Lýsing á golfmóti sem aldrei var háð. Viðtal við dauðan mann.

Gagnrýnandinn í Vín sem skrifaði lofsamlega síðastliðinn mánudag um tónleika Georges Michaels með útlistun á flutningi söngvarans í nafngreindum lögum, er ekki fyrstur manna til að lenda í því að tónleikunum hafði verið aflýst og voru því aldrei haldnir.

Mig rámar í að minnsta kosti þrjú svipuð atvik hér á landi fyrir nokkrum áratugum.  

Í eitt skiptið var um tónleika að ræða en í hin tvö skiptin um að ræða íþróttafréttir. 

Skrifað var í dagblað í smáatriðum um golfmót, sem aldrei var haldið og í hitt skiptið birt viðtal við einn af helstu frömuðum Manchester United, sem hafði legið í gröf sinni í áratug!

Þetta með golfmótið var hrekkur nokkurra kunningja blaðamannsins, sem vissu að hann hafði dottið illilega í það í tvo daga og þurfti að redda því snarlega í fyrsta tölublaði að skrifa um þau íþróttamót sem haldin höfðu verið á þessu minnisleysistímabili hans.

Þeir töluðu sín á milli um uppskáldað golfmót, sem aldrei var haldið, þannig að hinn timbraði heyrði aðeins ávæning af því, en þó nóg til þess að hann varð forvitinn og áhyggjufullur yfir því að vanrækja svona skemmtilegt mót og spurði hvort þeir hefðu hjá sér skriflegar upplýsingar um það.

Þeir þóttust finna þær fyrir hreina tilviljun og létu hann hafa þær.

Afar þakklátur fyrir þennan vinagreiða skrifaði blaðamaðurinn síðan þessa fínu frétt um mótið sem aldrei var haldið.

Í hitt skiptið var íþróttafréttaritari gabbaður sem hafði yndi af því að "skúbba".

Af tærri snilld var hann gabbaður í gildru sem bar þann ávöxt að hann skrifaði þess líka flottu skúbbfrétt með viðtali sínu við einn af helstu frömuðum Manchester United.

Gallinn var bara sá að viðmælandinn hafði látist fyrir tiu árum. 

Ég held að ég hafi ekki heyrt um svakalegra "skúbb" en að birta slíkt viðtal.

Ekki fylgir sögunni hvort íþróttafréttaritarinn reyndi eftirá að koma sér út úr vandræðunum með því að segjast hafa tekið viðtalið með aðstoð íslensks miðils, en miðað við það hvað þeir voru öflugir lengi vel hér á landi, hefði hann kannski getað reynt það. 


mbl.is Glimrandi gagnrýni um tónleika sem var aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband