugir prósenta og til Austurlands um 50% vegna "skaðaðrar ímyndar landsins". Á sama tíma fóru útsendarar þeirra sem létu gera skýrsluna fyrir sig, m.a. til Noregs, Bretlands og Þýskalands til þess að sverta íslensk stjórnvöld í þeim tilgangi m.a. að fæla ferðamenn (sérstaklega þá sem hafa áhuga á fallegri náttúru), frá því að koma til landsins.

 Nú liggur það fyrir, svart á hvítu, að ekki stóð steinn yfir steini í fullyrðingum þeirra og fólk er smátt og smátt að átta sig á því að það er viturlegra að ganga út frá því sem vísu að allar fullyrðingar náttúruverndarsamtaka eru rangar, þar til annað kemur í ljós.

Það er mjög miður að þannig sé komið fyrir náttúruvernd á Íslandi í dag en það kemur mér alls ekki á óvart. Um það hef ég spáð og bloggað undanfarin fjögur ár.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2011 kl. 20:57

7 identicon

Alltaf skal lamid til bakka med thinsta hamrinum.  Storijan a islandi hefur gert mart gott og lika mikinn skada fyrir umkverid a islandi og ut fra thvi se eg thvi ekki neitt til fyrir stødu ad ladur verur a nyr skattur, thessi fyrirtæki eins og allt annad her a landi.  Island er og verdur natturperla sem vid verdum ad stnda vørd um (eda attum ad standa vørd um, er thad kanski of seint ?????? veit ekki )  Goda stundir

Sævar Gundi (IP-tala skráð) 22.11.2011 kl. 21:23

8 identicon

Landsvirkjun er sjálfstætt fyrirtæki, þó í eigu ríkisins sé. Það framkvæmir fyrir eigið fé og lánsfé, ekki fé úr sameiginlegum sjóði "okkar...................................................... 

Gunnar tu aetir ad skammast tin

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 22.11.2011 kl. 21:48

9 identicon

Þetta minnir mig á þessa skopmynd -

http://www.facebook.com/photo.php?fbid=220711054663543&set=a.217603604974288.57691.217514361649879&type=1&ref=nf

. (IP-tala skráð) 22.11.2011 kl. 22:39

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er alveg ný kenning. Þjóðinni kemur ekki við hvað Landsvirkjun gerir, af því að hún er "sjálfstætt fyrirtæki þó í eigu ríkisins sé."  Sem sagt: Ríkissjóður kemur þjóðinni þá væntanlega þjóðinni ekkert við, hann er þá væntanlega "sjálfstæð fjármálastofnun, þó í eigu þjóðarinnar sé."

Og höldum áfram: Þjóðin kemur okkur öllum, Íslendingum, íslenskr þjóð, ekkert við af því að ....   Gunnar minn elskulegur, botnaðu þetta fyrir mig.

Okkur kom það þá heldur ekki við að Landsvirkjun fékk ríkisábyrgð fyrir framkvæmd sem fól í sér einhverja þá mestu áhættu sem tekin hefur verið í framkvæmd hér á landi, eða eins og lögfræðingur hennar orðaði í bréfi til landeigenda þar sem þeir voru minntir á að halda sig á mottunni og ætlast ekki til neins af virkjuninni:  "Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í tæknilegu-, umhverfislegu-og markaðslegu tilliti..."

Samkvæmt þessu á Alþingi ekkert með að vera að ræða málefni Landsvirkjunar. Hún er sjálfstætt fyrirtæki sem er engum háð nema sjálfu sér og þegar hún er rekin með tapi eins og gerðist á ákveðnu árabili kemur það þjóðinni ekkert við þótt hún eigi ríkissjóð sem á Landsvirkjunu ?!??!.

Ómar Ragnarsson, 23.11.2011 kl. 00:22

11 identicon

Ég á nú erfitt með að segja að þetta sé ekki ránnirkja á landinu. en maður þarf ekki að horfa lengra en til Noregs þar sem olíusljóðurinn er ekki lengur hægt að líta eftir vegna leyndarmálastefrnu, það er ekki lengi að bíða að þessi fyrirtæki í eigu (ríkisins) þjóðarinnar verði eins leyndardómsfull og í Noregi, sjáið grein.

http://e24.no/makro-og-politikk/raser-mot-hemmelighold-om-oljefondet/20123807

Helgi (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 04:18

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég segi hvergi að Landsvirkjun komi okkur ekki við, Ómar, ekki gera mér upp orð, hugsanir eða skoðanir.

 Landsvirkjun er hins vegar rekið sem sjálfstætt fyrirtæki og það eru ekki rekið með fjárframlögum úr ríkissjóði. Í dag er því talið til tekna að pólitísk afskipti af fyrirtækinu eru lítil, þó deila megi um það hversu lítil þau í raun eru. Að bera saman ríkissjóð og sjáfstætt fyrirtæki sem starfar á markaði, er fáheyrð vitleysa.

Áhættan vegna Kárahnjúka er eingöngu í höfðinu á þér og öðrum umhverfisverndarfíklum. Ríkisábyrgð vegna lána fyritækis í eigu ríkisins, er jákvæð í huga flestra, nema verndunarfíklanna.

Alþingi má að sjálfsögðu fjalla um fyrirtæki í eigu ríkisins. Hvenær hef ég haldið öðru fram?

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 06:53

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Ríkisábyrgð vegna lána fyritækis í eigu ríkisins, er jákvæð í huga flestra,"... auðvitað að því gefnu að lánsféð sé til þjóðhagslegra arðbærra verkefna. Komið hefur í ljós (sem vitað var reyndar fyrir), að Kárahnjúkavirkjun er arðbær ein og sér. Þá er ótalið skattar og gjöld af tugmiljarða árlegri veltu í aðkeyptri vöru og þjónustu vegna álversins í Reyðarfirði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 07:07

14 identicon

Er ekki umræðan hérna komin út fyrir höfuðpunktinn?

Þessi skattur tengist kolanotkun, eða er það koks eða viður....alla vega ekki rafmagn. Er það ekki það sem til þarf til að ná ákveðnu hitastigi?

Þetta er einfalt. Kolefnisskatturinn gerir rekstrargrunninn óbærilegan, og tölur eru upp gefnar. Miklu einfaldara fyrir fyrirtækið að flytja sig til landa sem ekki eru búin að kyngja þessu kolefnis-skattvæðingar-sulli. Eins og Kína. 

Þá getum við, hinir hrokafullu Vesturlandabúar haldið áfram að hnýta í Kínverja fyrir kolefnis-sóðaskap, á meðan okkar fólk sukkar í neysluvörum þaðan.

Bara segi sem svo.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 09:38

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef maður vill vera voðalega jákvæður, þá liggja í þessu væntanlega gríðarleg tækifæri fyrir Landsvirkjun ef stórkaupendur raforku flýja landið. Þá er hægt að selja orkuna á uppsprengdu verði  til fyrirtækja sem framleiða "eitthvað annað".

Annars er það dálítið merkilegt að það virðist mega virkja, bara ef orkan fer ekki til stóriðju.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 09:45

16 identicon

Sæll.

Gunnar Th.  er með þetta á hreinu.

Það sem fólk almennt séð virðist ekki skilja er að þeir sem reka fyrirtæki horfa til stöðugleika, það er mjög vont fyrir atvinnurekendur ef sífellt er verið að hringla með reglur og skatta og ef hið opinbera er sífellt að skipta sér að, þetta er ein ástæða kreppunnar í USA og Evrópu.

Hið opinbera er hér, líkt og annars staðar á Vesturlöndum alltof stórt og tekur alltof mikið til sín af tekjum samfélagsins. Þetta skilja núverandi stjórnvöld ekki og munu aldrei skilja enda er sósíalismi hugmyndafræði öfundar og fáfræði.

Skattar eru auðvitað ekkert annað en löglegt rán. Ég treysti ekki yfirvöldum til að fara með skattfé enda þarf ekki að skoða lengi til að sjá þá óráðsíu sem er orðin að venju hjá hinu opinbera. Af hverju mega fyrirtæki ekki græða? Skattar fæla fé frá, þetta er lögmál líkt og þyngdarlögmálið. Ef þú vilt vera sjálfum þér samkvæmur ættir þú líka að leggja til að skattar á t.d. bíla verði hækkaðir svo mikið að varla nokkur hafi efni á að reka bíl. Þú kannski vilt ekki vera sjálfum þér samkvæmur?

Ómar, myndir þú reka fyrirtæki ef þú sæir fram á að skömmu eftir að þú stofnsettir fyrirtækið yrði nánast allur hagnaður þess tekinn af þér og settur t.d. í að kyngreina fjárlög?

Í sínum ágætu athugasemdum nefnir Gunnar ekki að forstjóri LV er farinn að vinna fyrir pólitíska herra, ekki þjóðina. HA þarf að fara sem allra fyrst og aðili sem ræður við starfið þarf að taka við. Eru allir búnir að gleyma Icesave þvaðrinu í HA? Svo er ekki langt síðan hann var að tala um að Kárahnjúkavirkjun væri ekki nógu arðbær samkvæmt því sem LV miðaði við. HA og LV geta miðað við það sem þeim dettur í hug, 3%, 12%, 50% eða 120% arðbærni eiginfjár en ekkert af því skiptir máli ef LV ætlar að verðleggja sig svo hátt að enginn vill kaupa af okkur rafmagn. HA og LV virðast algerlega gleyma því að þetta er samkeppnismarkaður og svona skýjaborgir verðleggja LV einfaldlega út af markaðinum. Í hvaða veruleika lifir HA?

Helgi (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 10:53

17 identicon

Gunnar, það ætti að vera rétt hjá mér að kolefnisskattur hefur ekkert með raforkusölu að gera, - þetta er skattur sem leggst á brennsluefni til að ná háhita. En að mestu er notað rafmagn.

"Eitthvað annað" gæti svo verið Helguvík, hahahahaha.

Jón Logi (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 10:59

18 Smámynd: Benedikt V. Warén

Góður, - Helgi.  Vel meitlað hjá þér.

Benedikt V. Warén, 23.11.2011 kl. 11:03

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góð athugasemd, Helgi.

Það er góð tilbreyting að sjá að það eru fleiri en ég sem þora í þá ormagryfju að andmæla Ómari hér og hætta á að fá persónulegar svívirðingar fylgismanna hanns sem andsvar og rök. Tek það fram að Ómar sjálfur er þar algjörlega undanskilinn.

Vil þó bæta við að ég hef sett inn nokkur blogg um vanhæfi Harðar Arnarssonar og að augljóst er að hann er undir pólitískum þrýstingi vinstri stjórnarinnar, sjá:

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 12:52

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jón Logi, álver menga töluvert þó þau noti umhverfisvænt rafmagn. Þau hafa hins vegar lagt í mikinn kostnað og þróunarvinnu til að halda menguninni í skefjum og álverið í Reyðarfirði skartar fullkomnasta mengunarvarnarbúnaði sem völ er á varðandi brennisteinsmengun.

Vöktun í firðinum sýnir að sú mengun er langt undir þeim alþjóðlegu stöðlum sem farið er eftir. Ekki er þó enn farið að skattleggja slíka mengun, mér vitanlega.

CO2 mengun er hins vegar umtalsverð og illviðráðanleg en hún er ósýnileg og lyktarlaus en hefur ekki staðbundin áhrif.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 13:01

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

....hefur ekki staðbundin áhrif, þrátt fyrir fullyrðingar umhverfisverndarsinna sem staðhæfðu annað og sögðu að ólíft yrði í lokuðum firðinum. Enn eitt bullið frá þeim og listinn er orðinn mjöööög langur af tilhæfu og rakalausu bullinu frá þeim.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 13:05

22 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Á auðvitað að setja mengunnarskatt á þetta. Að sjálfsögðu. Best væri að gera það á samevrópsku leveli. Og vonandi að EU farið að koma því í framkvæmd.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.11.2011 kl. 13:27

23 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ps. annars eru það vindmyllur sem eru málið. Landsvirkjun er LOKSINS að kveikja á perunni:

,,Landsvirkjun hyggst reisa eina eða tvær 45 metra háar vindmyllur við Búrfellsvirkjun á komandi ári í rannsóknarskyni. Gangi það eftir mun í framhaldinu rísa þar vindmyllugarður líkt og í nágrannalöndunum og gæti vindorka orðið stór hluti af orkuframleiðslu Íslendinga, að mati Óla Grétars Blöndal Sveinssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs hjá Landsvirkjun." (visir) 18.okt)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.11.2011 kl. 13:30

24 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vindmyllur? Hvað á að mala?

Þú heldur að þessu verði ekki mótmælt? Think again

energy_windmills_california_1121719.jpg

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2011 kl. 13:35

25 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú jú, þessu verður án ef mótmælt upp að einhverju marki. það er fátt algjörlega óumdeilt. En þetta er nú framtíðin og ég er sérlega ánægður með að Landvikjun skli loksins loksins vera kominn af stað í þessu þjóðþrifamáli.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.11.2011 kl. 13:59

26 identicon

Ómar, sjáðu vindmylluskóginn í aths. nr. 24.

Þið umhverfissinnar hljótið að vera ánægðir með þennan virkjunarkost.  Það er jú ekkert uppistöðulón sem fylgja svona vindmyllum.

En nú ættuð þið umhverfisverndarsinnar að vera ánægðir.  Búið að loka fyrir alla stóriðju inn í landið og verið að hrekja þær sem fyrir eru úr landi með ofurskattlagningu (refsisköttum).

Nú er við lýði "eitthvað-annað" hagkerfið og árangurinn lætur ekki á sér standa. 
Hátt atvinnuleysi er orðið "eðlilegur" hlutur af þjóðlífinu, landið er að verða einn allsherjar þjóðgarður og verndarsvæði, skattar hækka bara og hækka til að halda uppi vinstri-menningarelítunni, og allir eru að verða jafnir, þ.e. jafn fátækir.

Þið umhverfissinnar hljótið að vera yfir ykkur ánægð með þessa þróun. 

Svona getur lítill en hávær minnihlutahópur komið á manngerði eymd og volæði í nanfni umhverfisverndar.

Páll P. Hallgeirs. (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 14:26

27 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Málflutningur ykkar álstóriðjuaðdáenda, skattleysissinna og ríkishatara er ein ástæða fyrir sjallahruninu.

þið talið niður þjóð ykkar og almenning allan en viljið gefa klíkum allrahanda frjálsar hendur.

Við höfum alveg nýleg fordæmi um hvernig málflutningur ykkar og stefna virkar. Namelý rústalagning á landinu.

Svo: Nei takk, eigi mun eg ykkar ráðslagi fylgja.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.11.2011 kl. 15:07

28 identicon

Gunnar, lastu ekki fréttina? Þetta snýst ekki um álver, heldur JÁRNBLENDIVERKSMIÐJUNA. Þetta er allt annað ferli og allt annar hiti heldur en í Álbræðslu, og losar því talsvert af kolefni út.

http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=3924

Jón Logi (IP-tala skráð) 24.11.2011 kl. 11:12

29 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Álver losa líka töluvert CO2 og álverið í Reyðarfirði mun borga mest af öllum stóriðjufyrirtækjunum, enda stærst.

Þetta "mengunargjald" kemur ofan á svipað sam-evrópskt gjald árið 2013. Hér verður því um tvísköttun að ræða. En aðal atriðið er að íslensk stjórnvöld eru að bæta á óorð sitt gagnvart erlendum fjárfestingum. Eins og það hafi ekki verið nóg fyrir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.11.2011 kl. 14:47

30 identicon

Nú týrir á tíkinni.

Þótt að ég sé nokk sannfærður um að mannana verk ýti undir hnatthlýnun, þá finnst mér þessi skattaleið vera algert bull.

Fyrir það fyrsta, er eitthvert stærsta iðnríki heims (Kína) ekki með. En þrátt fyrir það eru öll Vesturveldin í fullum innkaupum úr þeim potti, og ýkist þá aðstöðumunur í framleiðslu enn frekar.

Og svo er það skattalögmálið. Skattur sem settur er á fer yfirleitt ekki aftur af. Hann fer ekki heldur endilega í það sem honum var ætlað.

Að endingu....Parkinsonslögmálið. Bjúró-krata batterí hafa eina aðal-tilhneigingu, - að vaxa. Þarna er kominn fjárstofn til að búa til heilu kerfismálaráðuneytin og klóna Humpfrey Appleby í þúsundum eintaka.

Og á meðan brenna kol og olía, og "peak oil" verður fjær en menn halda vegna hopunar íss og nýrrar tækni.

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.11.2011 kl. 09:07

31 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og hvert er markmið VG með ofurskatti á álfyrirtæki á Íslandi. Að minnka losun gróðurhúsalofttegunda? Minnka notktun áls í heiminum? Eða er bara allt í lagi að menga, svo framarlega að það sé borgaður SKATTUR af því?

Formaður NÍ fagnaði þessu í sjónvarpsvitali.

Mengun mun ekki minnka þó skattaárátta vinstrimanna blómstri. Vöruverð mun hins vegar hækka.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.11.2011 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband